Hugleiðing dagsins
Eftir því sem við ástundum meiri sjálfsskoðun, þeim mun betur áttum við okkur á því hversu oft við brugðumst við á neikvæðan hátt vegna þess að “stolt okkar var sært.” Stolt mitt og dramb er rótin að flestum persónulegum vandamálum mínum. Þegar stolt mitt er “sært”, svo dæmi sé tekið, þá upplifi ég nánast undantekningarlaust gremju og reiði – stundum að því marki að ég er ófær um að tala eða hugsa skynsamlega. Þegar ég er í slíku tilfinningalegu feni, þá verð ég að minna sjálfan mig á að það er stolt mitt – og einvörðungu stoltið – sem hefur særst. Mér farnast best, á slíkri stundu, að reyna að slaka á og taka smá pásu uns ég er aftur fær um að vega og meta vandamálið á raunsæan hátt.

Þegar stolt mitt er sært eða því ógnað, mun ég þá biðja um auðmýkt svo ég geti risið upp yfir hið gamla sjálf?

Bæn dagsins
Megi ég vita að þó svo að stolt mitt sé sært þá þarf ekki að vera að ég hafi skaðast á nokkurn annan hátt. Megi ég vita að stolt mitt getur þolað ýmislegt og samt risið aftur sterkara en nokkru sinni áður. Megi ég vita að í hvert sinn sem stolt mitt verður fyrir höggi, þá er það allt eins líklegt til þess að verða illgjarnara, fara í meiri vörn, ósanngjarnara og hvassara. Megi mér lærast að setja hið uppskafða stolt mitt á sinn stað, þangað sem það verður ekki svo auðveldlega sært – eða svo viljugt til þess að eigna sér allan heiðurinn.

Minnispunktur dagsins
Auðmýkt er eina boðvaldið yfir stoltinu.