GA samtökin

Heimasíða GA samtakanna á Íslandi

Browsing Posts in Dagurinn í dag

27.júlí

No comments

Hugleiðing dagsins
Ég verð ítrekað vitni að því að þeir sem ná mestum og stöðugustum árangri í bataprógrami GA eru þeir sem fúslega þiggja hjálp frá æðri mætti. Með þvi að þiggja hjálpina erum við að draga úr líkum á því að vera að flækjast sjálf í veg fyrir eigin bata. Vandamál virðast, á einhvern óskiljanlegan hátt, leysast upp og hverfa.

Geri ég mér grein fyrir að sá árangur, sem hlýst af því að vera í sambandi við sinn æðri mátt, byggir alfarið á mér sjálfum en ekki mínum æðri mætti?

Bæn dagsins
Megi ég vera þess fullviss að bata minn og vöxtur er háður því að ég sé í sambandi við minn æðri mátt, ekki bara endrum og sinnum heldur alltaf. Í því felst að snúa sér til síns æðri máttar nokkrum sinnum á dag og biðja um styrk og vitneskju um hans vilja. Þegar mér skilst að líf mitt er hluti af æðri áætlun, þá minnka líkurnar á því að ég hrasi og falli, stefni í ranga átt eða sitji einfaldlega og láti lífið sigla hjá.

Minnispunktur dagsins
Að vera sér meðvitaður um æðri vitund.

26.júlí

Comments off

Hugleiðing dagsins
Nú, þegar ég notfæri mér stafina H-O-F sem GA félagar hafa bent mér á – Heiðarleika, Opinn hug, Fúsleika – þá sé ég hlutina í nýju ljósi. Ég hefði ekki getað spáð fyrir um né búist við hversu sýn mín á lífið hefur breyst. Ég er farinn að sjá hluti á allt annan veg heldur en ég gerði áður en ég kom í GA. Mér líður vel flesta daga, sjaldan illa og þá í stutta stund í einu. Og svo sannarlega ekki eins illa og mér leið alla jafna hér áður fyrr.

Er minn versti dagur nú óendanlega betri en minn besti dagur áður en ég kom í GA?

Bæn dagsins
Megi ég muna eftir því í dag að segja “þakka þér” við minn Æðri Mátt, við vini mína í GA og við allan þann fjölda sem er í GA félagsskapnum, fyrir að koma mér fyrir sjónir að hlutirnir batna. Ég þakka einnig fyrir orðtökin, frasana og slagorðin sem hafa oftar en ekki poppað upp í huga mér á hárréttu augnabliki. Einmitt þegar ég þurfti á þeim að halda til þess að skerpa á tilgangi mínum, styrkja þolinmæði mína og minna mig á Guð.

Minnispunktur dagsins
Hvernig það var.

25.júlí

Comments off

Hugleiðing dagsins
Slagorðin sm notuð eru í GA virðast skýr og einföld. Þrátt fyrir það þá geta þessi slagorð haft ólíka merkingu í hugum GA félaga, allt eftir reynslu hvers og eins og því hvaða merkingu orðin hafa. Tökum sem dæmi slagorðið “Sleppa tökunum og leyfa Guðs vilja að ráða.” Fyrir sum okkar gæti það þýtt að við þurfum bara að stíga til hliðar, gagnvart þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir, og á einhvern hátt muni Guð sjá um alla vinnuna. Við verðum að muna að Guð hefur gefið okkur frjálsan vilja, gáfur og skynsemi – það er klárlega vilji hans að við notum þessar gjafir. Ef ég er móttækileg/ur þá mun Guð mig vita hver vilji hans er, skref fyrir skref, en ég verð að framkvæma vilja Hans svo hann verði að veruleika.

Læt ég stundum eins og það, að láta að vilja Guðs, sé sama og aðgerðarleysi.

Bæn dagsins
Megi vilji minn lúta að framförum. Megi ferð mín vera mörkuð af áskorunum sem ég get auðveldlega borið kennsl á sem verkefni sem ég þarf að framkvæma, ekki eitthvað sem ég á að horfa á. Ég bið að ég megi gera sem mest úr Guðs gjöfum, úr þeim hæfileikum sem ég hef áttað mig á og þeim sem ég á eftir að koma auga á. Megi ég ekki “Sleppa tökunum og gefast upp” heldur halda stöðugt áfram að læra, vaxa, framkvæma, þjóna, biðja og framkvæma vilja Guðs eins og ég skil hann.

Minnispunktur dagsins
Guð ætlaðist til þess að ég gerði sem mest úr sjálfum mér.

24.júlí

No comments

Hugleiðing dagsins
Hvernig á að fara að því að láta vilja sinn lúta handleiðslu æðri máttar? Allt sem þarf til er einhver byrjun, eitthvað upphaf, sama hversu smávægilegt það er. Á sömu stundu og við gerumst viljug þá opnast lásinn. Og dyrnar byrja að opnast, hugsanlega kemur bara smárifa í byrjun; en með tímanum komumst við að raun um að við getum víkkað þá rifu. Sjálfsvilji getur lokað rifunni og gerir það æði oft. En við gætum ætíð opnað dyrnar á ný, aftur og aftur ef þörf krefur, svo fremi að við séum viljug.

Er ég staðfastur í þeirri ákvörðun minni að láta vilja minn og líf lúta handleiðslu guðs, eins og ég skil hann?

Bæn dagsins
Megi ég endurnýja þá ákvörðun mína að láta vilja minn og líf í hendur æðri máttar. Megi trú mín vera nægilega staðföst til þess að viðhalda fullvissunni um að það sé í raun og veru til máttur sem er mér æðri. Megi ég færa mér þann mátt í nyt einfaldlega með því að vera viljugur til þess að hafa guð með í för.

Minnispunktur dagsins
Sjálfsvilji mínus sjálfs er sama og vilji.

23.júlí

No comments

Hugleiðing dagsins
Í dag ætla ég að reyna að sætta mig við minna en ég myndi óska mér, og að vera viljugur til þess að taka því og líka að kunna að meta það. Í dag mun ég ekki vænta of mikils af neinum – sérstaklega ekki af mér sjálfum. Ég ætla að reyna að muna að gleði og ánægja hlýst af því að vera þakklátur fyrir allt hið góða sem okkur hlotnast, en ekki af því að vera bálreiður út í lífið vegna þess að það sé ekki “betra”.

Geri ég mér grein á muninum á uppgjöf og raunsærri sátt?

Bæn dagsins
Megi ég ekki setja markið það hátt að það sé óraunhæft, vænta of mikils. Megi ég horfa nægilega lengi um öxl til þess að sjá hin sjálfskipuðu óraunhæfu markmið fortíðar voru í raun gildrur fíknarinnar: of oft strandaði ég þegar leiðin var hálfnuð, standandi frammi fyrir eigin vanköntum. Slikar stundir, þegar mér mistókst “enn einu sinni”, urðu feikigóðar ástæður til þess að láta undan spilafíkninni, sem deyfði vanlíðanina af mistökunum. Megi ég forðast þetta gamla sjúklega hegðunarmynstur. Megi ég vera raunsær.

Minnispunktur dagsins
Gott er nógu gott.

22.júlí

Comments off

Hugleiðing dagsins
Gamblers Anonymous hefur kennt mér að kjarninn í öllum mínum vexti er fúsleikinn til þess að breytast til batnaðar. Af því leiðir að ég verð að axla hverjar þær byrðar sem slík breyting felur í sér og taka því með hugrekki sem ég þarf að framkvæma.

“Ég er og veit og vil;
Ég er vitund og vilji;
Ég veit að ég er og að ég vil;
Ég vil vera og vil vita.”
– St. Augustine

Er fúsleikinn grunnþáttur í lífi mínu og því hvernig ég vinn GA prógramið?

Bæn dagsins
Ég bið um fúsleika til þess að gera það sem mér er unnt, fúsleika til þess að vera það sem mér er fært, og – það sem er stundum erfiðast – fúsleika til þess að vera það sem ég er. Ég bið, einnig, um styrk til þess að framfylgja fúsleika mínum í hverju sem ég tek mér fyrir hendur, svo ég megi vaxa á Guðs vegu og ástunda undirstöðuatriði Prógramsins í öllu sem ég er að takast á við.

Minnispunktur dagsins
“Ég er og veit og vil.”

21.júlí

Comments off

Hugleiðing dagsins
Hvernig getum við haldið í trúna á að allt muni fara vel, þegar við stöndum frammi fyrir aðstæðum eða ástandi sem okkur líkar ekki? Kannski þurfum við þá að spyrja okkur sjálf að því hvað trú sé. Trú á sér stoð í sannleika og kærleika. Við getum haft trú, ef við kjósum svo, sama hverjar aðstæðurnar eru. Og við getum, ef við kjósum svo, búist við að allt muni fara vel að lokum.

Hef ég valið?

Bæn dagsins
Megi ég vera þakklát/ur fyrir þá Guðs-gjöf að geta valið. Af þakklæti og vegna skynjunar minnar á nærveru Guðs, þá hef ég valið að hafa trú. Megi sú trú, eins og ég hef valið hana, verða svo sterk að hún geti flutt fjöll, svo sterk að hún haldi mér frá spilum, svo mikil að hún haldi aftur af holskeflu þeirra freistinga sem ég stend frammi fyrir, nægilega bjartsýn til þess að fleyta mér yfir núverandi sársauka yfir til endanlegrar hamingju.

Minnispunktur dagsins
Ekkert er ómögulegt, hafi maður trú.

20.júlí

Comments off

Hugleiðing dagsins
Oliver Wendell Holmes ritaði “það eru forréttindi viskunnar að hlusta.” Ef ég reyni eins og unnt er að rækta listina að hlusta – ógagnrýnið og án þess að fella dóma fyrirfram – þá eru góðar líkur á því að bati minn muni aukast. Ef ég reyni eftir frekasta megni að hlusta eftir þeim tilfinningum og hugsunum sem tjáð eru – í stað þess að hlusta á “ræðumanninn” – þá getur gerst að ég verði þeirrar blessunar aðnjótandi að fá hugmynd. Hugmynd sem gagnast mér. Grundvallareinkenni góðrar hlustunar er auðmýkt, sem endurspeglast í þeirri staðreynd að rödd Guðs talar til okkar meira að segja í gegnum óskýrmæltustu börn Hans.

Hættir mér til þess að láta mitt Ég-Er-Heilagari-En-Þú viðhorf koma í veg fyrir að ég heyri ráðleggingar annarra?

Bæn dagsins
Megi minn Æðri Máttur hindra mig í að þykjast vera Heilagari-En-Þú gagnvart hverjum þeim sem framkoma eða tungutak eða gagnstæð skoðun eða þekkingarskortur hindrar mig í að heyra hvað viðkomandi er að segja. Megi ég ætíð hlusta eftir rödd Guðs, sem getur heyrst þegar hvert okkar sem er tekur til máls.

Minnispunktur dagsins
Hlusta á ræðuna, ekki ræðumanninn.

Hugleiðing dagsins
Mörg okkar viðurkenna, þegar við komum í GA prógramið, að við séum efasemdarfólk eða trúlaus. Eins og einhver orðaði það, vilji okkar til þess að trúa ekki er svo sterkur að við kjósum frekar að mæla okkur mót við útfararstjórann frekar en að gera tilraun til þess að leita að Æðri Mætti með opnum huga. Sem betur fer, fyrir þau okkar sem erum með lokaðan huga gagnvart Æðri Mætti, þá ná hin uppbyggilegu öfl innan GA prógramsins nánast alltaf að brjóta á bak aftur þessa þrjósku okkar. Fyrr en varir þá uppgötvum við hina örlátu veröld trúar og trausts. Hún var til staðar allan tímann, okkur skorti bara viljann og opna hugann til þess að taka við henni.

Blindar þrjóskan mér stundum sýn á máttinn til góðs sem felst í trúnni?

Bæn dagsins
Ég vil þakka mínum Æðri Mætti fyrir þetta tækifæri til þess að opna hug minn; til þess að læra aftur um trú og traust; til þess að átta mig á að ráf mitt frá heiðarleika og raunveruleika breytti ekki því að Guð var til staðar í brjósti mér né umhyggju Guðs fyrir mér. Megi ég gera mér grein fyrir að það var mitt verk sem varð þess valdandi að ég missti trúna. Guði séu þakkir fyrir annað tækifæri til þess að trúa.

Minnispunktur dagsins
Höfnum vantrúarviljanum.

18.júlí

Comments off

Hugleiðing dagsins
Fá okkar vita í raun hvað það er sem við viljum og ekkert okkar veit hvað er okkur fyrir bestu. Sú vitneskja er í höndum Guðs. Þetta er staðreynd sem ég verð á endanum að taka gilda. þrátt fyrir þvermóðsku mína og uppreisnargirni. Héðan í frá ætla ég að takmarka bænir mínar við beiðni um leiðsögn, opnum huga til þess að taka leiðsögn og styrk til þess að fara eftir henni. Ég mun, eftir fremsta megni, fresta öllum ákvörðunum uns ég hef fengið staðfestingu frá mínum Æðra Mætti að hver og ein ákvörðun sé sú rétta fyrir mig.

Er ég að “prútta” við minn Æðri Mátt, haldandi að ég viti hvað sé mér fyrir bestu?

Bæn dagsins
Megi ég forðast að semja við minn Æðri Mátt. Megi ég þess í stað vera ílát, opinn fyrir hverri þeirri andagift sem Guð kýs að hella í mig. Ég bið þess að ég muni að ákvarðanir Guðs eru farsælli fyrir mig heldur en mínar eigin fálmkenndu áætlanir og að ákvarðanir hans muni koma þegar ég þarf á þeim að halda.

Minnispunktur dagsins
Ég mun ekki prútta – né veðja – við Guð.