GA samtökin

Heimasíða GA samtakanna á Íslandi

Browsing Posts in Dagurinn í dag

7.júní

No comments

Hugleiðing dagsins
Fá okkar eru algjörlega laus við sektarkennd. Við kunnum að finna til sektarkenndar vegna einhvers sem við sögðum eða gerðum – einhvers sem létum ósagt eða ógert. Við erum svo samdauna nagandi sektarkennd að jafnvel þegar við erum ranglega sökuð um eitthvað þá lætur sektarkenndin á sér kræla. Þegar nagandi sektin lamar mig þá gefur augaleið að það dregur úr atorku minni. Ég verð því að losa mig við sektarkenndina – ekki með því að ýta henni til hliðar eða hunsa hana, heldur með því að bera kennsl á rót hennar og leiðrétta orsökina.

Hefur mér loksins lærst að “Hafa það einfalt”?

Bæn dagsins
Þar sem sektarkennd er kunnugleg líðan hjá spilafíkli, megi ég því læra að gera greinarmun á því hvenær tilfinningar mínar stafa einfaldlega af eðlilegri eftirsjá, yfir því að eitthvað skyldi gerast, eða hvenær þær taka á sig mynd varanlegrar sektar. Ég treysti á guð til þess að hjálpa mér að vinna úr og losa mig við sársaukann sem fylgir sektinni, sekt sem ég verð að bera kennsl á og losa mig við.

Minnispunktur dagsins
Sektarkennd er ekki lífstíðardómur.

6.júní

No comments

Hugleiðing dagsins
Eitt af því mikilvægasta sem ég sækist eftir og fæ í GA er að öðlast á ný getuna til þess að aðlaga mig að hlutum eins og þeir eru og að geta elskað án þess að reyna að hafa áhrif á eða stjórna einhverjum öðrum. Þetta ferli getur verið sársaukafullt; en umbunin er lífið sjálft – til fulls og í æðruleysi.

Er prógramið að hjálpa mér að öðlast hæfileikann til þess að hugsa á heilbrigðan og skynsamlegan hátt á ný, svo ég geti höndlað mannleg samskipti með ást og skilningi ?

Bæn dagsins
Megi ég bera næga virðingu fyrir þeim sem ég elska til þess að gefa þeim frelsi – hætta að stjórna, hagræða, hafa áhrif á og redda úr vandræðum. Megi ég elska nóg til þess að leyfa þeim að gera sín eigin mistök og bera ábyrgð á þeim. Megi ég læra að sleppa.

Minnispunktur dagsins
Að elska er að sleppa.

5.júní

No comments

Hugleiðing dagsins
GA prógramið hefur sýnt mér fram á að sárafáir geti með sanni fullyrt að þeir elski alla. Flest okkar verða að viðurkenna að við höfum einungis elskað sárafá og að við höfum verið áhugalaus um marga. Hvað restina varðar, ja sannast að segja þá mislíkaði okkur við þau og jafnvel hötuðum. Við sem erum í GA finnum að við þurfum annað og meira en þetta til þess að ná og halda jafnvægi. Sú hugmynd að við getum – á ráðríkan hátt – elskað fáa, hunsað marga og óttast eða hatað einhvern yfir höfuð, verður að hverfa – hugsanlega smám saman.

Beini ég athyglinni á fundum að skilaboðunum frekar en sendiboðanum?

Bæn dagsins
Megi mér skiljast að það er ekkert pláss í batanum – né heldur í lífinu í heild – fyrir eitrað hatur né heldur áhugalaust afskiptaleysi. Ein mikilvægasta jákvæða hugmyndin sem ég skyldi festa mér í huga er að allar manneskjur, sem börn guðs, eru hluti af ástríku systra- og bræðralagi. Megi mér reynast erfitt að hata systkini mín.

Minnispunktur dagsins
Hlýddu á skilaboðin. Ekki dæma sendiboðann.

4.júní

No comments

Hugleiðing dagsins
Sátt er lykilatriði. Oft kom það fyrir að ég var ekki sáttur við sjálfan mig og var því ófær um að vera sáttur við aðra. Áður en ég kom í GA samtökin þá forðaðist ég sannleikann því hann skelfdi mig. En í dag þá get ég, með hjálp bræðra minna og systra í GA, horfst í augu við sannleikann. Og í dag þá finn ég í raun styrkingu í sannleikanum. Ég geri mitt besta til þess að stefna í rétta átt – og það er nægilegt fyrir mig.

Sætti ég mig við það hvernig ég var orðinn og hvað ég stefni á að verða?

Bæn dagsins
Guð gefi mér æðruleysi til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt – fortíðinni með sínum hörmungum og eirðarleysi og þeim byrðum sem eftir eru frá spiladögum mínum. Megi sátt mín við hið liðna vera grunnurinn sem nýtt líf byggir á – líf sem ég ekki einvörðungu sætti mig við heldur fagna.

Minnispunktur dagsins
Sáttin er lykilatriði í batanum.

3.júní

No comments

Hugleiðing dagsins
“Upphaf ástar er að leyfa þeim sem við elskum að vera þau sjálf, en ekki að reyna að breyta þeim svo þau endurspegli okkur sjálf.” Svo ritaði Thomas Morton eitt sinn. “Að öðrum kosti elskum við bara okkar eigin spegilmynd.” Þar sem ég hef skipti á sjálfseyðandi fíkn minni og heilbrigðri þörf fyrir GA prógramið og sporin tólf, finn ég að múrar þagnar og haturs eru að bráðna. Með því að taka hvert öðru eins og við erum, höfum við lært að elska á ný.

Ber ég næga umhyggju fyrir öðrum í GA prógraminu til þess að halda starfinu með þeim áfram, eins lengi og þörf krefur?

Bæn dagsins
Megi ég vera nægilega óeigingjarn til þess að elska annað fólk eins og það er, ekki eins og ég vil að það sé – þannig að þau endurspegli sjálfan mig eða næri eigingirnina. Megi ég fara mér hægar í ákafa mínum til þess að elska – nú þegar ég er fær um að finna fyrir ást á ný – og spyrja sjálfan mig hvort ég elski í raun viðkomandi en ekki spegilmynd mína. Megi ég taka í burtu “sjálfið” úr ástinni.

Minnispunktur dagsins
Ást er án skilyrða..

2.júní

Comments off

Hugleiðing dagsins
Samfara því að læra að elska sjálfan mig og um leið að elska aðra skilyrðislaust, þá hef ég öðlast skilning á orðum St. Augustine, þegar hann sagði; “Kærleikur eyðir okkur eins og við vorum, svo við megum verða það sem við vorum ekki.” Ég finn meir og meir fyrir krafti þessa kærleika í GA prógraminu; orðin “okkur stendur ekki á sama” þýða það sama í mínum huga og orðin “okkur þykir vænt um.”

Mun ég – bara í einn dag – reyna að vera kærleiksríkur í öllum orðum mÍnum og gjörðum?

Bæn dagsins
Ég bið þess að mér auðnist að finna fyrir krafti og styrk þess kærleika sem ég finn í GA. Megi minn eigin kærleikur auka þann kraft, kraft sem tilheyrir okkur öllum. Megi mér vera annt um edrúmennsku félaga minna og að þeim lærist að lifa með henni á þægilegan og sköpunarríkan hátt.

Minnispunktur dagsins
Umhyggja kemur hlutunum af stað.

1.júní

Comments off

Hugleiðing dagsins
Ég er smám saman farinn að verða fær um að sætta mig við galla annarra, sem og kosti þeirra. GA prógramið kennir mér að “elska ætíð það besta í fari annarra – og aldrei að óttast þeirra verstu hliðar.” Að breyta viðhorfi mínu á þennan hátt er virkilega erfitt, en ég er byrjaður að átta mig á að allar manneskjur – þar með talið ég – hafa einhverja tilfinningalega galla og hafa oft á tíðum rangt fyrir sér.

Er ég að ná því að öðlast umburðarlyndi? Er ég að byrja að átta mig á því hvað sannur kærleikur merkir?

Bæn dagsins
Megi Guð veita mér umburðarlyndi og fordómaleysi gagnvart annmörkum eða göllum eða ónærgætni annarra, svo ég geti látið mér þykja vænt um kosti þeirra. Megi Guð veita mér tilsögn varðandi merkingu kærleikans – kærleika sem felur einnig í sér þolinmæði. Megi ég ekki verða blindur á galla þeirra sem ég elska, heldur verða fær um að skilja þá.

Minnispunktur dagsins
Kælrleikur er skilningur.

31.maí

No comments

Hugleiðing dagsins
Að veita ást er gefandi. Það má ekki vera aðalatriðið hvort hún sé endurgoldin eður ei. Ef ég elska einvörðungu til þess að fá viðbrögð, sem mér þóknast, þá er ég um leið að grafa undan minni ást. Ef ég er fær um að elska þá eru sérhver viðbrögð sem ég fæ sérstakur bónus. Með því að elska, án skilyrða og takmarkana, mun sjálfsþekking okkar aukast og við munum byggja okkur upp andlega.

Er ég farinn að trúa orðum Göethe “Ást drottnar ekki, hún leggur rækt við”?

Bæn dagsins
Megi ég, hinn forfallni já-maður og leitandi að viðurkenningu, vita það að einungis sönn ást væntir einskis í staðinn. Megi guð sýna mér biðlund þar sem ég reyni að þroska með mér þessa meginreglu. Megi ég losa mig við stoltið sem flækist fyrir kærleikanum. Megi ég losa mig við hina kjánalegu leiki sem eiga ekkert sammerkt með sannri ást.

Minnispunktur dagsins
Ég mun ekki elska til þess að vera elskaður.

30.maí

Comments off

Hugleiðing dagsins
Ég hef lært að endurskilgreina hugtakið kærleika, eftir að ég kom í GA samtökin. Ég hef til dæmis áttað mig á því að stundum er nauðsynlegt að setja kærleika framar ógagnrýninni framsetningu á staðreyndum/heiðarleika. Ég get ekki lengur, undir yfirskyni “fullkomins heiðarleika”, sært aðra að óþörfu. Í dag verð ég ætíð að spyrja sjálfan mig, “Hvað er farsælast og kærleiksríkast að gera í stöðunni?”

Er ég byrjaður að sá fræjum kærleika í daglegt líf mitt?

Bæn dagsins
Megi kærleikur Guðs sýna mér hvernig ég geti orðið kærleiksríkur. Megi ég fyrst verða var við þessa tilfinningu kærleika og væntumþykju innra með mér og síðan finna leið til þess að tjá hana. megi ég minnast þess hversu oft ég dró mig út úr samböndum vegna þess að ég kunni ekki að sýna ást eða þekkti jafnvel ekki tilfinninguna.

Minnispunktur dagsins
Þegar ég finn fyrir kærleika, þá verð ég kærleiksríkur.

29.maí

No comments

Hugleiðing dagsins
Þegar við komum í fyrsta skipti í GA samtökin og stóðum í fyrsta skipti á ævinni frammi fyrir fólki sem virtist skilja okkur, þá fundum við hressandi tilfinningu, eins og við værum komin heim. Okkur fannst sem einangruninni hefði verið aflétt. Við uppgötvuðum þó fljótt að þó svo að við værum ekki lengur félagslega einangruð þá helltist stundum yfir okkur gamli kvíðinn við einmannaleikann. Uns við höfðum tjáð okkur af hreinskilni um innri átök okkar og hlýtt á einhvern gera það sama, þá vorum við ekki fyllilega hluti af hópnum. Fimmta sporið var svarið við því vandamáli.

Hefur fimmta sporið hjálpað mér að finna upphafið að sönnum skyldleika við GA félagana og guð?

Bæn dagsins
Megi guð hjálpa mér að læra að deila eiginleikum mínum og veikleika, ekki einvörðungu þegar ég er að vinna fimmta sporið heldur sem áframhaldandi ferli þar sem ég gef og þigg af félögunum. Megi ég rækta með mér viðhorf sem einkennist af hreinskilni og einlægni gagnvart öðrum, nú þegar ég er byrjaður að vera heiðarlegur gagnvart sjálfum mér. Megi ég muna hvernig ég var – barn í feluleik, sem faldi sig svo vel að enginn fann það og allir gáfust upp á leitinni og snéru heim.

Minnispunktur dagsins
Ég ætla að vera opinn gagnvart vináttu.