„Til skammar ef stjórnvöldum dytti í hug að opna spilavíti“

Áhyggjufullur. Júlíus segir að Samtök áhugafólks um spilafíkn séu að fá mjög alvarleg mál inn á borð til sín. Hann varar við því að opnað verði spilavíti hér á landi.

Áhyggjufullur. Júlíus segir að Samtök áhugafólks um spilafíkn séu að fá mjög alvarleg mál inn á borð til sín. Hann varar við því að opnað verði spilavíti hér á landi. Mynd DV.

Mánudagur 8. febrúar 2010 kl 10:34

Höfundur: Einar Þór Sigurðsson (einar@dv.is)

„Það væri til háborinnar skammar ef stjórnvöldum dytti það í hug að taka þátt í því að opna spilavíti hér á landi,“ segir Júlíus Þór Júlíusson, formaður Samtaka áhugafólks um spilafíkn. Fréttablaðið greinir frá því í dag að Icelandair vilji reka spilavíti á Hótel Nordica. Er málið komið inn á borð til hagsmunaaðila til umsagnar.

Júlíus er alfarið á móti því að spilavíti verði opnað á Íslandi og segir hann að það myndi auka enn á hættuna á spilafíkn. Í Fréttablaðinu í dag segir Björgólfur Jóhannesson, forstjóri Icelandair, að spilavítið gæti orðið mikill styrkur fyrir ferðaþjónustuna. Hann hafi fundið fyrir miklum áhuga erlendis frá að boðið verði upp á slíka starfsemi hérlendis.

Júlíus segist hafa áhyggjur af því að það verði ekki bara ríkir einstaklingar sem komi til með að nýta sér spilavítið. „Þetta verða ekkert bara ríkir einstaklingar sem fara þarna inn. Þetta á eftir að vinda upp á sig og gera málið ennþá alvarlega en það er í dag,“segir hann.

Júlíus segir að samtökin séu að fá mjög alvarleg mál inn á borð til sín og því væri ekki á það bætandi að löglegt spilavíti myndi opna hér á landi. Hann nefnir dæmi af ungum pókerspilara sem missti allt sitt.

„Ég get sagt þér eitt gott dæmi. Móðir ungs drengs hafði samband við mig og hann var nýbúinn að eignast barn og nýbúinn að kaupa íbúð með kærustunni sinni. Hann var búinn að fá foreldra sína og bróður til að skrifa upp á heimildir í tveimur bönkum. Svo fór þetta allt í skrall. Hann reyndi að taka líf sitt og stelpan fór frá honum með barnið. Foreldrar hans og bróðir sátu uppi með það sem þau voru í ábyrgðum fyrir. Það er ekki á það bætandi að opna spilavíti.“

Í Fréttablaðinu í dag segist Katrín Júlíusdóttur iðnaðarráðherra sjá bæði kosti og galla við hugmyndina. Annars vegar kynni að vera jákvætt að færa spilamennskuna upp á yfirborðið og ríkið gæti haft af henni tekjur. Á hinn bóginn væri spilafíkn alvarlegt vandamál.