Ég er 22 ára strákur og ég er spilafíkill. Ég á mér kannski ekki langa sögu, enda er það ekki það sem þarf til þess að verða spilafíkill. Ég sá spilafíkla alltaf fyrir mér sem menn á miðjum aldri, með enga fjölskyldu, búnir að vera spilandi í allavega 30 ár og búnir að spila frá sér tugi milljóna. Ef maður náði ekki þessum standard þá var maður ekki spilafíkill, fannst mér. Þetta er alls ekki rétt, fjarri lagi, því ungt fólk getur alveg eins verið með þessa fíkn líka, það breytir engu máli hvað fólk hefur spilað lengi.

Mín spilamennska byrjaði snemma á unglingsárunum, sirka 13 ára, þegar við vinir mínir byrjuðum að spila stundum póker saman, þó bara fyrir mjög litlar upphæðir. Í fyrsta skipti sem ég spilaði þá vann ég, það hafði töluverð áhrif á mig, því mér fannst svo gott að vinna. Þetta hélt áfram í einhvern tíma en þetta varð samt ekkert að neinu vandamáli, allavega ekki sem ég tók eftir, en þetta hélt samt áfram að vaxa hjá mér. Þetta varð ekki að stóru vandamáli fyrir mig fyrr en ég var orðinn 17 ára gamall, kominn með bílpróf og byrjaður að reykja. Þá byrjaði ég dálítið að spila í spilakössum, fyrir afgangs klink sem ég fékk fyrir sígarettupakkann sem ég var búinn að kaupa. Með tímanum byrjaði ég að setja nokkra hundraðkalla í og stundum seðla líka, ef mér fannst kassinn eitthvað vera að gefa. Svo á þessum tíma, byrjaði pókermenningin að breiðast hratt út, og flest allir vinir mínir voru byrjaðir að spila ansi oft. Sumir þeirra voru meira að segja byrjaðir að spila á netinu. Ég ákvað þá nokkuð oft að fara með þeim og prufa þetta og fannst þetta alveg gríðarlega gaman.

Þetta varð gríðarlega mikið vandamál fyrir mig þegar ég byrjaði að spila á netinu. Netspilunin virkaði vel fyrir mig og má segja að hún gjörsamlega heltók mig. Þar spilar maður margfalt fleiri hendur á miklu styttri tíma og er því mun fljótari að tapa niður. Það tók mig mjög stuttan tíma að tapa öllum mánaðarlaunum mínum í gegnum internetpóker. Eftir að ég byrjaði að spila á netinu þá komu oft tímar þar sem það hvarflaði að mér að ég væri spilafíkill, en það var bara tímabundin hugsun sem ég réttlætti síðan með einhverri vitleysi. Það sem kom mér líka á óvart var það hversu margir spiluðu póker eða einhver önnur fjárhættuspil á netinu, ungt fólk, og það spilaði þetta líka hvar sem er, jafnvel í kennslustundum í skólanum. Þetta er gríðarlega útbreitt og það eru mjög miklar líkur á því að þetta fari mjög illa með fólk að spila fjárhættuspil, sérstaklega á internetinu. Þar, eins og ég segi, getur maður spilað svo miklu meira á miklu minni tíma, og þar af leiðandi, eytt miklu meiri peningum. En svona gekk þetta hjá mér í ansi langan tíma, ekkert breyttist.

Ég var búinn að gera svo margt slæmt, ljúga endalaust, stela peningum og margt fleira, en ekkert gerðist fyrr en ég missti vinnuna mína, en ég var rekin þaðan fyrir að stela. Þá hélt ég að lífið mitt væri búið, að enginn myndi hjálpa mér. Það var alls ekki þannig og öll fjölskyldan mín studdi mig og hjálpaði mér að finna út úr vandamálinu. Við komumst að þeirri niðurstöðu að ég væri spilafíkill og að ég þyrfti augljóslega að mæta á fund fyrir spilafíkla. Við fundum út úr því m.a. með því að fara á heimasíðu GA-samtakanna (Gamblers Anonymous) og taka þar próf sem er hægt að taka, og eftir að ég tók það var enginn vafi um hvert vandamálið væri. Það var gríðarlega erfitt að stíga það skref, en það var það besta sem ég gat gert. GA-fundirnir eru orðnir hluti af minni rútínu í dag og án þeirra væri ég ekki búinn að ná jafn langt og ég hef gert.
Spilafíknin gerði mig að allt öðrum manni, hún breytti mér. Spilafíknin gerði mig að lygara, svikara, fyllti mig af skömm, dróg mig mikið niður með hverjum deginum sem leið, þannig að allir dagar hjá mér voru mjög slæmir. Mér leið alltaf illa, vegna þess að ég var alltaf að leyna einhverju fyrir einhverjum eða ég var að stela o.s.frv. Á meðan ég var að spila þá var mér alveg sama um hvað aðrir hugsuðu um mig, þá hugsaði ég bara um sjálfan mig og spil. Ég tapaði tímanum oft og sleppti því að gera gríðarlega margt vegna þess að ég sat fastur í spilum.