GA samtökin

Heimasíða GA samtakanna á Íslandi

Browsing Posts in Dagurinn í dag

6.apríl

No comments

Hugleiðing dagsins
Havð segjum við við manneskju sem hefur fallið, eða sem kallar eftir hjálp? Við getum flutt boðskapinn, ef viðkomandi er tilbúin til þess að hlusta; við getum deilt með henni reynslu okkar, styrk og von. Trúlegast er þó mikilvægast að sýna viðkomandi væntumþykju, segja að við séum innilega glöð að hann eða hún hafi snúið aftur og að viðkomandi geti treyst á hjálp okkar í hvívetna. Og okkur verður að vera alvara.

Get ég enn “gengið í skóla” og lært af mistökum og mótbyr annarra?

Bæn dagsins
Megi ég ætíð hafa næga væntumþykju til þess að bjóða velkominn aftur þann sem hefur fallið. Megi ég hlusta auðmjúkur á hrakfarasögu þess sem hefur fallið. Því ef ekki væri fyrir minn æðri mátt þá gæti ég staðið í sömu sporum. Megi ég læra af mistökum annarra og biðja þess að þau verði ekki mín.

Minnispunktur dagsins
Bindindi er aldrei áhættulaust.

5.apríl

No comments

Hugleiðing dagsins
Við höfum tekið eftir því að það er annað sem félagar okkar, sem falla, eiga sameiginlegt og það er óánægja með daginn í dag. “Ég gleymdi því að lifa einn dag í einu,” eða “Ég fór að gera væntingar til framtíðarinnar,” eða “Ég byrjaði að skipuleggja niðurstöður, ekki bara skipuleggja.” Þeir virtust gleyma því að við höfum bara NÚIÐ. Lífið hafði farið batnandi hjá þeim og eins og svo mörg okkar þá gleymdu þeir hversu slæmt það hafði verið áður. Þeir byrjuðu í staðinn að velta sér upp úr því hversu ófullnægjandi það væri miðað við hversu gott það gæti verið.

Ber ég daginn í dag saman við gærdaginn og átti ég mig á, í þeim samanburði, hversu gott ég hef það í dag?

Bæn dagsins
Ef dagurinn í dag dregur úr mér kjark, megi ég þá muna eftir kvíðanum og örvæntingunni sem gærdagurinn bar í skauti sér. Ef ég er óþolinmóður eftir morgundeginum, megi ég þá læra að meta daginn í dag og það hversu miklu betri hann er heldur en dagarnir þegar ég stundaði fjárhættuspil. Megi ég aldrei gleyma grundvallaratriðinu “Einn dag í einu.”

Minnispunktur dagsins
Geðveiki gærdagsins.

4.apríl

No comments

Hugleiðing dagsins
Þeir okkar sem falla eiga annað sameiginlegt, fyrir utan að hætta að stunda fundi, það er að þeir notfæra sér ekki verkfæri GA prógramsins – tólf sporin. Oftast nær segja menn; “Ég fór aldrei í sporin,” “Ég kláraði ekki fyrsta sporið,” “Ég vann sporin of hægt,” eða “Ég vann þau of hratt” eða “of snemma.” Kjarninn í því sem þeir eru að segja er að viðkomandi vissi af sporunum en auðnaðist ekki að lifa lífinu samkvæmt þeim.

Er ég að læra að verja sjálfan mig og hjálpa öðrum?

Bæn dagsins
Megi ég verða sá sem lifir samkvæmt sporunum en ekki bara sá sem hlustar. Megi mér auðnast að sjá þessi algengu atriði sem leiða til falls; of stoltur til þess að viðurkenna fyrsta sporið, of jarðbundinn til þess að finna fyrir nærveru æðri máttar, finnast yfirþyrmandi að stíga fjórða sporið – að gera óttalaus, siðferðisleg og fjárhagsleg reikningsskil í lífi okkar, vera of hlédrægur til þess að viðurkenna yfirsjónir okkar fyrir annarri manneskju. Guð, hjálpaðu mér að vinna sporin.

Minnispunktur dagsins
Hafa gát á sporunum.

3.apríl

No comments

Hugleiðing dagsins
Nánast hver einasti GA félagi, sem hefur fallið og komið aftur, hefur sömu sögu að segja, “Ég hætti að stunda fundi” eða “Ég var orðinn leiður á að heyra sömu sögurnar aftur og aftur og að sjá sömu andlitin aftur og aftur” eða “Ég hafði svo mikið að gera að ég komst ekki á fund” eða “Mér fanns ég ekki vera að fá neitt út úr fundunum.” Í stuttu máli, viðkomandi hætti að sækja fundi. GA frasi hittir naglann á höfuðið; “Þeir sem hætta að stunda fundi eru ekki viðstaddir fundi þar sem sagt er frá því hvað kemur fyrir þá sem hætta að stunda fundi.”

Mæti ég á nægilega marga fundi?

Bæn dagsins
Guð hjálpi mér að halda mig við GA prógramið. Megi ég aldrei verða of þreyttur, of upptekinn, of ánægður með sjálfan mig, of fullur leiða til þess að mæta á fundi. Nánast undantekningarlaust hverfa framangreindar ástæður eins og dögg fyrir sólu, ef ég bara mæti á fund. Þreytan og lúinn víkur fyrir æðruleysi. Þreytan verður ekki eins yfirgengileg. Sjálfsánægjan víkur fyrir árvekni. Og hvernig getur mér leiðst á stað þar sem ríkir slík gleði og bræðralag?

Minnispunktur dagsins
Mæta á fundi.

2.apríl

No comments

Hugleiðing dagsins
Hvað veldur því að við föllum? Hvað kemur fyrir manneskju sem virðist skilja og lifa samkvæmt tólf sporunum en fer samt aftur að stunda fjárhættuspil? Hvað get ég gert til þess að koma í veg fyrir að þetta gerist hjá mér? Er eitthvað sameiginlegt með þeim sem falla, eitthvað eitt sem einkennir þá? Hvert og eitt okkar getur dregið sínar eigin ályktanir, en í GA prógraminu lærum við að ákveðið aðgerðarleysi nánast gulltryggir fall.

Hlusta ég af gaumgæfni þegar GA félagi, sem hefur fallið, er svo lánsamur að koma aftur á fund og segir frá reynslu sinni?

Bæn dagsins
Megi minn æðri máttur sýna mér ef ég er kominn á fallbraut. Megi ég læra af reynslu annarra að fall og fallbraut stafar oftar en ekki af því sem ég hef ekki gert frekar en af því hvað ég hef gert. Megi ég halda áfram að koma aftur á fund.

Minnispunktur dagsins
Halda áfram að koma aftur.

1.apríl

No comments

Hugleiðing dagsins
Við forðumst ákveðna staði ef við viljum ekki falla. Fyrir okkur spilafíklana þýðir það að forðast spilavítin, spilakassana, sjoppukassana og hvern þann stað þar sem fjárhættuspil er stundað. Ákveðnar tilfinningalegar aðstæður geta líka verið hættulegar fyrir mig, eins og að leyfa gremju að vaxa úr hömlu.

Tek ég grundvallaratriði GA prógramsins með mér hvert sem ég fer?

Bæn dagsins
Megi ég læra að ögra ekki sjálfum mér með því að koma við í spilasölunum eða með því að fylgjast með pókerspili. Slík ögrun getur verið hættuleg fyrir mig, sérstaklega ef ég er eggjaður áfram, ekki einvörðungu af eigin fíkn heldur líka af þeim sem enn eru fastir í viðjum fíknarinnar og hafa glatað allri ábyrgðarkennd.

Minnispunktur dagsins
Forðast staði sem skapa fallhættu.

31.mars

No comments

Hugleiðing dagsins
Sjúkdómur minn er ólíkur flestum öðrum sjúkdómum að því leyti að afneitunin varðandi það að ég sé veikur er megineinkenni þess að ég sé veikur. Líkt og er um marga aðra ólæknandi sjúkdómar þá er afturför eitt af einkennum míns sjúkdóms. Í GA þá köllum við slíka afturför “fall.” Það eina sem ég veit með vissu er að ég einn get valdið því að ég falli.

Ætla ég að hafa það hugfast að ég hugsa áður en ég framkvæmi? Ætla ég að reyna að forðast neikvæðar hugsanir?

Bæn dagsins
Guð gefi mér matt til þess að forðast freistingar. Megi ábyrgðin á því að láta undan freistingum, að “falla”, verða á mínum herðum og einungis mínum. Megi ég gera mér grein fyrir því með fyrirvara ef ég er kominn á fallbraut; með því að kenna öðrum um, svíkjast um að taka ábyrgð á sjálfum mér, verða fórnarlamb að nýju. Þegar svo er komið að ég hef tekið upp þessa gömlu skapgerðarbresti mína þá er ég kominn langt á fallbrautinni.

Minnispunktur dagsins
Hver sem er getur fallið.

30.mars

No comments

Hugleiðing dagsins
Fullkomin auðmýkt þýðir frelsi frá sjálfum mér, frelsi frá þeim kröfum sem skapgerðargallar mínir gera til mín. Auðmýkt merkir fúsleika til þess að komast að og framkvæma vilja guðs. Þó svo að ég geri ekki ráð fyrir að öðlast slíka sýn þá hjálpar það mér að hafa það í huga. Ég geri mér grein fyrir því að vegferð mín í átt til guðs er rétt hafin. Og eftir því sem sjálfbirgingsháttur minn dvínar, þá get ég jafnvel séð spaugilegu hliðarnar í fyrri drambsemi og sjálfselsku.

Tek ég sjálfan mig of hátíðlega?

Bæn dagsins
Megi stórbokkaháttur minn, sem er einkenni fíknar minnar, vera gerður að engu með því einfaldlega að bera saman máttleysi mitt við mátt guðs. Megi ég hugleiða merkingu æðri máttar í samanburði við eigin breyskleika. Megi það verða til þess að koma sjálfsáliti mínu niður í rétt hlutfall og hjálpa mér að losna við þær varnir sem ég hafði byggt upp með sýndarmennsku, gorgeri eða duldum hugmyndum um eigin mikillæti.

Minnispunktur dagsins
Auðmýkt er frelsi.

29.mars

No comments

Hugleiðing dagsins
Af hverju ánetjast fólk fjárhættuspilum? Dr. Robert Custer, frumkvöðull í meðhöndlun spilafíknar, hélt því fram að hvert og eitt okkar hafi fjórar grundvallarþarfir – ástúð, velþóknun, viðurkenningu og sjálfstraust. Ef þessum þörfum er ekki fullnægt þá finnst okkur við vera ófullkomin og lífið yfirþyrmandi. Að stunda fjárhættuspil getur – um stund – virst uppfylla þessar þarfir. En hver sem orsökin er, þá hefur félagsskapurinn í GA og prógramið sannað gildi sitt við að hjálpa þúsundum að yfirvinna spilafíknina.

Er ég þakklátur fyrir dómgreindina og félagsskapinn sem ég fæ í GA?

Bæn dagsins
Megi guð auka við skilning minn á sjúkdómnum – með því að hlusta á reynslusögur annarra GA félaga á fundum. Á slíkum fundum lærum við rétta merkingu þess að sigra – sigrast á fíkninni til þess að spila og öllum þeim neikvæðu áhrifum sem fjárhættuspil hafa á líf okkar. Megi guð halda áfram að sýna mér allt hið jákvæða sem fæst með því að vinna prógramið heiðarlega og af heilum hug.

Minnispunktur dagsins
Svörin felast í prógraminu.

28.mars

No comments

Hugleiðing dagsins
Við verðum að hugsa vel um GA nýliðann. Við viljum að hann kynnist prógraminu eins og við höfum kynnst því, nú þegar hann er að feta sig eftir stígnum til trausts og lífs. Við þurfum sifellt að viðhalda andlegum styrk prógramsins og gagnsemi þess, með árvekni, umsjá og átaki – til þess að vera undir það búin að taka á móti nýliðum.

Ber ég virðingu fyrir 12 sporunum?

Bæn dagsins
Guð hjálpi mér að leggja mitt af mörkum til þess að gera deildina mína að líflínu fyrir þá sem enn þjást af völdum spilafíknar, með því að viðhalda 12 sporum prógramsins. Megi prógramið verða “heimkoma” fyrir þau okkar sem þjáumst af spilafíkn. Megum við finna sameiginlega lausn á þeim sameiginlegu vandamálum sem hljotast af þessum sjúkdómi.

Minnispunktur dagsins
Að leggja mitt af mörkum.