GA samtökin

Heimasíða GA samtakanna á Íslandi

Browsing Posts in Dagurinn í dag

24.maí

No comments

Hugleiðing dagsins
Að yfirvinna áralanga tortryggni og annað, sem við höfum brynjað okkur með gagnvart umhverfinu, er meira en bara sólarhrings verk. Okkur var orðið svo tamt að finnast við misskilin og ástlaus og hegða okkur í samræmi við það – hvort sem sú var raunin eður ei. Sum okkur gætu þurft tíma og æfingu til þess að brjótast út úr þessari skel og þeim þægindaramma sem einsemdin virðist vera. Jafnvel þó við séum byrjuð að trúa því og gera okkur grein fyrir að við séum ekki lengur ein á báti, þá hættir okkur stundum til þess að finna til gömlu kenndanna og hegða okkur í samræmi við þær.

Er ég byrjaður að slaka á? Er ég byrjaður að læra að færa mér í nyt GA prógramið, svipað eins og maður klæðist notalegri og þægilegri flík?

Bæn dagsins
Megi ég ekki búast við skyndilegri umbreytingu á mínum gömlu töktum. Bindindi mitt frá fjárhættuspilum er einungis byrjunin. Megi ég gera mér grein fyrir að einkenni fíknar minnar munu smám saman hverfa. Þó ég hverfi um stund aftur til fyrri sjálfsvorkunar eða stórbokkaháttar, megi það ekki draga úr mér kjarkinn heldur fylla mig þakklæti. Því ég get horfst í augu við sjálfan mig á heiðarlegan hátt og tekist á við sjálfsblekkinguna.

Minnispunktur dagsins
Það hefst með hægðinni.

23.maí

No comments

Hugleiðing dagsins
Þegar nýliðar í GA samtökunum upplifa í fyrsta skipta þá óvæntu tilfinningu að finna að þeir séu á meðal vina, þá velta þeir ósjálfrátt vöngum yfir – og stundum með smá kvíðahnút í maganum – hvort þetta sé raunverulegt. Mun þetta endast? Þau okkar, sem höfum verið í GA í nokkur ár, getum sannfært nýliða um að þetta sé í raun og veru svona, og að þetta muni endast. Þetta er ekki enn ein tálsýnin, ekki enn eitt innantóma upphafið, ekki bara tímabundin gleðistund sem breytist á endanum í fullkomin vonbrigði.

Er ég þess fullviss að ég geti öðlast ósvikinn og varanlega bata frá spilaáráttu minni?

Bæn dagsins
Guð gefi að ég láti ekki ótta minn við síendurtekinn einmannaleika halda aftur af mér. Megi ég gera mér grein fyrir því að einlægnin, sem umlykur mig í GA, muni ekki skyndilega hverfa og skilja mig eftir í kuldanum. Megi ég sýna ótta mínum þolinmæði, ótta sem er þrútinn af vonbrigðum fortíðar og eftirsjá. Megi ég vita að félagsskapur hópsins muni – ef ég gef honum tíma – sýna mér fram á að einsemd er ekki ólæknandi.

Minnispunktur dagsins
Einsemd er læknanleg.

22.maí

No comments

Hugleiðing dagsins
Mér fannst það sláandi þegar ég heyrði í fyrsta skipti hversu frjálslega og opinskátt fólkið í GA talaði um sjálft sig. Sögur þeirra af spilauppátækjum, duldum ótta og nagandi einmannaleika voru hreint út sagt yfirþyrmandi. Ég uppgötvaði – og þorði varla að trúa því í fyrstu – að ég væri ekki einn á báti. Ég er ekki svo frábrugðinn öðrum og við erum í reynd öll keimlík. Ég byrjaði að skynja að ég ætti heima innan GA samtakanna og einmannaleikinn fór að dvína.

Reyni ég að gefa öðrum það sem mér var fúslega gefið?

Bæn dagsins
Megi ég byrja að sjá, eftir að hafa heyrt reynslusögur GA félaganna, að við eigum mun meira sameginlegt en það sem greinir okkur að. Megi ég, þar sem ég hlýði á reynslu þeirra af spilafíkn og bata, upplifa tilfinninguna og sjokkið sem fylgir því að tengja við það sem þeir eru að segja. Hugsa með mér “hey, þetta er ég sem þú ert að tala um.” Megi ég verða, af fullum huga, meðlimur í hópnum og gefa af mér til jafns við það sem ég þigg.

Minnispunktur dagsins
Samkennd, ekki aðgreining.

21.maí

Comments off

Hugleiðing dagsins
“Tungumál vináttunnar felst í merkingu – ekki orðum,” skrifaði Thoreau. Lífið sjálft fær nýja merkingu – nýtt innihald – fyrir tilstuðlan GA prógramsins. Að sjá GA félaga jafna sig, sjá viðkomandi hjálpa öðrum, sjá einsemdina hverfa, sjá GA félagsskapinn vaxa og dafna í kringum sig, að eignast fjölda vina – þetta er upplifun sem enginn ætti að fara á mis við.

Get ég rifjað upp fyrstu viðbrögð mín þegar ég kom á minn fyrsta GA fund? Trúi ég því að ég sé loksins kominn heim?

Bæn dagsins
Megi ég koma því áfram til nýrra GA félaga, sem GA prógramið hefur gefið mér; Tækifæri til þess að endurmeta líf mitt í ljósi bata, sameiginlegs markmiðs, vináttu og andlegrar vakningar. Lof sé Guði fyrir að gera mér kleift að sjá mannlegt líf í nýju ljósi. Lof sé Guði fyrir að endurvekja hjá mér gildi og tilgang með lífinu.

Minnispunktur dagsins
Ég met líf mitt.

20.maí

Comments off

Hugleiðing dagsins
Spilafíkn er sjúkdómur einsemdarinnar; þó svo að það hafi virst sem við værum hluti af fjörinu í kringum okkur, þá vorum við oftar en ekki þjáð af einsemd. Á meðan við vorum enn virkir spilafíklar – áður en sektarkenndin og skuldir gerðu það að verkum að við áttuðum okkur á því að líf okkar var orðið stjórnlaust – þá fannst flestum okkar, ef ekki öllum, að við værum utanveltu, tilheyrðum ekki. Við vorum ýmist fremur feimin eða uppfull af ýktri góðmennsku og þráðum ekkert heitar en athygli og viðurkenningu, sem okkur hlotnaðist nær aldrei. Við reyndum, með því að sækja í félagsskap fjárhættuspialar, að yfifrvinna einsemdina en áttuðum okkur ekki á því að glæfraleg áhættan sem fylgir fjárhættuspilum er einmannaleg í eðli sínu. Að lokum var svo komið fyrir okkur að sjálf spilamennskan, þar sem við töldum okkur fá einhverja hugarró, hún sveik okkur og skyldi okkur eftir full af örvæntingarfullri einsemd og einmannaleika.

Er ég farinn að ná innri ró?

Bæn dagsins
Megi ég þekkja mildi náinna tengsla við Guð og kyrrðarinnar sem ég finn þegar ég snerta anda Guðs. Megi ég yfirfæra þessa mildi og kyrrð yfir á sambönd mín við annað fólk. Megi Guð bjarga mér frá ævilangri einsemd og kenna mér að vera vinur.

Minnispunktur dagsins
Guð getur kennt mér að vera vinur.

19.maí

Comments off

Hugleiðing dagsins
Oliver Wendell Holmes ritaði: “Það sem liggur í fortíðinni og það sem framtíðin ber í skauti eru smámunir einir miðað við það sem býr innra með okkur.” Ég var ófær um að greina hvað bjó innra með mér allt þar til ég kynntist GA samtökunum og heyrði sögu mína sagða. Eftir það gat ég ekki lengur skýlt mér á bak við það hversu “einstakur” ég væri. Og sá sem sagði söguna virtist mun glaðari heldur en ég að heyra söguna. Ég öfundaði þá sem áttu velgengni að fagna – hafði alltaf gert – svo ég byrjaði að segja sjálfur frá minni sögu.

Er ég hissa á því í dag að allt sem ég burðaist með innra með mér, skuli virkilega hafa verið falið í svo langan tíma fyrir umheiminum?

Bæn dagsins
Burtséð frá því hvað liggi að baki og hvað sé framundan, megi ég muna að ég verð að hafa Guð innra með mér til þess að leiðbeina mér í gegnum erfiðar aðstæður. Þegar ég er ekki að takast á við erfiðar aðstæður, megi ég þakka Guði – og vita að Hann er ástæðan fyrir því að ég er á þessum stað í lífi mínu í dag.

Minnispunktur dagsins
Að búa til pláss fyrir Guð innra með mér.

18.maí

Comments off

Hugleiðing dagsins
Á meðan ég var virkur spilafíkill þá leit ég á mig sem “einfara”. Þó ég hafi oft verið innan um annað fólk – séð það, heyrt í þeim og jafnvel snert – þá voru flestar þýðingarmiklu samræðurnar sem ég átti, við sjálfan mig. Ég var þess handviss að enginn annar myndi skilja mig. Ef ég hef í huga það álit sem ég hafði á sjálfum mér á þessum tíma, þá er líklegt að ég hafi ekki viljað að neinn skyldi mig. Ég brosti framan í heiminn en var á sama tíma að deyja innra með mér.

Er mitt innra sjálf farið að líkjast ytra byrðinu, eftir að ég byrjaði að stunda GA prógramið?

Bæn dagsins
Megi mitt líkamlega, tilfinningalega, vitsmunalega og andlega sjálf renna saman svo ég megi verða heill á ný. Ég þakka mínum æðri mætti fyrir að sýna mér hvernig ég geti samhæft mitt innra sjálf við hið ytra, hvernig ég geti hlegið þegar mig langar til þess að hlæja, hvernig ég geti grátið þegar ég er dapur, hvernig ég geti borið kennsl á eigin reiði eða ótta eða sektarkennd. Ég bið þess að verða heill.

Minnispunktur dagsins
Ég er að verða heill á ný.

17.maí

Comments off

Hugleiðing dagsins
Ef við fundum fyrir sektarkennd, niðurbroti eða samviskubiti vegna fíknar okkar eða hegðunar, þá jók það á þá tilfinningu að finnast við vera utangarðs/útskúfuð. Á stundum óttuðumst við eða jafnvel trúðum því að við ættum skilið að finna svona til: við héldum á stundum að við værum utangarðsmenn. Við gátum ekki einu sinni tjáð okkur um líðan okkar og gátum varla afborið að leiða hugann að því hvernig okkur leið. Við fórum því fljótlega aftur að spila.

Man ég vel hvernig þetta var?

Bæn dagsins
Megi ég minnast þess hversu oft mér fannst ég vera alein/-n að burðast með skömmina og sektina, á meðan ég var virkur spilafíkill. Hin falska gleði spilasalanna eða yfirborðskenndu samskipti gátu ekki komið í veg fyrir að mér leið eins og utangarðsmanni. Megi ég meta það tækifæri sem ég hef fengið til þess að eignast nýja vini og félaga í GA samtökunum. Megi ég gera mér grein fyrir að þau sambönd sem ég mynda í dag eru heilbrigðari, áreiðanlegri og þroskaðri.

Minnispunktur dagsins
Þökk sé Guði fyrir nýja vini.

16.maí

Comments off

Hugleiðing dagsins
Mörg okkar, sem erum í GA prógraminu, eigum það sameiginlegt að hafa stundað fjárhættuspil til þess að “tilheyra”, til þess að vera “stór kall/kona” eða til þess að “vera hluti af hópnum.” Önnur spiluðu til þess að tryggja sér stað – finnast þau eiga samleið með mannkyninu. Og stundum hafði spilamennskan þessi áhrif, sló tímabundið á þá tilfinningu að finnast við vera öðruvísi – standa utan við venjulegt líf. En þegar áhrifin af spilunum hurfu, þá stóðum við oftar en ekki eftir með enn meiri tómleikatilfinningu, fannst við vera enn meira utan við og öðruvísi en nokkru sinni.

Finnst mér stundum eins og “mitt tilvik sé sérstakt”?

Bæn dagsins
Megi guð gefa að ég komist yfir þá tilfinningu að finnast ég vera “öðruvísi” eða á nokkurn hátt einstakur/einstök. Það er hugsanlegt að þessi tilfinning hafi komið mér til þess að stunda fjárhættuspil í upphafi. Hún átti þátt í að hindra að ég sæi hversu alvarleg fíknin var orðin hjá mér, því ég hugsaði með mér “Ég er öðruvísi. Ég ræð við þetta.” Megi ég nú átta mig á því að ég raunverulega tilheyri fjölmennum félagsskap fólks sem er alveg eins og ég. Með hverri reynslu, sem félagar í GA deila með sér, þeim mun minni verður sérstaða hvers og eins.

Minnispunktur dagsins
Ég er ekki einstakur/einstök.

15.maí

No comments

Hugleiðing dagsins
Þegar ég horfi til baka til síðustu örvæntingarfullu daganna áður en ég kom í GA, þá man ég sterklega þann einmannaleika og einangrun sem einkenndi líf mitt. Sú líðan var ríkjandi jafnvel þó ég væri umvafinn fjölskydu minni. Og þó svo ég reyndi að látast vera hress og glaður og félagslyndur þá var oftar en ekki reiði kraumandi undir niðri, vegna þess að mér fannst ég ekki falla í hópinn.

Mun ég nokkru sinni gleyma þeirri eymd sem fylgir því að vera einmanna í margmenni?

Bæn dagsins
Ég þakka guði fyrir þá miklu gleði sem felst í því að vita og finna að ég er ekki lengur einn. Megi ég ekki vænta þess að einsemdin hverfi á einni nóttu. Megi ég gera mér grein fyrir því að það munu koma stundir þar sem ég finn fyrir einmannaleika, sérstaklega þar sem ég verð að segja skilið við fyrrum spilafélaga mína. Ég bið þess að ég muni eignast nýja vini sem eru í bata frá spilafíkn. Ég þakka guði fyrir félagsskapinn í GA.

Minnispunktur dagsins
Ég er ekki einn.