Heilbrigðisráðuneytið leggst alfarið gegn því að heimilað verði að opna spilavíti á Íslandi. Það tekur undir orð landlæknis um neikvæð áhrif spilavíta á heilsu landsmanna. Þetta kemur fram í svari ráðuneytisins við fyrirspurn frá iðnaðarráðuneytinu dags. 27. nóvember 2009.

Iðnaðarráðuneytið óskaði eftir óformlegri umsögn heilbrigðisyfirvalda um lögleiðingu á starfsemi spilavíta hér á landi.

Ráðuneytið óskaði umsagnar landlæknis en embættið leitaði upplýsinga hjá SÁÁ, Félagi sálfræðinga og Félagi spilafíkla. Einungis það síðastnefnda sendi inn umsögn.

Ennfremur leitaði embættið sérstakrar umsagnar hjá dr. Daníel Ólasyni, dósent við Sálfræðideild Háskóla Íslands en hann er meðal þeirra fræðimanna hér á landi sem einna mest hefur kynnt sér og rannsakað spilamennsku og spilafíkn meðal Íslendinga.

lokaorðum umsagnar landlæknis segir:

Byggt á ofangreindum rannsóknum og meðfylgjandi umsögnum þá er það niðurstaða Landlæknis að opnun spilavíta á Íslandi geti haft neikvæð áhrif á heilsu landsmanna.  Spilafíkn er vaxandi vandamál á Vesturlöndum samhliða sífellt fleiri möguleikum til að stunda peningaspil, t.d. á veraldarvefnum. Opnun spilavíta yrði vafalítið nýr og spennandi valkostur notenda.  Vafasamt er að slíkt sé æskileg þróun í ljósi hugsanlegra áhrifa á heilsu íbúanna.  Áður en ákvörðun er tekin um að hefja slíka starfsemi þurfa stjórnvöld því að íhuga vel kosti og galla hennar.  Landlæknir leggur áherslu á að ef opnun spilavíta verði að veruleika á Íslandi kalli það á að verulegu fjármagni verði varið í forvarnarstarf og meðferð spilafíkla.  Einnig krefst slík ákvörðun þess að nægilegt fjármagn verði lagt í rannsóknir til að fylgja eftir hugsanlegum áhrifum aukins framboðs peningaspila á heilsu íbúanna.