Spilavíti í Heilsuverndarstöðina- Landlæknir skoðar málið

mynd
Heilsuverndarstöðin.

„Heilbrigðisráðuneytið leggst gegn hugmyndinni,” segir Álfheiður Ingadóttir, heilbrigðisráðherra, en óskað hefur verið eftir óformlegum umsögnum lögreglu og landlæknaembættisins til þess að meta hvort það sé heppilegt að lögleiða fjárhættuspil á Íslandi.

Hugmyndin var kynnt Iðnaðarráðherra og var því farið þess á leit að kanna hvort fjárhættuspil gætu orðið íslenskum ferðamannaiðnaði til framdráttar.

Uppi voru hugmyndir um að starfrækja slíkt spilavíti í Heilsuverndarstöðinni en uppi eru hugmyndir um að breyta húsinu í hótel.

Í ljósi þess að heilbrigðisráðuneytið lagðist gegn spilavítum hér á landi var óskað eftir rökstuðningi hvað það varðaði. Því var leitað umsagnar lögreglu og landlæknis.

Fjárhættuspil eru ólögleg á Íslandi en í fjölmörgum löndum er um afar ábatasaman iðnað að ræða.

„Ég sé enga ástæðu til þess að breyta lögunum og fara að opna hér spilavíti. Það yrði ekki orðspori Íslands til framdráttar. Ísland hefur upp á margt að bjóða og aðra sérstöðu,” segir Álfheiður sem þykir hugmyndin ekki góð og áréttar að spilafíkn sé alvarlegur sjúkdómur og öllum ljóst hverjar afleiðingar spilafíknar geta orðið.

Að sögn Álfheiðar skal landlæknir skila erindinu fyrir 12. febrúar.