GA samtökin

Heimasíða GA samtakanna á Íslandi

Browsing Posts in Dagurinn í dag

Hugleiðing dagsins
Í fjórða sporinu er mælst til þess að við gerum óttalaus, siðferðisleg og fjárhagsleg reikningsskil í lífi okkar. Fyrir mörg okkar og sérstaklega fyrir nýliðann þá virðist það vera ógjörningur. Í hvert einast skipti sem við setjumst niður og ætlum að byrja að horfa inn á við þá kemur Stoltið í veg fyrir það og segir, með hæðnisglotti, “Hér er ekkert sem þú þarft að skoða” Og Óttinn kemur Stoltinu til hjálpar og segir “Það er eins gott fyrir þig að vera ekki að skoða neitt hér.” En á endanum komumst við að því að stolt og ótti eru jafnáþreifanleg og reykur, þau leysast upp fyrir augum okkar. Þegar við blásum þeim í burt og gerum óttalaus reikningsskil, þá finnum við fyrir létti og öðlumst nýja tiltrúa á okkur sjálf. Tiltrú sem orð geta ekki lýst.

Hef ég gert reikningsskil í lífi mínu? Hef ég deild ávinninginum með öðrum, til þess að hvetja þá áfram?

Bæn dagsins
Megi ég ekki láta eigin tregðu hindra mig í að gera siðferðisleg reikningsskil í lífi mínu. Megi ég ekki byrja á Fjórða Sporinu einvörðungu til þess að láta staðar numið vegna þess að verkefnið vex mér í augum. Megi ég vita að reikningsskilin mín í dag, jafnvel þó ég reyni að vera fullkomlega heiðarlegur, verða aldrei tæmandi. Því ég er stöðugt að uppgötva eitthvað nýtt í eigin fari, sem ég var blindur á í gær.

Minnispunktur dagsins
Þökk sé guði fyrir framfarir.

Hugleiðing dagsins
Stundum, þegar orðin “Ef ekki væri fyrir náð guðs þá væri ég á sama stað” koma upp í hugann, þá rifjast upp fyrir mér þegar ég hugsaði svona þegar ég sá aðra spilafíkla, á þeim stað í lífinu sem mér fannst vera “vonlaus og bjargarlaus.” Lengi vel notaði ég þennan hugsunarhátt sem flóttaleið og sjáfsafneitun á eigin spilafíkn, með því að benda á aðra sem væru verr staddir en ég. “Ef ég skyldi nokkurn tíma verða svona, þá hætti ég að spila,” var setning sem ég notaði oft. Í dag hafa þessi orð allt aðra merkingu, þar sem þau merkja þakklætið sem ég finn fyrir þegar ég þakka mínum Æðri Mætti fyrir bata minn og það líf sem ég hef öðlast með hjálp GA prógramsins.

Var nokkurn tíma einhver sem var “vonlausari og bjargarlausari” en ég?

Bæn dagsins
Megi ég vita að ef ekki væri fyrir náð guðs, þá gæti ég verið dáinn eða hafa misst vitið, því margir þeirra sem voru samferða mér í fíkninni eru ekki lengur á meðal okkar. Megi þessi sama náð guðs hjálpa þeim sem eru enn föst í hnignuninni, sem eru hægt en örugglega á leið í hörmungar.

Minnispunktur dagsins
Ég hef séð storbrotna náð guðs.

Hugleiðing dagsins
Spilafíkn mín var í raun eins og þjófur, á fleiri vegu en ég get talið upp. Spilafíknin rændi mig ekki bara fjármunum, eignum og öðrum veraldlegum hlutum, heldur ekki síður sæmd og sjálfsvirðingu. Og á sama tíma þjáðust mínir nánustu við hlið mér. Spilafíknin hafði einnig af mér getuna til þess að koma vel fram við sjálfan mig, á þann hátt sem guð myndi koma fram við mig. Í dag er þessu þveröfugt farið, ég er fær um að elska sjálfan mig – upp að því marki að ég ber meiri kærleika til sjálfs mín en ég þarf á að halda. Svo ég gef þann kærleika áfram til annarra í GA prógraminu, alveg eins og þau hafa gefið mér sinn kærleik.

Er ég þakklátur guði fyrir að hafa komið mér í prógram þar sem kærleikur hjálpar fólki að ná bata?

Bæn dagsins
Þökk sé guði fyrir líf sem er þess eðlis að það skapar svo mikinn kærleika og umhyggju að við í GA prógraminu komumst ekki hjá því að læra að elska okkur sjálf. Þegar ég finn að einhverjum er annt um mig þá er líklegra að ég sannfærist um að ég sé nú, þrátt fyrir allt, kærleiksins verður. Megi ég ætíð vera meðvitaður um þann kærleik sem ég er fær um að gefa – og gefa hann.

Minnispunktur dagsins
Að einhverjum skuli þykja annt um mig gerir það að verkum að mér finnst ég vera þess virði.

Hugleiðing dagsins
Dag Hammerskjold ritaði eftirfarandi;
“Þú getur ekki leikið þér að dýrinu innra með þér án þess að verða samdauna því, leikið þér að ósannindum án þess að fyrirgera rétti þínum til sannleikans, leikið þér að grimmd án þess að tapa tilfinninganæmni hugans. Sá sem vill halda garði sínum snyrtilegum tekur ekki frá reit fyrir illgresið.”
Ef ég ætla mér að halda mínum garði snyrtilegum þá verð ég ætíð að muna að skilja ekki eftir reit þar sem illgresið fær vaxið, að öðrum kosti gæti það komið mér um koll seinna meir. Með því að koma mér í aðstæður þar sem freistingar eru á hverju strái, fylgjast með útdrætti í Lottó eða niðurstöðum leikja á Lengjunni eða fara inn á spilastaði, þá gæti það skapað vaxtarskilyrði fyrir illgresið í huga mér.

Geri ég mér grein fyrir því að ef ég fæ skyndliega í hendurnar fjármagn, sem ég er ekki ábyrgur fyrir, þá kallar það einvörðungu á skjótan og hraðan vöxt illgreisis?

Bæn dagsins
Megi ég nota meira af tíma mínum til þess að huga að og hlynna það sem veitir mér hamingju, gleði, frið og æðruleysi, frekar en að eyða tíma mínum í að skapa vaxtarskilyrði fyrir eymd, sársauka og þjáningar. Megi ég ekki gleyma því að slíkt illgresi bíður ætíð færis að vaxa og dafna, ef ég sofna á verðinum.

Minnispunktur dagsins
Við uppskerum eins og við sáum.

Hugleiðing dagsins
Nafntogaður heimspekingur ritaði eitt sinn “Okkar eigið sjálf er vel falið fyrir okkar eigin sjálfi.” “Af öllum fjársjóðsnámum heimsins þá er okkar eigin sú síðasta sem við gröfum í.” Tólf BataSpor GA hafa hjálpað mér að afhjúpa mitt “eigið sjálf,” sem var svo lengi hulið undir örvæntingarfullri þörf minni á viðurkenningu frá öðrum. Ég er byrjaður að öðlast sanna tilfinningu fyrir sjálfum mér og fá þægilegt sjálfstraust, þökk sé GA prógraminu og mínum Æðri mætti. Ég þarf ekki lengur að bregða mér í mörg líki, stöðugt skiptandi um hlutverk þegar ég reyni að falla inn í hópinn.

Keppi ég að því á öllum stundum að vera sannur gagnvart sjálfum mér?

Bæn dagsins
Ég bið þess að ég megi vera heiðarlegur við sjálfan mig og að ég muni halda áfram – með guðs hjálp og vina minna – að reyna að þekkja sjálfan mig. Megi ég vita að ég verð ekki skyndilega heill, heilsteyptur, samkvæmur sjálfum mér; það getur og mun taka tíma að þroskast, að átta mig á eigin gildum og forgangsatriðum. Megi ég gera mér grein fyrir að ég hef fengið góða byrjun á þeirri vegferð að verða ég sjálfur.

Minnispunktur dagsins
Ég er á leið með að verða sá sem ég vil verða.

Hugleiðing dagsins
La Rouchefoucauld (stundum kallaður meistari kjarnyrðanna) ritaði: “Það er ekki víst að manneskja þekki hjarta sitt þó hún þekki hug sinn.” GA prógramið er ómetanlegt fyrir þau okkar sem erum í bata, viljum þekkja okkur sjálf og höfum það hugrekki sem þarf til til þess að sækjast eftir framförum fyrir tilstuðlan sjálfsskoðunar og sjálfsbætingar. Ef ég held mig við að vera heiðarlegur, með opinn huga og viljugur þá mun GA prógramið hjálpa mér að losa mig við sjálfsblekkinguna, viðhorfið og brestina, sem hindruðu mig svo lengi í því að verða að þeirri manneskju sem mig dreymdi alltaf um.

Reyni ég að hjálp öðrum að skilja batastefnu Tólf Spora GA? Sýni ég með fordæmi mátt þeirra??

Bæn dagsins
Ég bið um blessun guðs til handa GA félagsskapnum, sem hefur sýnt mér svo margt varðandi sjálfan mig, sem ég var ekki tilbúinn til þess að horfast í augu við einn míns liðs. Megi ég hafa það hugrekki sem þarf til þess að vera bent á eigin galla og bresti sem og að benda öðrum á það sama, ekki bara til þess að vera heiðarlegur heiðarleikans vegna – sem gæti þó verið næg ástæða – heldur til þess að leyfa sjálfum mér og öðrum í félagsskapnum að vaxa fyrir tilstuðlan sjálfs-þekkingar.

Minnispunktur dagsins
Við speglum hvert annað.

Hugleiðing dagsins
Það er himin og haf á milli sjálfselsku og þess að elska sjálfan sig. Sjálfselska endurspeglar upplásið sjálf, sem okkur – í misskilinni hugmynd um eigið mikilvægi – finnst að heimurinn eigi að snúast um. Sjálfselska er gróðrarstía fjandskapar, hroka, og fjölda annarra persónuleikagalla, sem hindra okkur í að sjá hlutina með annarra augum. Að elska sjálfan sig er, á hinn bóginn, getan til þess að kunna að meta okkar eigin virðingu og gildi sem mennskrar veru. Að elska sjálfan sig er sprottið af sjálfsþekkingu, sem er rótin að aðmýkt og hógværð.

Trúi ég því að ég sé hæfastur til þess að elska aðra þegar ég hef lært að elska sjálfan mig?

Bæn dagsins
Megi guð, sem elskar mig, kenna mér að elska sjálfan mig. Megi ég sjá að þeir einstaklingar sem eru hrokafyllstir og afskiptasamastir eru í raun ekki eins öruggir með sjálfa sig og þeir vilja líta út fyrir að vera. Þeir eru þess í stað líklegir til þess að hafa mjög lélega sjálfsmynd, óöryggi sem þeir fela með sýndarmennsku og látalátum. Megi guð sýna mér að þegar ég er fær um að líka við sjálfan mig, þá er ég sannarlega að lofa hann, þar sem allar lifandi verur eru hans verk.

Minnispunktur dagsins
Ég mun reyna að líka við sjálfan mig.

Hugleiðing dagsins
Ég sé það nú að sjálfsálit mitt var í algjöru lágmarki, þegar ég loks viðurkenndi vanmátt minn fyrir spilafíkn. Þegar ég kom í GA þá fannst mér ég vera einskis virði en mig langaði svo til þess að breyta því. Þegar ég lít til baka þá sé ég hve sjálfsvirðing mín var tætt, að því er virtist óbætanleg. Prógramið hefur hjálpað mér að bæta smám saman sjálfsmynd mína. Ég er farinn að sætta mig við sjálfan mig, gerandi mér grein fyrir að ég sé nú ekki eins slæmur og mér fannst ég vera.

Er mér að lærast að sjálfsmat mitt byggir ekki á áliti eða viðurkenningu annarra heldur á heiðarlegri vinnu í sjálfum mér?

Bæn dagsins
Þegar ég er langt niðri og finnst ég vera einskis virði, megi minn Æðri Máttur og vinir mínir í GA hjálpa mér að sjá að þó svo að ég sé “fallinn” þá er ég ekki “vonlaus”. Megi ég vita að sama hversu sjúkur ég var á meðan ég var virkur spilafíkill og með sjálfsálit á við ánamaðk, þá hafði ég þó alltaf val. Og ég valdi að gera eitthvað í mínum málum. megi það góða val verða grunnurinn að endurnýjuðu sjálfsmati.

Minnispunktur dagsins
Ég mun ekki sparka í sjálfan mig, þegar ég er langt niðri.

Hugleiðing dagsins
Það er hægt að mæla þær framfarir og vöxt, sem ég hef öðlast fyrir tilstuðlan GA prógramsins, á ótal vegu. Og einn mikilvægasti mælikvarðinn er sá að ég er orðinn meðvitaður um að ég er ekki lengur knúinn áfram, nánast eins og af þráhyggju, til þess að dæma allt og alla í kringum mig. Það eina sem ég þarf að skipta mér af í dag er að halda áfram að vinna í sjálfum mér, að breyta sjálfum mér en ekki öðru fólki, stöðum eða hlutum. Á sinn hátt var þráhyggjan sem fylgdi því að vera stöðugt að dæma aðra, jafn mikil byrði og þráhyggjan sem fylgdi spilamennskunni. Ég er þakklátur fyrir það að báðum þessum byrðum hefur verið létt af öxlum mínum.

Þegar ég gerist dómharður, megi ég þá minna mig á að ég sé kominn inn á verksvið guðs?

Bæn dagsins
Fyrirgef mér misgjörðir mínar, þegar ég hef gerst sjálfskipaður dómari og kviðdómur í málum annarra. Þegar ég er dómharður þá er ég að troða á rétti annarra til þess að dæma sig sjálfa – og um leið rétti guðs. Megi ég kasta frá mér öllum verkfærum dómhörkunnar – eigin mælistikum og málböndum, eigin viðmiðunum, eigin óraunhæfu siðareglum – og taka hverri manneskju sem einstaklingi hafinn yfir samanburð.

Minnispunktur dagsins
Henda gömlu böndunum – sérstaklega málböndunum.

Hugleiðing dagsins
Þegar ég hugleiddi fyrst, að láta vilja minn og líf lúta handleiðslu guðs eins og ég skil hann, þá óraði mig ekki fyrir þerri umbun sem það hefði í för með sér. Nú get ég glaðst, í skjóli eigin bata sem og í ljósi bata þeirra fjölmörgu sem hafa fundið von og nýtt líf í GA prógraminu. Eftir hin fjölmörgu hörmungarár sóunar og hörmunga, þá geri ég mér grein fyrir því í dag að guð var ætíð við hlið mér og hliðhollur mér.

Er ekki skýr skilningur minn á vilja guðs eitt það besta sem hefur komið fyrir mig?

Bæn dagsins
Megi ég vera þakklátur fyrir hinar skörpu andstæður á lífi mínu eins og það var (Fyrri hluti) og þess hvernig það er í dag (Seinni hluti). Í Fyrri hluta var ég virki spilafíkillinn, sem varð stöðugt að vera að aðhafast eitthvað, með ranghugmyndir og ótta í farteskinu. Í Seinni hluta er ég spilafíkill í bata, sem fær að enduruppgötva eigin tilfinningar, viðurkenna ábyrgð mína, og stöðugt að læra hvað hið raunverulega líf hefur upp á að bjóða. Án þessarar skörpu andstæðu þá myndi ég ekki finna fyrir þeirri gleði sem ég upplifi í dag eða þeirrar friðsælu nærveru míns Æðri Máttar sem ég finn fyrir.

Minnispunktur dagsins
Ég er þakklátur fyrir svona andstæðu.