GA samtökin

Heimasíða GA samtakanna á Íslandi

Browsing Posts published in August, 2023

Hugleiðing dagsins
Eftir að við höfum gert reikningsskilin í Fimmta Sporinu, urðum við þess “albúin”, eins og segir í Sjötta Sporinu, til þess að losna við þessa skapgerðarbresti. Það er auðvelt, daginn eftir að spilað frá sér allt vit, að vera “albúin” en við vitum að fúsleiki okkar á þeirri stundu kann að litast af eymdinni sem við upplifum á því augnabliki. Eftir því sem lengra líður frá síðasta spilafylleríi, þeim saklausara fer það að líta út í minningunni og jafnvel spennandi.

Er ég reiðubúinn Á ÞEIRRI STUNDU að losna við skapgerðarbresti mína?

Bæn dagsins
Megi ég “vera þess albúinn” að losna við skapgerðarbresti mína. Megi þetta orð “albúinn” endurvekja staðfestu mína skyldi hún dofna með tímanum og bindindi frá spilum. Megi Guð vera minn styrkur, þar sem ég get ekki aleinn losnað við skapgerðarbrestina.

Minnispunktur dagsins
Ég er “albúinn.”

Hugleiðing dagsins
Öll 12 Sporin eiga það sameiginlegt að þau biðja okkur að fara þvert gegn eigin tilhneigingu og löngun; þau gata, kreista og á endanum hleypa þau loftinu úr sjálfsáliti okkar. Þegar kemur að því að hleypa loftinu úr sjálfsáliti þá eru fá Spor eins erfið og Fimmta Sporið, sem krefst þess að við “viðurkennum fyrir okkur sjálfum og annarri manneskju nákvæmlega í hverju yfirsjónir okkar felast.” Fá Spor eru eins erfið og það Fimmta en fá eru eins mikilvæg fyrir lang-tíma frelsi frá spilafíkn og einmitt Fimmta Sporið.

Hef ég hætt að lifa einsamall með kvalafullu draugum fortíðar?

Bæn dagsins
Megi Guð veita mér styrk til þess að horfast í augu við Fimmta Sporið – þann skelfi sjálfsálitsins. Megi ég ekki hika við að deila annmörkum mínum með GA félaga sem ég treysti. Með því að viðurkenna eigin ábyrgð á gjörðum mínum og deila því með öðrum, þá er ég í raun að losa mig við miklar byrðar.

Minnispunktur dagsins
Í kvöl Fimmta Sporsins felst frelsi mitt.

Hugleiðing dagsins
Nýliðar spyrja stundum “Hvernig virkar GA prógramið?” Algengustu svörin sem ég heyri eru “mjög vel” og “hægt.” Ég met bæði svörin mikils, þó þau hljómi spaugilega í fyrstu, því sjálfsskoðun mín á það til að vera gölluð. Stundum kemur það fyrir að ég hef klikkað á því að deila göllum mínum með öðrum; á öðrum stundum hef ég viðurkennt að vera með galla sem ég hef séð hjá öðrum, frekar en mína egin; og á enn öðrum stundum hef ég frekar verið að kvarta yfir vandamálum heldur en að viðurkenna galla í eigin fari. Staðreyndin er sú að engum líkar að grannskoða sjálfan sig í leit að göllum, það niðurbrot stolts sem því fylgir og þá viðurkenningu á eigin göllum sem tólf sporin krejfast. En á endanum sjáum við að GA prógramið virkar í raun og veru.

Hef ég tileinkað mér þau einföldu andlegu verkfæri sem mér bjóðast ?

Bæn dagsins
Megi guð forða mér frá því að viðra mína eigin galla með því að bera þá saman við galla einhvers annars. Við erum þannig úr garði gerð að við berum saman og metum, hugsum “verri en”, “ekki eins slæmt”, eða “betri en.” Megi ég gera mér grein fyrir að galla mínir eru gallar, hvort sem þeir eru “betri” en “annarra.”

Minnispunktur dagsins
Gallar eru gallar, jafnvel þegar þeir eru “betri en.”

18.ágúst

No comments

Hugleiðing dagsins
Sjálfsblekking var samofin nánast öllum okkar gjörðum og hugsunum, því við erum spilafíklar. Við urðum sérfræðingar í því að telja sjálfum okkur trú um að svart væri hvítt, að rangt væri rétt eða jafnvel að dagur væri nótt. Nú þegar við erum komin í GA þá er þörf okkar fyrir slíka sjálfsblekkingu að hverfa. Nú orðið sér trúnaðarmaður minn um leið þegar ég byrja að ljúga að sjálfum mér. Og ég átta mig á því, þar sem trúnaðarmaður minn beinir þessum ranghugmyndum á braut, að ég gríp æ sjaldnar til slíkra varna gagnvart raunveruleikanum og óþægilegs sannleika varðandi mig sjálfan. Stolt mitt, ótti og þekkingarleysi hefur í kjölfarið smátt og smátt glatað þeim eyðileggingarkrafti sem það hafði yfir mér.

Geri ég mér grein fyrir því að eigin upphafning nægir engan veginn?

Bæn dagsins
Megi mér skiljast að ég verð að líta til míns æðri máttar og einnig að treysta félögum mínum í GA í sjálfsskoðuninni í fjórða sporinu. Því við speglum hvert annað í öllum okkar órum og ranghugmyndum og með þeirri speglun öðlumst við heildstæðari yfirsýn, sem við gætum ekki ef við værum ein á báti.

Minnispunktur dagsins
Til þess að sjá sjálfan mig frá öllum hliðum þá þarf ég þrjú sjónarhorn – mitt eigið, guðs og vina minna.

17.ágúst

No comments

Hugleiðing dagsins
Í fjórða sporinu er lagt til að við gerum óttalaus siðferðisleg og fjárhagsleg reikningsskil á lífi okkar – ekki siðlausa skrá um okkur sjálf. Sporin eru leiðarvísir að bata, ekki tæki til þess að hýða okkur með. Að gera reikningsskil á lífi sínu þýðir ekki að einblína eigi svo á gallana að kostirnir hverfi algjörlega. Á sama hátt þýðir það að sjá hið góða í sjálfum sér ekki endilega að maður sé hrokafullur né fullur sjálfbirgingsháttar. Ef ég lít á kosti mína sem guðs gjöf, þá get ég gert reikningsskil á lífi mínu af sannri auðmýkt og um leið fundið til yndis vegna þess sem er ljúft, ástríkt og drenglynt í fari mínu.

Ætla ég að trúa, eins og Walt Whitmann orðaði það, “Ég er meiri, betri en ég hélt; ég vissi ekki að innra með mér byggi svo mikil góðmennska….”?

Bæn dagsins
Þegar ég uppgötva góða hluti í mínu fari, eftir því sem ég kafa dýpra í kosti mína og galla, megi ég þá þakka þeim sem á þakkrinar skyldar – Guði, þeim er færir okkur hið góða. Megi ég kunna að meta hvaðeina sem er gott í mínu fari með auðmýkt, sem gjafar frá guði.

Minnispunktur dagsins
Góðmennska er guðs gjöf.

16.ágúst

No comments

Hugleiðing dagsins
Að gera reikningsskil á lífi sínu þarf ekki að þýða að allt sé í mínus. Þeir eru fáir dagarnir sem við höfum ekki framkvæmt eitthvert góðverk. Þar sem ég átta mig á og horfist í augu við galla mína, kem ég líka auga á hina mörgu kosti mína og átta mig á að þeir eru jafn raunverulegir og gallarnir. Meira að segja þegar við reynum en mistekst eitthvað – þá er það jákvætt, við reyndum þó. Ég ætla að reyna að læra að meta kosti mína, því ekki einvörðungu vega þeir upp á móti göllum mínum heldur eru þeir sá grunnur sem ég byggt bata minn og framtíð á. Það er alveg jafn mikil sjálfsblekking að sleppa því góða í fari manns eins og að reyna að réttlæta gallana.

Get ég sótt hughreystingu í jákvæða eiginleika mína og sætt mig við sjálfan mig sem vin?

Bæn dagsins
Ef ég finn einungis galla, þegar ég vinn fjórða sporið, þá get ég verið viss um að mér er að yfirsjást eitthvað – hið góða og jákvæða í mínu fari. Þó svo að yfirgengilegt lítillæti geti verið félagslega viðurkennd þá getur það verið jafn óheiðarlegt eins og að réttlæta galla sína. Jafnvel sá sem virðist vera algjörlega misheppnaður hefur eitthvað gott til að bera ef grannt er skoðað.

Minnispunktur dagsins
Að gefa sjálfum mér, ef ekki A fyrir að reyna, í það minnsta B mínus.

15.ágúst

No comments

Hugleiðing dagsins
Oft er sagt að það sé ekki hægt að dæma bók af kápunni einni saman. Hjá mörgum okkar var “kápan” ekki svo slæm; að gera siðferðisleg og fjárhagsleg reikningsskil ætti ekki að vera svo mikið mál. En eftir því sem við köfuðum dýpra þá uppgötvuðum við að “kápan” gaf ekki raunsanna mynd. Við höfðum rækilega falið og hulið galla okkar undir hjúpi sjálfsblekkingar. Þess vegna getur sjálfsskoðun, eins og felst í fjórða sporinu, verið langtíma verkefni; við verðum að halda verkinu áfram á meðan við erum enn blind á þá bresti sem leiddu okkur í fíkn og eymd.

Ætla ég að reyna að horfast í augu við sjálfan mig eins og ég er og leiðrétta hvað eina sem kemur í veg fyrir að ég verði sú manneskja sem ég vil vera?

Bæn dagsins
Megi guð leiðbeina mér í sjálfsskoðuninni, því ég hef svo lengi falið mikið af göllum mínum, fyrir vinum, ættingjum og síðast en ekki síst fyrir sjálfum mér. Ef ég fæ frekar á tilfinninguna að verið sé að brjóta á mér heldur en að ég skynji að ég sé sá brotlegi, megi ég þá taka það sem vísbendingu um að ég þarf að grafa dýpra í leitinni að hinum raunverulega mér.

Minnispunktur dagsins
Að stunda sjálfsskoðun er að byggja fyrir framtíðina.

14.ágúst

No comments

Hugleiðing dagsins
Fjórða sporið gerir mér kleift að sjá hinn sanna mig – eins og ég raunverulega er – skapgerðareinkenni mín, hvatir, viðhorf og hegðun. Í GA er mér kennt að vera staðfastur í leit minni að fyrri mistökum. Hvenær var ég, svo dæmi sé tekið, sjálfselskur, óheiðarlegur, eigingjarn og hræddur? Mér er líka bent á að hinn rótgróni vani minn, að réttlæta allar mínar gjörðir, geti orðið til þess að ég kenni einhverju öðru en eigin göllum um misgjörðir mínar.

Trúi ég því að persónuleg hreinskilni sé oft betri heldur en mikil þekking?

Bæn dagsins
Megi ég fara mér hægt í að vinna fjórða sporið, ekki drífa það af í einhverskonar sjálfshóli. Megi ég gera mér grein fyrir því að þegar ég hef einu sinni unnið þetta spor þá verð ég að vinna það aftur og aftur uns það verður hluti af lífsmynstri mínu. Megi ég vernda fjórða sporið fyrir þeim gamla ávana mínum að taka enga ábyrgð á gjörðum mínum.

Minnispunktur dagsins
Persónulegur heiðarleiki ryður leiðina fyrir bata.

13.ágúst

No comments

Hugleiðing dagsins
Fjórða sporið felst í því að gera óttalaus, siðferðisleg og fjárhagsleg reikningsskil á lífi okkar. Fyrir sum okkar getur þetta sýnst óvinnandi verk; það er ekkert erfiðara en að sjá sjálfan sig í réttu ljósi, eins og maður raunverulega er. Við flýjum frá einni misgjörð til annarrar, ætíð með afsakanir og bendandi á það hvað við séum nú góð. En þegar við gerumst fús til þess að horfast í augu við það hvernig við séum, þá verðum við fær um að takast á við galla okkar og vinna á þeim.

Er ég fús til þess að opna augun og stíga út í sólarljósið?

Bæn dagsins
Megi minn æðri máttur stöðva mig ef ég legg á flótta frá sjálfum mér. Því ég mun aldrei komast yfir misgjörðir mínar eða þá persónuleikabresti sem ollu þeim, ef ég leyfi þeim að hafa yfirhöndina og legg á flótta undan þeim. Megi ég ná að hægja á mér og horfast í augu við misgjörðir mínar og persónleikabresti, með áreiðanlegast vopninu sem ég veit um – sannleikanum.

Minnispunktur dagsins
Ég ætla ekki að vera á flótta frá sjálfum mér.

12.ágúst

No comments

Hugleiðing dagsins
Zen meistari var eitt sin spurður; “Hvernig ferðu að því að viðhalda hugarró og friði?” Hann svaraði; “Ég yfirgef aldrei staðinn sem ég hugleiði á.” Þrátt fyrir að hann hugleiddi snemma á morgnanna, þá bar hann með sér friðsæld þeirrar morgunstundar það sem eftir lifði dagsins.Að hægja á og róast er eitt af því erfiðasta sem spilafíkill tekst á við í batanum. Að vera á fullu – allan tímann – var orðinn vani hjá mér og ég varð að læra upp á nýtt að hægja á mér og hlusta. Að byrja daginn með bæn og hugleiðslu getur verið gjöfulasta stund dagsins fyrir mig. Þegar ég kýs að taka þann frið og þá hugarró, sem ég öðlast á slíkum stundum, með mér inn í daginn þá virðist mér sem heimurinn hægji á sér og hreyfist á sama hraða og ég.

Kann ég að meta þann frið sem fæst með hugleiðslu?

Bæn dagsins
Megi sérhver dagur byrja rólega og haldast friðsæll, svo fremi að mér takist að hafa hugann við það verk sem liggur fyrir hverju sinni, í stað þess að æða áfram í ójafnvægi. Æðibunugangur og hraði var einkenni mitt á meðan ég var virkur en nú einkennir æðruleysið mig.

Minnispunktur dagsins
Að hleypa æðruleysinu inn í líf mitt.