Hugleiðing dagsins
Þegar stolt er aðaldrifkraftur minn – þegar sjálfið er við stjórn – þá er ég að hluta til eða algjörlega blindur á galla mína og ókosti. Á þeirri stundu er huggun það sísta sem ég þarfnast. Ég þarfnast miklu frekar félaga úr GA prógraminu sem skilur hvað er í gangi og sem hikar ekki við að brjóta gat á veggin sem mitt eigið sjálfsálit hefur reist í kringum mig, svo ég megi á ný njóta sólargeisla skynseminnar.

Gef ég mér tíma til þess að yfirfara og endurskoða framfarir mínar, að tékka á sjálfum mér á hverjum degi, og reyna umsvifalaust að ráða bót á því sem fer úrskeiðis?

Bæn dagsins
Ég bið þess að GA félagarnir – eða bara einn þeirra – sé nægilega heiðarlegur til þess að sjá þegar ég byrja að hrasa um stoltið og nægilega hugrakkur til þess að benda mér á það. Ég traðkaði svo lengi á eigin sjálfsvirðingu að það er hætt við að hún tútni út, þegar mér byrjar að ganga vel í GA prógraminu, uns hún verður útbólgið sjálfsálit. Megi gestsaugað sýna mér raunsanna mynd af því hvernig ég er að höndla afrekið að vera spilalaus – með þakklátri auðmýkt eða með stolti.

Minnispunktur dagsins
Sjálfsvirðing eða sjálfsánægja?