GA samtökin

Heimasíða GA samtakanna á Íslandi

Browsing Posts in Dagurinn í dag

Hugleiðing dagsins
Alfred North Whitehead, enskur stærðfræðingur og heimspekingur, skrifaði; “Undirstaða framþróunar tengist enduskilgreiningu á grundvallar hugmyndum.” Þegar við förum yfir og endurskoðum það sem miður fer og það sem vel tekst til með í bataferli okkar í GA, þá sjáum við hversu mikill sannleikur felst í þessum orðum. Okkur fer fram í hvert skipti sem við losum okkur við gamla hugmynd, í hvert sinn sem við afhjúpum persónuleikagalla, í hvert sinn sem við erum fús til þess að losa okkur við þann galla. Okkur miðar áfram, einn dag í einu, þegar við forðumst fyrsta veðmálið, þessa fyrstu fíknitengdu hegðun sem gæti svo auðveldlega sveigt okkur af slóð bata og vaxtar yfir á slóð örvæntingar.

Hugleiði ég framfarirnar sem hafa orðið hjá mér síðan ég kom í GA?

Bæn dagsins
Megi ég muna að það eru fáar nýjar hugmyndir til, bara gamlar hugmyndir sem eru endurtúlkaðar og endursagðar. Megi ég ætíð vera meðvitaður um það að stóru hlutirnir í lífinu – eins og ást, bræðralag, guð, bindindi frá ávanabindandi hegðun – verða skarpari með tímanum. Megi Tólf Sporin að sama skapi verða endurskilgreind í lífi hvers og eins, og megum við muna að það hefur verið margreynt að þau virka sem grundvallarlífsreglur.

Minnispunktur dagsins
Tólf Sporin virka.

Hugleiðing dagsins
Framgangur minn í batanum hangir að stórum hluta saman við viðhorf mitt, og viðhorf mitt er á mína ábyrgð. Það er hvernig ég ákveð að sjá hlutina. Enginn getur neitt upp á mig einhverri tiltekinni afstöðu. Heilbrigt viðhorf er, fyrir mig, sjónarmið sem litast ekki af sjálfsvorkun og gremju. Án efa munu verða hindranir í veginum. En GA prógramið hefur kennt mér að það er hægt að umbreyta hindrunum í tækifæri.

Trúi ég, “að menn geti risið upp til nýrra hæða, með því að notast við aflagðar eigin sjálfsmyndir” eins og Tennyson sagði?

Bæn dagsins
Megi Guð hjálpa mér að rækta heilbrigt viðhorf gagnvart sjálfum mér, GA prógraminu og öðru fólki. Guð, forða mér frá því að tapa andlegu jafnvægisverkfærunum, sem hjálpa mér að halda mér í jafnvægi í tilgangi, viðhorfi og afstöðu. Lát mig hunsa sjálfsvorkun, úrtölur og þá tilhneigingu mína að gera of mikið úr hlutunum, ýkja. Lát enga tilgangslausa byrði koma mér úr jafnvægi.

Minnispunktur dagsins
Með guð mér við hlið þarf ég ekki að missa kjarkinn.

Hugleiðing dagsins
Margir þeirra sem við kynnumst í GA virðast ljóma – af gleði yfir lífinu sem endurspeglast í andliti þeirra og öllu þeirra atferli. Þeir hafa sagt skilið við spilafíknina og framþróun þeirra er komin á það stig að þeir eru “hátt uppi” af sjálfu lífinu. Sjálfsöryggi þeirra og eldmóður eru smitandi – sérstaklega fyrir nýliðana í GA. Nýliðum finnst ótrúlegt að þessir glöðu og hressu GA félagar hafi einhvern tíma haft þrúgandi áhyggjur og byrðar. Kraftaverkið sem saga þeirra sýnir er lifandi sönnun þess að prógramið virkar.

Nýtist framþróun mín í GA prógraminu sem skilaboð til annarra?

Bæn dagsins
Ég bið að mín eigin umbreyting, fyrir tilstuðlan GA prógramsins – frá þungum byrðum yfir í engar byrðar, frá niðurlútum yfir í uppreistan, kærulausum yfir í kærleiksríkan, frá ofsóttum af fjárhættuspilum yfir í frjálsan frá fjárhættuspilum – verði eins mikil hvatning fyrir nýliða og stórbrotin umbreyting í lífi annarra var fyrir mig. Megi ég – á sama hátt og aðrir kátir félagar í GA – læra hvernig það sé að vera “hátt uppi” af lífinu.

Minnispunktur dagsins
Lífið sjálft er besta víman.

Hugleiðing dagsins
Það kemur fyrir, þegar ég fer með æðruleysisbænina aftur og aftur, að hún tapar merkingu sinni. Ég reyni því að hugsa um merkingu hverrar setningu þegar ég fer með bænina, hvort sem það er í hljóði eða upphátt. Þegar ég einblíni svona á innihaldið þá eykst skilningur minn samhliða getu minni til þess að skilja muninn á því sem ég get breytt og því sem ég get ekki breytt.

Átta ég mig á því að mestu framfararnir í mínu lífi munu koma þegar ég næ að breyta viðhorfi mínu og hegðun?

Bæn dagsins
Megi minn æðri máttur sýna mér fram á nýja og dýpri merkingu í æðruleysisbæninni í hvert sinn sem ég fer með hana. Megi ég sjá betur og betur þann sannleik sem hún hefur að geyma, þegar ég beiti henni á mismunandi aðstæður og samskipti í lífi mínu. Megi ég átta mig á að æðruleysi, hugrekki og vit eru það eina sem ég þarf til þess að takast á við lífið, en um leið að ekkert af þessu hefur gildi nema það grundvallist á trausti mínu á minn æðri mátt.

Minnispunktur dagsins
Uppskrift guðs fyrir lífið; æðruleysi, hugrekki og vit.

Hugleiðing dagsins
Við losnum við kvíðann, þegar við leyfum okkar Æðri Mætti að taka stjórnina án nokkurra skilyrða af okkar hálfu. Þó svo að við séum ekki kvíðin út af einhverri manneskju eða aðstæðum þýðir það ekki að við séum áhugalaus. Þvert á móti. Við getum verið áhugasöm og umhyggjusöm án þess að vera kvíðin eða óttaslegin. Sá sem er í jafnvægi, rólegur og hefur trú hefur eitthvað fram að færa í öllum aðstæðum. Viðkomandi hefur getuna til þess að gera það sem er nauðsynlegt og hjálplegt.

Átta ég mig á því hversu betur ég er undirbúinn til þess að framkvæma á skynsaman og kærleiksríkan hátt, ef ég útiloka kvíðahugsun og er með vitneskju um að guð er við stjórnvölinn?

Bæn dagsins
Ég bið þess að ég megi losna við kvíðann, sem ég hef lagt að jöfnu við umhyggju fyrir öðrum. Megi ég átta mig á að kvíði er ekki einhver flík sem hægt er að klæða sig í og úr. Megi ég gera mér grein fyrir því að ég verð að hafa æðruleysi og sannfæringu um að guð geti staðið sig betur en ég – og þá mun draga úr kvíðanum.

Minnispunktur dagsins
Kvíði hefur aldrei leyst nokkurn skapaðan hlut.

Hugleiðing dagsins
Ég man eftir því að hafa heyrt einhvern í GA prógraminu segja, “Að lifa er að vera ýmist sammála eða ósammála alheiminum.” Það er heilmikill sannleikur í þessari fullyrðingu, því ég er jú bara lítið tannhjól í gangverki alheimsins. Þegar ég reyni að hafa stjórn á hlutunum og láta allt fara eftir mínu höfði, þá upplifi ég einungis vonbrigði og finnst mér hafa mistekist. Ef ég á hinn bóginn læri að sleppa tökunum, þá mun velgengni sannarlega fylgja í kjölfarið. Þá mun mér veitast tími til þess að njóta velgengni, vinna í eigin takmörkunum og lifa til fulls í núinu.

Trúi ég því að ef ég ástundi Ellefta Sporið þá muni ég öðlast þá vitneskju sem ég þarf á að halda – þegar ég bið um að öðlast skilning á því sem er mér fyrir bestu og mátt til að framkvæma það?

Bæn dagsins
Megi ég ná áttum með Ellefta Sporinu – en falla ekki í gömlu gryfjuna og útbúa lista fyrir guð með tilmælum, kvörtunum og grátbeiðnum. Megi ég hætta að geta mér til um vilja guðs með mínum fyrirfram gefnu niðurstöðum, og biðja þess í stað einvörðungu um að hans vilji verði. Megi ég sjá allt það sem fer vel í stað þess að velta mér upp úr því að grátbæna.

Minnispunktur dagsins
Hætta að útbúa lista fyrir guð.

Hugleiðing dagsins
Ákveðni – þegar við setjum undir okkur hausinn og teljum okkur trú um að við getum tekist á við hvað sem er ef við erum bara nógu ákveðin – er hugsanlega stærsta hindrunin í vegi fyrir því að öðlast æðruleysi. Gamla tuggan okkar hljóðar svo, “Erfiðu verkefnin er hægt að klára strax; það tekur örlitið lengri tíma að klára þau ómögulegu.” Niðurstaðan varð sú að við gyrtum okkur í brók og gerðum okkur klár í orustu, þrátt fyrir að reynslan sýni okkur að okkar eigin vilji muni ætíð koma okkur í koll. Í GA er sagt við okkur, aftur og aftur, að við verðum að sleppa tökunum, láta af stjórn. Og að lokum finnum við fyrir æðruleysi, þegar við leggjum eigin vilja til hliðar og sættum okkur við vilja guðs.

Er mér að lærast að slaka á? Leyfi ég lausninni að koma af sjálfu sér?

Bæn dagsins
Megi ég losa um spennta kjálka, kreppta hnefa, spennuna almennt – þau einkenni sem gefa svo vel til kynna að ég sé haldinn “ég sé um þetta sjálfur” heilkenninu, sem hefur svo oft komið mér í klandur. Megi ég læra af reynslunni að þessu viðhorfi – “Að ná tökum á sjálfum mér og öllum öðrum í leiðinni” – fylgir óþolinmæði og vonbrigði. Megi ég láta eigin vilja renna saman við vilja guðs.

Minnispunktur dagsins
Sleppa kyrkingartakinu.

Hugleiðing dagsins
Þegar ég las Æðruleysisbænina í fyrsta skipti þá fannst mér orðið “æðruleysi” hljóma ómögulega. Á þeim tíma kallaði það orð fram í huga mér mynd af sinnuleysi, sleni, uppgjöf eða þvingaðri þrautsegju; ekkert sem væri eftirsóknarverð markmið. En síðan þá hef ég fengið að uppgötva að æðruleysi merkir allt annað en það sem ég hélt. Í dag merkir æðruleysi fyrir mig einfaldlega það að sjá heiminn með skýrum augum og á raunsannan hátt, með innri frið og styrk í farteskinu. Uppáhaldsskilgreiningin mín á æðruleysi er, “Æðruleysi er eins og snúðvísir (e.gyroscope) sem hjálpar okkur að halda jafnvægi sama hvaða umrót er í lífi okkar.”

Er það hugarástand sem er eftirsóknarvert?

Bæn dagsins
Megi ég taka eftir því að “æðruleysi” er á undan “kjarki” og “viti” í Æðruleysisbæninni. Megi ég trúa því að það sama eigi við um mitt líf, “æðruleysi” verður að vera í fyrsta sæti. Ég verð að hafa jafnvægið, raunsönnu sýnina og sáttina, sem eru hluti hluti af þeirri blessun sem fylgir æðruleysi, áður en ég get hafist handa við að taka þær ákvarðanir sem koma skikkan á líf mitt.

Minnispunktur dagsins
Æðruleysið kemur fyrst.

6.október

No comments

Hugleiðing dagsins
Með tímanum, þegar við höfum sótt GA fundi í einhvern tíma, verðum við fær um að þekkja þá GA félaga sem virðast hafa ofgnótt af æðruleysi. Við drögumst að slíku fólki. Okkur til furðu þá kemur það fyrir að þeir sem virðast hvað þakklátastir fyrir blessun dagsins eru þeir sem eru að takast á við erfiðustu, samfelldu vandamálin heima fyrir eða í vinnunni. Samt hafa þeir hugrekki til þess að snúa sér frá slíkum vandamálum og leggja virka ástundun á lærdóm og að hjálpa öðrum í GA prógraminu. Hvernig hafa þeir öðlast slíkt æðruleysi? Það hlýtur að vera vegna þess að þeir treysta minna á sjálfan sig og eigin takmörkuðu ráð og leggja traust sitt á sinn æðri mátt.

Er ég að öðlast æðruleysi? Eru gjörðir mínar farnar að endurspegla mína innri trú?

Bæn dagsins
Megi ég aldrei hætta að fyllast lotningu yfir því æðruleysi sem ég verð vitni að hjá öðrum GA félögum – æðruleysi sem endurspeglar fyrirhafnarlausa uppgjöf þeirra gagnvart æðri mætti. Megi ég draga þann lærdóm af þeim að hugarró er möguleg jafnvel frammi fyrir erfiðum vandamálum. Megi ég og draga þann lærdóm að ég verð, endrum og sinnum, að snúa mér frá vandamálum mínum og nýta mér það guðs-gefna æðruleysi sem er til staðar innra með mér.

Minnispunktur dagsins
Æðruleysi er að sætta sig við fyrirætlan guðs.

5.október

No comments

Hugleiðing dagsins
Ég fann æðri mátt, sem ég kýs að kalla guð, fljótlega eftir að ég kom í GA samtökin. Ég trúi því að minn æðri máttur sé almáttugur; ef ég held mig í nálægð við hann og hegða mér samkvæmt vilja hans, þá uppfyllir hann ekki langanir mínar heldur þarfir. Ég hef smám saman horfið frá því að vera sjálfhverfur og farið að leiða hugann að því hvað ég geti gert til þess að hjálpa öðrum og hvað ég geti lagt af mörkum til lífsins.

Er ég, eftir því sem ég verð meðvitaðri um nærveru guðs, farinn að losna undan sjálfhverfum ótta mínum?

Bæn dagsins
Megi ég sjá að stærsta augljósa breytingin á sjálfum mér – jafnvel stærri en minn innri friður – er að ég hef látið allar varnir niður falla og stend berskjaldaður gagnvart umheiminum. Ég er aftur orðinn þátttakandi í lífinu, er á meðal fólks, hef áhuga á lífi annarra, örlög þeirra skipta mig máli. Megi ég finna gleði mína á ný hér í raunveruleikanum á meðal fólks, nú þegar ég hef sagt skilið við ótta minn og ranghugmyndir mínar varðandi sjálfan mig.

Minnispunktur dagsins
Hvers virði er lífið ef annarra nyti ekki við?