GA samtökin

Heimasíða GA samtakanna á Íslandi

Browsing Posts in Dagurinn í dag

Hugleiðing dagsins
Auðmýkt hefur stundum verið skilgreind sem það ástand þegar hugurinn er lærdómsfús. Það má því segja að flest okkar í GA félagsskapnum, sem erum spilalaus, höfum öðlast að minnsta kosti vott af auðmýkt, því við lærðum þó nóg til þess að vera spilalaus. Ég hef áttað mig á að auðmýkt er að vera opinn fyrir því sem aðrir hafa að segja, stöðugt opinn fyrir því að læra.

Sé ég auðmýkt sem leiðina að stöðugum framförum?

Bæn dagsins
Nú, þegar ég hef byrjað að temja mér auðmýkt, megi ég halda því stöðugt áfram. Megi ég vera opinn fyrir vilja guðs og ábendingum vina minna í GA. Megi ég vera lærdómsfús, opinn fyrir gagnrýni, móttækilegur og meðvitaður um að ég verða að halda áfram að vera þannig til þess að viðhalda batanum.

Minnispunktur dagsins
Að halda áfram að vera móttækilegur.

Hugleiðing dagsins
Þegar ég var nýkominn í GA þá var mér sagt að til þess að losna úr heljartökum spilafíknar þá yrði ég að viðurkenna vanmátt minn gagnvart fjárhættuspilum, það yrði fyrsta skrefið í átt að frelsi. Og ég fann fljótt sannleikann í þessum ráðleggingum. Í raun er uppgjöfin algjört grundvallaratriði. En fyrir mig var uppgjöfin bara lítið upphafsskref í átt að því að öðlast auðmýkt. Ég hef lært, af veru minni í GA, að það tekur langan tíma að verða viljugur að vinna í auðmýktinni – þegar auðmýktin ein er takmarkið.

Geri ég mér grein fyrir því að ég breyti ekki heilli ævi af sjálfhverfu á augabragði?

Bæn dagsins
Megi ég reyna að temja mér auðmýkt sem eiginleika sem ég þarf á að halda til þess að komast af, ekki bara til þess að viðurkenna vanmátt minn gagnvart fjárhættuspilum. Fyrsta Sporið er einmitt bara það – fyrsta skrefið í áttina að því að temja mér auðmýkt. Megi ég vera nægilega raunsær til þess að átta mig á að það getur tekið mig hálfa ævina.

Minnispunktur dagsins
Stoltið klúðraði því; gefum auðmýktinni tækifæri.

Hugleiðing dagsins
Trúnaðarmaður minn hvatti mig til þess að finna smá auðmýkt. Því ef þú gerir það ekki, sagði hann, þá ertu að auka stórkostlega hættuna á því að þú farir aftur að spila. Þrátt fyrir að hafa verið uppreisnargjarn alla mína ævi, þá fór ég að ráðum hans; ég byrjaði að reyna að temja mér auðmýkt, einfaldlega vegna þess að ég trúði því að það væri rétt. Ég vona svo sannarlega að sá dagur muni koma þegar megnið af uppreisnargirni minni verður minningin ein, að ég muni stunda auðmýkt einvörðungu vegna þess að ég líti á það sem leið til þess að lifa lífinu.

Er ég viljugur til þess að temja mér auðmýkt í dag, þó ekki væri nema í augnablik? Mun ég læra að þrá þá tilfinningu sem fylgir því að vera auðmjúkur?

Bæn dagsins
Þar sem ég – eins og svo margir spilafíklar – er uppreisnargjarn, megi ég þá gera mér grein fyrir því að ég þarf að átemja mér auðmýkt. Megi ég gera mér grein fyrir því að aðmýkt er ekki auðveld uppreisnargjörnum einstaklingum, hvort sem viðkomandi er þrjóskur, fastur á sínu, neikvæður að eðlisfari eða einfaldlega staðráðinn í því að breyta öllu öðru en sjálfum sér. Ég bið þess að með því að ástunda auðmýkt þá muni hún verða ósjálfráð fyrir mig.

Minnispunktur dagsins
Hógværð verði að vana.

Hugleiðing dagsins
Tvö orð lýsa allri framþróun og eru um leið mælistika framþróunarinnar; auðmýkt og ábyrgðarkennd. Því hefur verið haldið fram að hægt sé að mæla nákvæmlega allan okkar andlega þroska og uppbyggingu eftir fylgni okkar við þessa tvo staðla. Ég get ekki öðlast sanna auðmýkt nema með því að segja skilið við eigin sjálfhverfu og viðhalda sambandi mínu við minn Æðri mátt. Ég get ekki öðlast ábyrgðarkennd nema með þvi að ná tengingu við raunveruleikann.

Er ég heiðarleg/ur í viðleitni minni til þess að lifa samkvæmt þeim viðmiðum sem felast í auðmýkt og ábyrgðarkennd?

Bæn dagsins
Af öllum þeim góðu orðum og frösum og hugljómunum sem ég hef fengið að heyra, megi ég ætíð muna hvað best þessi tvö; auðmýkt og ábyrgðarkennd. Því þau eru hugsanlega þau erfiðustu að uppfylla – auðmýkt því það merkir að ég verð að losa mig við stoltið, ábyrgðarkennd því ég stundaði það að nota spilafíknina sem afsökun til þess að losna undan ölum skuldbindingum. Ég bið þess að geta rofið mitt gamla mynstur.

Minnispunktur dagsins
Auðmýktin kemur fyrst, síðan ábyrgðarkenndin.

Hugleiðing dagsins
Það er fátt “algilt” í Tólf sporum GA samtakanna. Okkur er í sjálfsvald sett hvar og hvernig við byrjum. Guð, eins og við skiljum hann, er hægt að skilgreina einfaldlega sem “Æðri mátt”; og fyrir mörg okkar var félagsskapurinn í GA okkar fyrsti “Æðri máttur.” Sú viðurkenning á skilgreiningunni á Æðri mætti er skiljanleg fyrir nýliðann í ljósi þess að flestir meðlimir GA samtakanna eru lausir undan oki spilafíknarinnar, oki sem nýliðinn er enn að kljást við. Slík viðurkenning er fyrsta skrefið í átt að auðmýkt. Hugsanlega er nýliðinn þar með í fyrsta sinn, í það minnsta viljugur, til þess að viðurkenna að hann eða hún sé ekki guð.

Er hegðun mín meira sannfærandi fyrir nýlíða heldur en orð mín?

Bæn dagsins
Megi ég skilgreina og uppgötva min eigin Æðri mátt. Eftir því sem sú skilgreining verður mér skýrari og nánari, megi ég forðast það að krefjast þess að minn skilningur sé sá eini rétti. Því hver og einn verður að finna sinn Æðri mátt. Ef nýliðanum finnst hann vera án guðs og einmanna, þá er hugsanlegt að kraftur GA félagsskaparins og hópsins dugi honum í bili. Megi ég aldrei gera lítið úr krafti félagsskaparins.

Minnispunktur dagsins
Máttur félagsskaparins getur verið Æðri máttur.

Hugleiðing dagsins
Hvað, nákvæmlega, er auðmýkt? Þýðir það að við eigum að vera undirgefin, sætta okkur við allt, sama hversu auðmýkjandi það er? Þýðir það að gefast upp fyrir hinu illa og skemmandi í lífinu? Nei, þvert á móti. Kjarni allrar auðmýktar er einfaldlega að löngun til þess að leita að og framkvæma vilja guðs.

Er ég byrjaður að átta mig á því að sönn auðmýkt varpar virðuleika og þokka á mig og styrkir mig til þess að taka skynsamlega og andlega á öllum mínum vandamálum?

Bæn dagsins
Megi ég uppgötva að auðmýkt er ekki að bugta sig og beygja, krjúpa né leyfa öðrum að valta yfir mig – með von um einhvers konar umbun, eins og viðurkenningu eða vorkunn. Sönn auðmýkt er meðvitund um hina viðamiklu ást guðs og styrk. Auðmýkt er að sjá hvernig ég, sem manneskja, tengist guðlegum mætti.

Minnispunktur dagsins
Auðmýkt er vitund um guð.

Hugleiðing dagsins
Þegar ég kom fyrst í GA þá hélt ég að auðmýkt væri annað orð yfir veikleika. En smám saman lærðist mér að það er ekkert ósamræmi á milli auðmýktar og skynsemi, svo fremi að ég setji auðmýkt í fyrsta sæti. Mér var tjáð að um leið og ég byrji að temja mér að gera einmitt það, að setja aumýkt í fyrsta sæti, þá muni ég fá verðlaun sem fælust í trú – trú sem myndi virka fyrir mig á sama hátt og hún hefur gert og mun halda áfram að gera, fyrir fjöldann allan af óvirkum spilafíklum sem hafa fundið bata frá spilafíkn og fundið nýtt líf í GA prógraminu.

Er ég byrjaður að trúa, eins og Heine komst að orði, að “Gjörðir mannanna eru eins og efnisyfirlit í bók, þær benda á það sem er markverðast”?

Bæn dagsins
Megi ég aldrei nota vitsmuni mína sem afsökun fyrir því að sýna ekki auðmýkt. Það er svo auðvelt, ef ég álít sjálfan mig vera þokkalega skynsaman og færan um að taka ákvarðanir og hafa stjórn á eigin lífi, að líta niður á auðmýkt sem eitthvað sem lýsi þeim sem eru ekki eins skynsamir og ég. Megi ég muna að auðmýkt og skynsemi eru hvoru tveggja gjöf frá guði.

Minnispunktur dagsins
Hafi ég enga auðmýkt, þá hef ég enga skynsemi.

Hugleiðing dagsins
Það hefur orðið jafn ómissandi fyrir mig og að anda, að eiga í daglegum samskiptum við guð. Ég þarf ekki að eiga einhvern sérstakan stað til þess að biðja til guðs, því guð heyrir alltaf til mín. Ég þarf ekki að orða bænir mínar á ákveðinn hátt, því guð þekkir nú þegar allar mínar hugsanir og allar mínar þarfir. Það eina sem ég þarf að gera er að beina athygli minni að guði, vitandi að athygli hans er ætíð á mér.

Veit ég að góðir hlutir muni gerast ef ég treysti guði fullkomlega?

Bæn dagsins
Megi samskipti mín við guð verða venjubundinn hluti af mínu lífi, jafn eðlileg og sjálfsögð og hjartslátturinn. Megi ég sjá, eftir því sem ég verð vanari bæninni, að það skiptir mig á minna máli hvar ég bið, hvort sem það er úti í horni, við rúmstokkinn, á kirkjubekk eða annars staðar. Og megi ég líka sjá að hvenær dags ég bið skiptir minna máli. Megi hugur minn leita sjálfkrafa til guðs, hvenær sem ég upplifi kyrrðarstund eða þegar ég þarf á leiðsögn að halda.

Minnispunktur dagsins
Lát bænina verða að vana.

Hugleiðing dagsins
Sumir félagar okkar í GA forðuðust bæn og hugleiðslu eins og heitan eldinn til að byrja með. Þegar þeir á endanum, hikandi og bara til prufu, fóru að prófa sig áfram með bæn og hugleiðslu, þá fóru óvæntir hlutir að gerast og þeim fór að líða öðruvísi. Á endanum fóru þeir, sem höfðu áður gert lítið úr bæn og hugleiðslu, nær undantekningarlaust að iðka slíkt sjálfir. Í GA heyrm við að “nær undantekningarlaust þá eru það bara þeir, sem hafa ekki prófað bæn og hugleiðslu, sem hæðast að því.”

Er einhver þrjóskur hluti af mér sem enn hæðist að bæn og hugleiðslu?

Bæn dagsins
Megi mér lærast, sama hve virðingarlaus ég hef verið, að bænin er ekki hæðnisverð; ég sé mátt hennar endurspeglast í kraftaverkum allt í kringum mig. Hafi ég neitað að biðja, megi ég þá skoða hvort stolt eða dramb sé að flækast fyrir mér – þetta slitna og gamla stolt sem heimtar að fara sínar eigin leiðir. Nú, þegar ég hef fundið stað í mínu lífi fyrir bænina, megi ég taka þann stað frá og varðveita – samviskusamlega.

Minnispunktur dagsins
Hver sá sem lærir að biðja heldur því áfram.

Hugleiðing dagsins
Meðvitað samband mitt við guð byggir einvörðungu á mér og minni löngun til þess að viðhalda því sambandi. Ég get notfært mér styrk guðs hvenær sem er; hvort ég nýti mér hann er mitt val. Sagt hefur verið að “Guð sé til staðar í öllum skepnum, en þær séu misvarar við nálægð hans.” Ég ætla að reyna að minna sjálfan mig á það, á hverjum
degi, hversu mikilvægt það sé að vera meðvitaður um áhrif guðs á líf mitt. Og ég ætla að reyna að þiggja hjálp hans í öllu sem ég geri.

Ætla ég að muna að guð veit hvernig á að hjálpa mér, að hann geti hjálpað mér, og að hann vilji hjálpa mér?

Bæn dagsins
Megi ég vera þess meðvitaður að kraftur guðs og friður eru óþrjótandi gnægtarbrunnur innra með mér. Ég get dregið mér fötu eftir fötu úr þeim brunni og hresst upp á líf mitt og hreinsað. Það eina sem ég þarf að leggja fram er fatan og reipið. Vatnið í brunninum er mitt – ókeypis, ferskt, græðandi og ómengað.

Minnispunktur dagsins
Brunnurin er guðs; ég kem með föturnar.