GA samtökin

Heimasíða GA samtakanna á Íslandi

Browsing Posts in Fréttir

Heilbrigðisráðuneytið leggst alfarið gegn því að heimilað verði að opna spilavíti á Íslandi. Það tekur undir orð landlæknis um neikvæð áhrif spilavíta á heilsu landsmanna. Þetta kemur fram í svari ráðuneytisins við fyrirspurn frá iðnaðarráðuneytinu dags. 27. nóvember 2009.

Iðnaðarráðuneytið óskaði eftir óformlegri umsögn heilbrigðisyfirvalda um lögleiðingu á starfsemi spilavíta hér á landi.

Ráðuneytið óskaði umsagnar landlæknis en embættið leitaði upplýsinga hjá SÁÁ, Félagi sálfræðinga og Félagi spilafíkla. Einungis það síðastnefnda sendi inn umsögn.

Ennfremur leitaði embættið sérstakrar umsagnar hjá dr. Daníel Ólasyni, dósent við Sálfræðideild Háskóla Íslands en hann er meðal þeirra fræðimanna hér á landi sem einna mest hefur kynnt sér og rannsakað spilamennsku og spilafíkn meðal Íslendinga.

lokaorðum umsagnar landlæknis segir:

Byggt á ofangreindum rannsóknum og meðfylgjandi umsögnum þá er það niðurstaða Landlæknis að opnun spilavíta á Íslandi geti haft neikvæð áhrif á heilsu landsmanna.  Spilafíkn er vaxandi vandamál á Vesturlöndum samhliða sífellt fleiri möguleikum til að stunda peningaspil, t.d. á veraldarvefnum. Opnun spilavíta yrði vafalítið nýr og spennandi valkostur notenda.  Vafasamt er að slíkt sé æskileg þróun í ljósi hugsanlegra áhrifa á heilsu íbúanna.  Áður en ákvörðun er tekin um að hefja slíka starfsemi þurfa stjórnvöld því að íhuga vel kosti og galla hennar.  Landlæknir leggur áherslu á að ef opnun spilavíta verði að veruleika á Íslandi kalli það á að verulegu fjármagni verði varið í forvarnarstarf og meðferð spilafíkla.  Einnig krefst slík ákvörðun þess að nægilegt fjármagn verði lagt í rannsóknir til að fylgja eftir hugsanlegum áhrifum aukins framboðs peningaspila á heilsu íbúanna.

Stöð 2, 10. feb. 2010 12:30

Segir löggjöf um spilavíti „forkastanlega hugsun“

mynd
Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna, er ekki hrifinn af áformum um rekstur spilavítis á Nordica.

Setja þarf sérstaka löggjöf um rekstur spilavíta ef áform Icelandair og Arnars og Bjarka Gunnlaugssona eiga að verða að veruleika. Stjórnarþingmaður segir landið hafa verið eitt stórt spilavíti og segist aldrei ætla að styðja slíka löggjöf.

Ragna Árnadóttir, dómsmálaráðherra, segir í samtali við Morgunblaðið í dag að setja þurfi sérstaka löggjöf um rekstur spilavíta áður en hægt er að setja upp slíka sali hér á landi. Iðnaðarráðuneytið hefur nú óskað eftir umsögn frá lögreglunni um hvort það sé rétt sem haldið er fram, að það að leyfa starfsemina hefði þau áhrif að fækka ólöglegum spilavítum í undirheimaklúbbum.Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna, segist aðeins vera tilbúinn að styðja löggjöf um spilavíti ef hún er til þess fallin að þrengja að starfsemi spilavíta, ekki liðka fyrir henni.  „Við erum í rauninni með spilavíti. Háskóli Íslands rekur spilavíti, og Rauði Krossinn, SÁÁ og Landsbjörg. Það eru spilavíti, spilakassarnir. Ef að menn ætla í alvöru að opna á einhverja stærri lúxussali með stórum spilavítum til að græða á útlenskum spilafíknum þá finnst mér það forkastanleg hugsun. Og ég myndi aldrei styðja slíkt,” segir Ögmundur.

Þótt hann geti ekki talað fyrir aðra þingmenn segist Ögmundur ekki hafa trú á því að þingmeirihluti sé fyrir því á Alþingi að styðja frumvarp um rekstur spilavíta. „Ég spyr nú, eru menn ekki búnir að fá nóg af spilavítishugsun á Íslandi. Landið var gert að einu allsherjar spilavíti og þjóðfélagið gert að panti í spilamennsku. Er ekki komið nóg af þessu. Ég held það,” segir Ögmundur Jónasson.

Spilavíti í Heilsuverndarstöðina- Landlæknir skoðar málið

mynd
Heilsuverndarstöðin.

„Heilbrigðisráðuneytið leggst gegn hugmyndinni,” segir Álfheiður Ingadóttir, heilbrigðisráðherra, en óskað hefur verið eftir óformlegum umsögnum lögreglu og landlæknaembættisins til þess að meta hvort það sé heppilegt að lögleiða fjárhættuspil á Íslandi.

Hugmyndin var kynnt Iðnaðarráðherra og var því farið þess á leit að kanna hvort fjárhættuspil gætu orðið íslenskum ferðamannaiðnaði til framdráttar.

Uppi voru hugmyndir um að starfrækja slíkt spilavíti í Heilsuverndarstöðinni en uppi eru hugmyndir um að breyta húsinu í hótel.

Í ljósi þess að heilbrigðisráðuneytið lagðist gegn spilavítum hér á landi var óskað eftir rökstuðningi hvað það varðaði. Því var leitað umsagnar lögreglu og landlæknis.

Fjárhættuspil eru ólögleg á Íslandi en í fjölmörgum löndum er um afar ábatasaman iðnað að ræða.

„Ég sé enga ástæðu til þess að breyta lögunum og fara að opna hér spilavíti. Það yrði ekki orðspori Íslands til framdráttar. Ísland hefur upp á margt að bjóða og aðra sérstöðu,” segir Álfheiður sem þykir hugmyndin ekki góð og áréttar að spilafíkn sé alvarlegur sjúkdómur og öllum ljóst hverjar afleiðingar spilafíknar geta orðið.

Að sögn Álfheiðar skal landlæknir skila erindinu fyrir 12. febrúar.

Þórarinn Tyrfingsson ekki hrifinn af spilavítum

Formaður SÁÁ segist finna fyrir miklum þrýstingi varðandi opnun spilavítis hér á landi. Allar helstu stofnanir landsins fjalla nú um spilavíti sem Icelandair vill opna við Suðurlandsbraut.

Í Fréttablaðinu í dag kemur fram að hugmyndir séu uppi um að opna spilavíti í húsakynnum Nordica við Suðurlandsbraut. Það er Icelandair sem vill reka spilavítið og hafa forsvarsmenn félagsins meðal annars fundað með stjórnvöldum.

Landlæknir, lögregla, ferðaþjónustan og SÁÁ eru með málið til umsagnar en umsagnir eiga að berast fyrir 12.febrúar næstkomandi. Þórarinn Tyrfingsson formaður SÁÁ er ekki hrifinn af hugmyndinni.

Hann segir að spilafíkn sé vaxandi vandamál um allan heim og Ísland sé þar ekki undanskilið. Ljóst er að menn hafa háleitar hugmyndir um rekstur spilavítisins og er talað um að hagnaðurinn verði skattlagður mjög hátt. Jafnvel er talað um að um 60% hans myndi renna til ríkissins.

„Til skammar ef stjórnvöldum dytti í hug að opna spilavíti“

Áhyggjufullur. Júlíus segir að Samtök áhugafólks um spilafíkn séu að fá mjög alvarleg mál inn á borð til sín. Hann varar við því að opnað verði spilavíti hér á landi.

Áhyggjufullur. Júlíus segir að Samtök áhugafólks um spilafíkn séu að fá mjög alvarleg mál inn á borð til sín. Hann varar við því að opnað verði spilavíti hér á landi. Mynd DV.

Mánudagur 8. febrúar 2010 kl 10:34

Höfundur: Einar Þór Sigurðsson (einar@dv.is)

„Það væri til háborinnar skammar ef stjórnvöldum dytti það í hug að taka þátt í því að opna spilavíti hér á landi,“ segir Júlíus Þór Júlíusson, formaður Samtaka áhugafólks um spilafíkn. Fréttablaðið greinir frá því í dag að Icelandair vilji reka spilavíti á Hótel Nordica. Er málið komið inn á borð til hagsmunaaðila til umsagnar.

Júlíus er alfarið á móti því að spilavíti verði opnað á Íslandi og segir hann að það myndi auka enn á hættuna á spilafíkn. Í Fréttablaðinu í dag segir Björgólfur Jóhannesson, forstjóri Icelandair, að spilavítið gæti orðið mikill styrkur fyrir ferðaþjónustuna. Hann hafi fundið fyrir miklum áhuga erlendis frá að boðið verði upp á slíka starfsemi hérlendis.

Júlíus segist hafa áhyggjur af því að það verði ekki bara ríkir einstaklingar sem komi til með að nýta sér spilavítið. „Þetta verða ekkert bara ríkir einstaklingar sem fara þarna inn. Þetta á eftir að vinda upp á sig og gera málið ennþá alvarlega en það er í dag,“segir hann.

Júlíus segir að samtökin séu að fá mjög alvarleg mál inn á borð til sín og því væri ekki á það bætandi að löglegt spilavíti myndi opna hér á landi. Hann nefnir dæmi af ungum pókerspilara sem missti allt sitt.

„Ég get sagt þér eitt gott dæmi. Móðir ungs drengs hafði samband við mig og hann var nýbúinn að eignast barn og nýbúinn að kaupa íbúð með kærustunni sinni. Hann var búinn að fá foreldra sína og bróður til að skrifa upp á heimildir í tveimur bönkum. Svo fór þetta allt í skrall. Hann reyndi að taka líf sitt og stelpan fór frá honum með barnið. Foreldrar hans og bróðir sátu uppi með það sem þau voru í ábyrgðum fyrir. Það er ekki á það bætandi að opna spilavíti.“

Í Fréttablaðinu í dag segist Katrín Júlíusdóttur iðnaðarráðherra sjá bæði kosti og galla við hugmyndina. Annars vegar kynni að vera jákvætt að færa spilamennskuna upp á yfirborðið og ríkið gæti haft af henni tekjur. Á hinn bóginn væri spilafíkn alvarlegt vandamál.

Ögmundur um spilavítið: Ekki verið að grínast

Mánudagur 8. febrúar 2010 kl 22:33

Höfundur: Ritstjórn DV (ritstjorn@dv.is)

Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna, er allt annað en sáttur við hugmyndir um spilavíti á Hótel Nordica í Reykjavík. „Þetta er ekki grín þrátt fyrir að allir viti að Ísland hrundi vegna þess að landið var gert að spilavíti í öllum myndgervingum þess hugtaks. Andi spilavítisins sveif hér yfir vötnum og hafði áhrif á allt þjóðlífið í orðum og gjörðum. Ekki var nóg með að landið væri gert að vettvangi spilafíknar og hún örvuð á alla lund, heldur hefur komið á daginn að land og þjóð voru gerð að panti í spilarúlettu heimsins,“ skrifar Ögmundur á heimasíðu sína.

Ögmundur segir hugmyndir Icelandair um að koma fjárhættuspili upp á yfirborðið vera á misskilningi byggðar.

„Þetta yrði bara viðbót við það sem fyrir er. Hér eru starfandi spilavíti í skjóli laga. Eða hafa menn ekki gengið Skólavörðustíginn í Reykjavík nýlega, eða farið um Hlemm eða Aðalstrætið? Á öllum þessum stöðum rekur Siðfræðistofnun Háskóla Íslands og Guðfræðideildin og allar hinar deildirnar við þjóðarháskólann nokkuð sem heitir Gullnáman og er ekkert annað en svæsið spilavíti. Svo eru það náttúrlega Rauði Krossinn, SÁÁ og Landsbjörg sem að verulegu leyti eru fjármögnuð upp úr vösunum á ógæfusömum spilafíklum. Allt á okkar ábyrgð, því við viljum að öll þessi samtök séu til og dafni en látum þau afla fjármuna með þessum hætti,“ skrifar Ögmundur.

Ögmundur veltir fyrir sér hvernig þessar stofnanir myndu bregðast við hugmyndum um samkeppni frá Nordica.

„Það er talað um útlenda kúnna. En ég spyr. Er betra að féfletta útlenda spilafíkla? Á kannski að konsentrera á ríka fíkla? Eins og þau gera í Monakó. Þangað hef ég komið einu sinni. Gat ekki beðið eftir að komast burt. Skynjaði að ég var kominn á stað þar glæpir voru normið. Ósóminn ríkisrekinn. Alla vega í skjóli laga. Og ríkið makaði krókinn. Einsog Icelandair leggur nú til,“ skrifar Ögmundur.

Hann segir nóg komið af slíku á Íslandi og ráðleggur fólki að fara hina áttina og loka Gullnámunni. „Hvernig væri að taka eins og eitt seminar um það í Háskóla Íslands?“ skrifar Ögmundur að lokum.