Ögmundur um spilavítið: Ekki verið að grínast

Mánudagur 8. febrúar 2010 kl 22:33

Höfundur: Ritstjórn DV (ritstjorn@dv.is)

Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna, er allt annað en sáttur við hugmyndir um spilavíti á Hótel Nordica í Reykjavík. „Þetta er ekki grín þrátt fyrir að allir viti að Ísland hrundi vegna þess að landið var gert að spilavíti í öllum myndgervingum þess hugtaks. Andi spilavítisins sveif hér yfir vötnum og hafði áhrif á allt þjóðlífið í orðum og gjörðum. Ekki var nóg með að landið væri gert að vettvangi spilafíknar og hún örvuð á alla lund, heldur hefur komið á daginn að land og þjóð voru gerð að panti í spilarúlettu heimsins,“ skrifar Ögmundur á heimasíðu sína.

Ögmundur segir hugmyndir Icelandair um að koma fjárhættuspili upp á yfirborðið vera á misskilningi byggðar.

„Þetta yrði bara viðbót við það sem fyrir er. Hér eru starfandi spilavíti í skjóli laga. Eða hafa menn ekki gengið Skólavörðustíginn í Reykjavík nýlega, eða farið um Hlemm eða Aðalstrætið? Á öllum þessum stöðum rekur Siðfræðistofnun Háskóla Íslands og Guðfræðideildin og allar hinar deildirnar við þjóðarháskólann nokkuð sem heitir Gullnáman og er ekkert annað en svæsið spilavíti. Svo eru það náttúrlega Rauði Krossinn, SÁÁ og Landsbjörg sem að verulegu leyti eru fjármögnuð upp úr vösunum á ógæfusömum spilafíklum. Allt á okkar ábyrgð, því við viljum að öll þessi samtök séu til og dafni en látum þau afla fjármuna með þessum hætti,“ skrifar Ögmundur.

Ögmundur veltir fyrir sér hvernig þessar stofnanir myndu bregðast við hugmyndum um samkeppni frá Nordica.

„Það er talað um útlenda kúnna. En ég spyr. Er betra að féfletta útlenda spilafíkla? Á kannski að konsentrera á ríka fíkla? Eins og þau gera í Monakó. Þangað hef ég komið einu sinni. Gat ekki beðið eftir að komast burt. Skynjaði að ég var kominn á stað þar glæpir voru normið. Ósóminn ríkisrekinn. Alla vega í skjóli laga. Og ríkið makaði krókinn. Einsog Icelandair leggur nú til,“ skrifar Ögmundur.

Hann segir nóg komið af slíku á Íslandi og ráðleggur fólki að fara hina áttina og loka Gullnámunni. „Hvernig væri að taka eins og eitt seminar um það í Háskóla Íslands?“ skrifar Ögmundur að lokum.