GA samtökin

Heimasíða GA samtakanna á Íslandi

Browsing Posts published in February, 2010

Úr sögu Jims H…

Ég fór langa leið með lest inn til Manhattan og sat yfir bjór á bar þangað til ég átti að mæta hjá lækninum. Honum brá ekki vitund þótt ég segðist hafa tapað öllu mínu fé á veðreiðum en það sem hann sagði var ekki upplífgandi. Hann sagði að ég kæmist ekki að fyrr en eftir þrjú ár og þá þyrfti ég fimm til sjö ára meðferð, fimm tíma í viku sem kostuðu sjötíu og fimm dollara hver. Ég vissi að foreldrar mínir hefðu ekki efni á slíku þótt þeir hefðu hvað eftir annað bjargað mér úr kröggum. Ástandið virtist vonlaust, ekki síst þegar læknirinn tók fram að sér gengi yfirleitt illa með spilafíkla.
Margir aðrir læknar höfðu verið álíka svartsýnir á að hægt væri að að ráða bót á spilafíkn minni. Einn sagði: „Þú hefðir meiri líkur á að læknast af banvænu krabbameini.“
Ég hafði mörg hundruð sinnum reynt að hætta á spilaferli mínum sem hófst þegar ég var þrettán ára og stóð til þrjátíu og sjö ára aldurs. Ég spilaði fjárhættuspil í framhaldsskóla, háskóla og herþjónustu. Ég var rekinn úr fjörtíu störfum, tapaði þremur fyrirtækjum, var lagður inn á þrjú geðsjúkrahús, átti í ýmsum útistöðum við lögin og var margoft tekinn og barinn. Ég varð líka áfengissjúklingur og eftir öll þessi ár í ógæfu og eymd varð mér loksins ljóst að hvað mig snerti var eitt glas eða eitt veðmál það sama og hrein geðveiki.
Síðla árs 1961 las ég grein um GA samtökin í blaði í Ohio. Ég sendi bréf í pósthólf i Los Angeles og fékk bækling og lista með tuttugu spurningum fyrir fólk sem taldi sig vera í vanda vegna fjárhættuspils. ÉG svaraði öllum tuttugu spurningunum játandi. Ég skrifaðist á við Jim W. ritara GA. Seinna fékk ég að vita að hann var stofnandi samtakanna. Mér var boðið að koma á fund fólks sem væri að reyna að losna undan oki sjúkdóms sem nefndist spilafíkn.
Á þeim tíma vara enginn GA hópur nær mér en í New York. Lagt var til að ég stofnaði hóp í heimabæ mínum. Ég þekkti marga fjárhættuspilara en sjö árum áður hafði ég reynt árangurslaust að fá suma þeirra til að hætta að leggja undir. Ég hafnaði þessari tillögu. Í staðinn ákvað ég að treysta á viljaþrek mitt og tólf spor a batastefnu GA samtakanna sem skýrt var frá í bæklingnum. Ég hélt út í sjö mánuði og fór þá aftur að drekka og stunda fjárhættuspil jafn óstjórnlega og fyrr. Nú höfðu foreldrar mínir, ættingjar, vinir og vinnuveitendur fengið slíka óbeit á mér vegna drykkju og spilamennsku að ég átti engan að. Faðir minn gaf mér flugmiða til Lor Angeles. Hann sagðist ekki lengur geta bjargað mér úr kröggum mínum og héðan af yrði ég að sjá um mig sjálfur hvað sem á dyndi. Fjölskyldan hefði sagt skilið við mig fyrir fullt og allt. Auðvitað hafði ég oft heyrt þetta áður en nú skildist mér að honum var alvara.
Ég átti að skipta um vél í Chicago og fara um Las Vegast til Los Angeles. Í ljós kom að vélin til Chicago var fullbókuð en ég var fyrstur á biðlista. Allir farþegarnir mættu og ég var settur á biðlista með kvöldvélinni. Þegar ég gekk frá brottfararhliðinu heyrði ég gífurlega sprengingu og fólk þaut í allar áttir. Vélin sem ég hafði ætlað að fara með hafði hrapað í flugtaki og allir um borð fórust.
Ég hafði oft sagt að ég vildi deyja í flugslysi því það tæki fljótt af. Fyrir þessa ferð hafði ég keypt hámarkslíftryggingu, 250 þúsund dollara.
Það hefði nægt til að endurgreiða föður mínum allt sem hann hafði látið af hendi rakna til að lækna mig af spilafíkninni og bjarga mér úr sjálfsköpuðum vandræðum. Í stað þess að fagna því að hafa ekki farist í flugslysinu tautaði ég við sjálfan mig: „Því gat ég ekki verið um borð?“
Daginn eftir kom ég til Los Angeles og um kvöldið fór ég á fyrsta GA fundinn í Gardena. Þar heyrði ég um það bil tuttugu og fimm spilafíkla tala um sjálfa sig og hvað spilafíknin hefði gert þeim. Margir höfðu verið fastagestir í spilaklúbbum í Gardena þar sem fjárhættuspil var löglegt. Sumir höfðu aðeins spilað í nokkur ár, aðrir í tuttugu og jafnvel fjörtíu ár. Allir viðurkenndu að þeir væru vanmáttugir gagnvart spilafíkninni og að líf þeirra hefði verið orðið stjórnlaust. Bindindi þeirra á fjárhættuspil hafði staðið allt frá nokkrum mánuðum upp i þrjú, fjögur ár. Mér var sagt að nýr félagi , eins og ég, væri mikilvægast maðurinn á fundinum; að áframhaldandi líf GA samtakanna byggðist á einu meginstarfi: að miðla boðskapnum til þeirra sem enn þjáðust. Ég talaði síðastur. Ég man að ég sagði: „Guði sé lof að ég hef fundið athvarf. Það er von“
Fundirnir veittu mé aukinn styrk á hverjum degi. Dagarnir urðu að vikum. Ég sá nýja félaga koma á fundi og vonaði að þeir fyndu það sama og GA samtökin höfðu fært mér. Ég sá þjáninguna og óttann víkja úr augum þeirra og brátt voru þeir farnir að brosa og jafnvel hlæja að þeim brjálæðislegu hlutum sem þeir gerðu sem virkir spilafíklar.
Það tók mig þrjátíu og sjö ár að öðlast þennan sálarfrið. Ég fann hann ekki fyrr því áður en ég kom í GA samtökin hafði ég ekki einlæga löngun til að hætta fjárhættuspili. Þegar hún var komin vísuðu GA samtökin mér leiðina til nýs lífs. Þau geta gert það sama fyrir alla sem leita í einlægni leiðar til að losna úr martröð spilafíknarinnar.

Heilbrigðisráðuneytið leggst alfarið gegn því að heimilað verði að opna spilavíti á Íslandi. Það tekur undir orð landlæknis um neikvæð áhrif spilavíta á heilsu landsmanna. Þetta kemur fram í svari ráðuneytisins við fyrirspurn frá iðnaðarráðuneytinu dags. 27. nóvember 2009.

Iðnaðarráðuneytið óskaði eftir óformlegri umsögn heilbrigðisyfirvalda um lögleiðingu á starfsemi spilavíta hér á landi.

Ráðuneytið óskaði umsagnar landlæknis en embættið leitaði upplýsinga hjá SÁÁ, Félagi sálfræðinga og Félagi spilafíkla. Einungis það síðastnefnda sendi inn umsögn.

Ennfremur leitaði embættið sérstakrar umsagnar hjá dr. Daníel Ólasyni, dósent við Sálfræðideild Háskóla Íslands en hann er meðal þeirra fræðimanna hér á landi sem einna mest hefur kynnt sér og rannsakað spilamennsku og spilafíkn meðal Íslendinga.

lokaorðum umsagnar landlæknis segir:

Byggt á ofangreindum rannsóknum og meðfylgjandi umsögnum þá er það niðurstaða Landlæknis að opnun spilavíta á Íslandi geti haft neikvæð áhrif á heilsu landsmanna.  Spilafíkn er vaxandi vandamál á Vesturlöndum samhliða sífellt fleiri möguleikum til að stunda peningaspil, t.d. á veraldarvefnum. Opnun spilavíta yrði vafalítið nýr og spennandi valkostur notenda.  Vafasamt er að slíkt sé æskileg þróun í ljósi hugsanlegra áhrifa á heilsu íbúanna.  Áður en ákvörðun er tekin um að hefja slíka starfsemi þurfa stjórnvöld því að íhuga vel kosti og galla hennar.  Landlæknir leggur áherslu á að ef opnun spilavíta verði að veruleika á Íslandi kalli það á að verulegu fjármagni verði varið í forvarnarstarf og meðferð spilafíkla.  Einnig krefst slík ákvörðun þess að nægilegt fjármagn verði lagt í rannsóknir til að fylgja eftir hugsanlegum áhrifum aukins framboðs peningaspila á heilsu íbúanna.

Stöð 2, 10. feb. 2010 12:30

Segir löggjöf um spilavíti „forkastanlega hugsun“

mynd
Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna, er ekki hrifinn af áformum um rekstur spilavítis á Nordica.

Setja þarf sérstaka löggjöf um rekstur spilavíta ef áform Icelandair og Arnars og Bjarka Gunnlaugssona eiga að verða að veruleika. Stjórnarþingmaður segir landið hafa verið eitt stórt spilavíti og segist aldrei ætla að styðja slíka löggjöf.

Ragna Árnadóttir, dómsmálaráðherra, segir í samtali við Morgunblaðið í dag að setja þurfi sérstaka löggjöf um rekstur spilavíta áður en hægt er að setja upp slíka sali hér á landi. Iðnaðarráðuneytið hefur nú óskað eftir umsögn frá lögreglunni um hvort það sé rétt sem haldið er fram, að það að leyfa starfsemina hefði þau áhrif að fækka ólöglegum spilavítum í undirheimaklúbbum.Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna, segist aðeins vera tilbúinn að styðja löggjöf um spilavíti ef hún er til þess fallin að þrengja að starfsemi spilavíta, ekki liðka fyrir henni.  „Við erum í rauninni með spilavíti. Háskóli Íslands rekur spilavíti, og Rauði Krossinn, SÁÁ og Landsbjörg. Það eru spilavíti, spilakassarnir. Ef að menn ætla í alvöru að opna á einhverja stærri lúxussali með stórum spilavítum til að græða á útlenskum spilafíknum þá finnst mér það forkastanleg hugsun. Og ég myndi aldrei styðja slíkt,” segir Ögmundur.

Þótt hann geti ekki talað fyrir aðra þingmenn segist Ögmundur ekki hafa trú á því að þingmeirihluti sé fyrir því á Alþingi að styðja frumvarp um rekstur spilavíta. „Ég spyr nú, eru menn ekki búnir að fá nóg af spilavítishugsun á Íslandi. Landið var gert að einu allsherjar spilavíti og þjóðfélagið gert að panti í spilamennsku. Er ekki komið nóg af þessu. Ég held það,” segir Ögmundur Jónasson.

Spilavíti í Heilsuverndarstöðina- Landlæknir skoðar málið

mynd
Heilsuverndarstöðin.

„Heilbrigðisráðuneytið leggst gegn hugmyndinni,” segir Álfheiður Ingadóttir, heilbrigðisráðherra, en óskað hefur verið eftir óformlegum umsögnum lögreglu og landlæknaembættisins til þess að meta hvort það sé heppilegt að lögleiða fjárhættuspil á Íslandi.

Hugmyndin var kynnt Iðnaðarráðherra og var því farið þess á leit að kanna hvort fjárhættuspil gætu orðið íslenskum ferðamannaiðnaði til framdráttar.

Uppi voru hugmyndir um að starfrækja slíkt spilavíti í Heilsuverndarstöðinni en uppi eru hugmyndir um að breyta húsinu í hótel.

Í ljósi þess að heilbrigðisráðuneytið lagðist gegn spilavítum hér á landi var óskað eftir rökstuðningi hvað það varðaði. Því var leitað umsagnar lögreglu og landlæknis.

Fjárhættuspil eru ólögleg á Íslandi en í fjölmörgum löndum er um afar ábatasaman iðnað að ræða.

„Ég sé enga ástæðu til þess að breyta lögunum og fara að opna hér spilavíti. Það yrði ekki orðspori Íslands til framdráttar. Ísland hefur upp á margt að bjóða og aðra sérstöðu,” segir Álfheiður sem þykir hugmyndin ekki góð og áréttar að spilafíkn sé alvarlegur sjúkdómur og öllum ljóst hverjar afleiðingar spilafíknar geta orðið.

Að sögn Álfheiðar skal landlæknir skila erindinu fyrir 12. febrúar.

Þórarinn Tyrfingsson ekki hrifinn af spilavítum

Formaður SÁÁ segist finna fyrir miklum þrýstingi varðandi opnun spilavítis hér á landi. Allar helstu stofnanir landsins fjalla nú um spilavíti sem Icelandair vill opna við Suðurlandsbraut.

Í Fréttablaðinu í dag kemur fram að hugmyndir séu uppi um að opna spilavíti í húsakynnum Nordica við Suðurlandsbraut. Það er Icelandair sem vill reka spilavítið og hafa forsvarsmenn félagsins meðal annars fundað með stjórnvöldum.

Landlæknir, lögregla, ferðaþjónustan og SÁÁ eru með málið til umsagnar en umsagnir eiga að berast fyrir 12.febrúar næstkomandi. Þórarinn Tyrfingsson formaður SÁÁ er ekki hrifinn af hugmyndinni.

Hann segir að spilafíkn sé vaxandi vandamál um allan heim og Ísland sé þar ekki undanskilið. Ljóst er að menn hafa háleitar hugmyndir um rekstur spilavítisins og er talað um að hagnaðurinn verði skattlagður mjög hátt. Jafnvel er talað um að um 60% hans myndi renna til ríkissins.

„Til skammar ef stjórnvöldum dytti í hug að opna spilavíti“

Áhyggjufullur. Júlíus segir að Samtök áhugafólks um spilafíkn séu að fá mjög alvarleg mál inn á borð til sín. Hann varar við því að opnað verði spilavíti hér á landi.

Áhyggjufullur. Júlíus segir að Samtök áhugafólks um spilafíkn séu að fá mjög alvarleg mál inn á borð til sín. Hann varar við því að opnað verði spilavíti hér á landi. Mynd DV.

Mánudagur 8. febrúar 2010 kl 10:34

Höfundur: Einar Þór Sigurðsson (einar@dv.is)

„Það væri til háborinnar skammar ef stjórnvöldum dytti það í hug að taka þátt í því að opna spilavíti hér á landi,“ segir Júlíus Þór Júlíusson, formaður Samtaka áhugafólks um spilafíkn. Fréttablaðið greinir frá því í dag að Icelandair vilji reka spilavíti á Hótel Nordica. Er málið komið inn á borð til hagsmunaaðila til umsagnar.

Júlíus er alfarið á móti því að spilavíti verði opnað á Íslandi og segir hann að það myndi auka enn á hættuna á spilafíkn. Í Fréttablaðinu í dag segir Björgólfur Jóhannesson, forstjóri Icelandair, að spilavítið gæti orðið mikill styrkur fyrir ferðaþjónustuna. Hann hafi fundið fyrir miklum áhuga erlendis frá að boðið verði upp á slíka starfsemi hérlendis.

Júlíus segist hafa áhyggjur af því að það verði ekki bara ríkir einstaklingar sem komi til með að nýta sér spilavítið. „Þetta verða ekkert bara ríkir einstaklingar sem fara þarna inn. Þetta á eftir að vinda upp á sig og gera málið ennþá alvarlega en það er í dag,“segir hann.

Júlíus segir að samtökin séu að fá mjög alvarleg mál inn á borð til sín og því væri ekki á það bætandi að löglegt spilavíti myndi opna hér á landi. Hann nefnir dæmi af ungum pókerspilara sem missti allt sitt.

„Ég get sagt þér eitt gott dæmi. Móðir ungs drengs hafði samband við mig og hann var nýbúinn að eignast barn og nýbúinn að kaupa íbúð með kærustunni sinni. Hann var búinn að fá foreldra sína og bróður til að skrifa upp á heimildir í tveimur bönkum. Svo fór þetta allt í skrall. Hann reyndi að taka líf sitt og stelpan fór frá honum með barnið. Foreldrar hans og bróðir sátu uppi með það sem þau voru í ábyrgðum fyrir. Það er ekki á það bætandi að opna spilavíti.“

Í Fréttablaðinu í dag segist Katrín Júlíusdóttur iðnaðarráðherra sjá bæði kosti og galla við hugmyndina. Annars vegar kynni að vera jákvætt að færa spilamennskuna upp á yfirborðið og ríkið gæti haft af henni tekjur. Á hinn bóginn væri spilafíkn alvarlegt vandamál.

Ögmundur um spilavítið: Ekki verið að grínast

Mánudagur 8. febrúar 2010 kl 22:33

Höfundur: Ritstjórn DV (ritstjorn@dv.is)

Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna, er allt annað en sáttur við hugmyndir um spilavíti á Hótel Nordica í Reykjavík. „Þetta er ekki grín þrátt fyrir að allir viti að Ísland hrundi vegna þess að landið var gert að spilavíti í öllum myndgervingum þess hugtaks. Andi spilavítisins sveif hér yfir vötnum og hafði áhrif á allt þjóðlífið í orðum og gjörðum. Ekki var nóg með að landið væri gert að vettvangi spilafíknar og hún örvuð á alla lund, heldur hefur komið á daginn að land og þjóð voru gerð að panti í spilarúlettu heimsins,“ skrifar Ögmundur á heimasíðu sína.

Ögmundur segir hugmyndir Icelandair um að koma fjárhættuspili upp á yfirborðið vera á misskilningi byggðar.

„Þetta yrði bara viðbót við það sem fyrir er. Hér eru starfandi spilavíti í skjóli laga. Eða hafa menn ekki gengið Skólavörðustíginn í Reykjavík nýlega, eða farið um Hlemm eða Aðalstrætið? Á öllum þessum stöðum rekur Siðfræðistofnun Háskóla Íslands og Guðfræðideildin og allar hinar deildirnar við þjóðarháskólann nokkuð sem heitir Gullnáman og er ekkert annað en svæsið spilavíti. Svo eru það náttúrlega Rauði Krossinn, SÁÁ og Landsbjörg sem að verulegu leyti eru fjármögnuð upp úr vösunum á ógæfusömum spilafíklum. Allt á okkar ábyrgð, því við viljum að öll þessi samtök séu til og dafni en látum þau afla fjármuna með þessum hætti,“ skrifar Ögmundur.

Ögmundur veltir fyrir sér hvernig þessar stofnanir myndu bregðast við hugmyndum um samkeppni frá Nordica.

„Það er talað um útlenda kúnna. En ég spyr. Er betra að féfletta útlenda spilafíkla? Á kannski að konsentrera á ríka fíkla? Eins og þau gera í Monakó. Þangað hef ég komið einu sinni. Gat ekki beðið eftir að komast burt. Skynjaði að ég var kominn á stað þar glæpir voru normið. Ósóminn ríkisrekinn. Alla vega í skjóli laga. Og ríkið makaði krókinn. Einsog Icelandair leggur nú til,“ skrifar Ögmundur.

Hann segir nóg komið af slíku á Íslandi og ráðleggur fólki að fara hina áttina og loka Gullnámunni. „Hvernig væri að taka eins og eitt seminar um það í Háskóla Íslands?“ skrifar Ögmundur að lokum.

Þjófur

Comments off

Þjofur…

Ég byrjaði að spila fjárhættuspil þrettán ára gamall. Fjölskylda mín var miðstéttarfólk. Báðir foreldrar mínir lögðu hart að sér til að veita okkur sem mest. Þegar ég var þrettán ára byrjaði ég að sækja keiluspilastaði og spila keilu um smápening. Þegar allt var upptekið þar leituðum við annað; ef það rigndi veðjuðum við um regndropa sem runnu niður gluggarúður. Ef það var sólskin fórum við í kirkjugarðinn bak við keiluspilastaðinn og spiluðum tuttugu og eitt á legsteininum. Við spiluðum fjárhættuspil bak við samkunduhús og kirkjur, alls staðar sem við gátum spilað. Við veðjuðum um allt milli himins og jarðar, hlaup, skordý, regndropa, snjókomu og bílnúmer. Hvað sem var. Ég var venjulegt barn úr miðstéttarfjölskyldu. Hvers vegna spilaði ég fjárhættuspil ? Þá vissi ég ekki hvers vegna ég spilaði fjárhættuspil. Ég veit bara að ég fæ aldrei bætt allt það tjón sem ég olli á uppvaxtaráunum. Sextán ára spilaði ég keiluspil og fékk peninga fyrir það hvort sem ég vann eða tapaði. Ég fékk greidda 50 dollara hvort sem ég vann eða tapaði og ef éf vann fékk ég 35% af gróðanum. Á föstudagskvöldum klifraði ég út um gluggann um miðnætti svo foreldrar mínir kæmust ekki að því að ég væri að fara út til að spila. Ég spilaði keiluspil alla nóttina til tíu að morgni og klifrai þá aftur inn um gluggann og lá í rúminu þegar foreldrarnir komu að vekja mig. Ég spilaði mikið og græddi heilmikið á keiluspilinu. En ég var spilafíkill svo mér fannst ég aldei græða nóg. Ég fór fyrst til okurlánara þegar ég var sextán ára gamall og skipti við okrara alt þangað til ég varð 25 ára og gekk í GA – samtökin. Þegar ég var sautján ára varð faðir minn að selja fyrirtækið sitt til að borga 80 þúsund dollara spilaskuldir sem við bróðir minn höfðum safnað. Faðir minn gat því aldrei sest í helgan stein og varð að vinna fyrir sér þangað til hann dó 74 ára gamall. Ég fór í framhaldsskóla og faðir minn vann tvöfalda vinnu til að kosta skólagöngu mína, bróður míns og systur minnar. Í framhaldsskólanum gerði ég ekkert annað en að sitja í spilastofunni og spila fjárhættuspil. Ekkert annað. Loks var ég rekin úr skólanum og gekk í herinn. Ég gekk í herinn til að fá menntun og byrja nýtt líf. Á ellefu mánuðum kom ég tvisvar fyrir herrétt fyrir að brjótast inn í skápa og stela peningum til að geta spilað fjárhættuspil. Ég var rekin úr hernum og var heppinn að sleppa með að fá almenna lausn. Þá fluttist ég aftur heim til foreldra minna. Þar læddist ég oft inn í svefnherbergi foreldra minna meðan þeir sváfu og stal peningum úr vösum föður míns. Ég tók myntsafn sem hann átti og seldi það. Ég stal myndavélum hans; ég stal skartgripum móður minnar; ég silfurborðbúnaðinum og seldi hann. Ég stal frá ættingjum mínum. Ég tóg fé að láni. Ég gaf út innistæðulausar ávísanir. Ég fór í hverja A & S – búð og keypti alls 26 blandara fyrir 46 dollara hvern, greiddi þá með A & S – krítarkorti og skipti þeim svo í öðrum búðum fyrir peninga til að spila fjárhættuspil. Fjórar vikur í röð fór ég í Gertz – stórverslunina og skipti 50 dollara ávísun. Loksins náðist ég. Ég lenti ótrúlega oft í vandræðum en mér tókst alltaf að láta bjarga mér. Ég fór til foreldra minna og sagði; Mamma, ég verð að fá þúsund dollara, annars drepur okrarinn mig. Segðu pabba ekki frá því. ” Svo fór ég til pabba og sagði; ég verð að fá þúsund dollara. “þannig fékk ég 2000 því foreldrar mínir hefðu gefið sálin úr brjósti sér til að vernda börnin sín og ég hagnýtti mér það. Ég kynntist stúlku þegar ég var í háskólanum í Bridgeport. Hún tók MA próf þegar hún var tvítug og þá giftum við okkur. Ári síðar var hún ein taugahrúga. Við vorum gift í fimmtán mánuði og ég lagði líf hennar í rúst. Ég laug stöðugt að henni og það voru aldrei til peningar á heimilinu. Ég þóttist þurfa peninga handa lækninum, lögmanninum, slátraranum eða hverju sem var og líka til að borga leiguna. Að lokum vorum við borin út úr íbúðinni. Ég stal frá tengdaforeldrum mínum; ég stal frá ömmu konunnar minnar og gerði konunni minni lífið leitt á allan hátt. Viku eftir brúðkaupið komum við heim úr brúðkaupsferðinni og ég tók alla peninga sem við áttum og borgaði okurkörlum. Ég stal demantaskreyttu úri sem foreldrar mínir höfðu gefið konunni minni og veðsetti það. Ég kom henni í trú um að hún hefði týnt því í brúðkaupi vinar okkar. Allt þetta gerði ég áður en ég kom í GA – samtökin. Ég gerði hvað sem var til að komast yfir peninga. Þegar ég kom í GA – samtökin var ég með 95 dollara á viku og átti að borga okrurum 350 dollara á viku. Ég hafði fengið 17 dóma. Ég skuldaði þremur lánastofnunum. Ég skuldaði 32 mönnum fé og kallaði sjálfan mig þess vegna mínusnúllið. Það tók mig langan tíma að borga þeim öllum en með hjálp GA – stefnunnar hafa allir sem ég skuldaði fengið fé sitt endurgreitt. Það gekk hægt og var erfitt en ég varð að gera það, þannig er GA – leiðin. Með batastefnu GA er ég orðinn venjulegur maður en þó með einni undartekningu; ég get ekki spilað fjárhættuspil. Nú sæki ég GA – fundi reglulega. Ef læknir segði mér að ég væri með krabbamein en ég gæti fengið bata með því að fara í geislun þrjá tíma í senn vikulega þá myndi ég fara í geislun. Spilafíkn er eins konar krabbamein og byrjar í æsku. Ég og bróðir minn urðum báðir spilafíklar. Eini munurinn á mér og tvíburabróður mínum er að hann er enn virkur spilafíkill. Ég er óvirkur spilafíkill. Sjúkdómurinn er ólæknandi en það er hægt að halda honum niðri. Og það er aðeins hægt ef ég get haldið áfram að fylgja GA – stefnunni.

Gott ævikvöld…

Leið mín til GA – samtakanna var lögð strax í barnaskóla þegar ég kom við í sælgætisbúðinni, borgaði eitt sent og reyndi að finna bleiku karamelluna sem leyndist í hrúgu af hvítum karamellum í krukku á búðaborðinu… ef ég fann þá bleiku fékk ég verðlaun. Að stela smáaurum til geta farið til að finna “þá bleiku” varð brátt fastur liður á hverjum deigi í skólanum. Að spila kúluspil, kasta upp mynt um hafnaboltamyndir og hark með smápeningum voru næstu sporin á glötunarbrautinni.
Ég hafði mikinn áhuga á hafnarbolta eins og fleiri í Brooklyn á fimmta áratugnum og fór að veðja á liðin áður en ég varð fjórtán ára. Ég og vinir mínir áttum greiðan aðgang að veðmöngurum og fylgdumst með úrslitum á billjarðstofunni eða í dagblöðum í sælgætisbúðinni. Við vinirnir lékum alls konar boltaleiki – upp á peninga. Ég fylgdist með körfubolta og handboltaleikjum og veðjaði um úrslitin. Á veturnar spiluðum við strákarnir póker, tuttugu og einn, rommí, mónópólí og önnur spil næstum hvern einasta dag. Foreldrar mínir, sem báðir unnu úti, voru mjög ánægðir með að vita yngsta soninn una sér með vinum sínum við borðtennis og mónópólí en vissu ekki hvað var lagt undir.
Brátt var ég farinn að spila fimm sinnum á dag. Fyrstu árin í gagnfræðaskóla vann ég sem sendill í fatahreinsun og matavörubúð til að fjármagna fjárhættuspilið. Áhugi minn á verðbréfamarkaðnum vaknaði áður en ég varð sextán ára þegar eldri bróðir minn hjálpaði mér að kaupa bréf í sykurfyrirtæki á Kúpu. Ég fékkst við margt spennandi og fannst að ég lifði mjög ánægjulegu táningalífi; ég veðjaði í íþróttagetraunum, spilaði um peninga, stundaum líka teningaspil og á hverjum sunnudegi hitti é ítalska vini mína og við spiluðum í happadrætti, tókum þátt í getraunum í blöðum og tímaritum og reyndum fyrir okkur á verðbréfamarkaðnum. Smám saman komst ég vel inn á markaðinn með smáhlutabréf, sem var þá mjög vinsælt, og eining í Kanada. Mér fannst lífið mjög spennandi.
Skömmu eftir að ég var sautján ára vann ég hvað eftir annað 500 – 750 dollara í hafnaboltagetraunum. Það styrkti trú mína á því að getraunir og fjárhættuspil væru vænlegri en verðbréfamarkaðurinn til að ná því markmiði mínu að setjast í helgan stein þrjátíu og fimm ára gamall. Fram undan var skólaganga, atvinnuleit, hjónaband og barneignir ásamt langri leið á glötunarbrautinni… og GA – samtökin aldarfjórðungi síðar.
Eftir hafnaboltagróðann fór ég að taka þátt í íþróttagetraunum á hverjum degi, spilaði reglulega teningaspil og fjárhættuspil og fór öðru hverju á veðreiðar. Með hverri víku, hverjum mánuði og ári sem leið í hringiðu fjárhættuspilsins dreymdi mig ákafar um st´´ora vinninga og velsældarlíf eftir þrjátíu og fimm ára aldur. Ám þess að ég gerði mér grein fyrir því varð draumurinn um gott ævikvöld þó æ fjarlægari eftir því sem ég tók fleiri lán. Ég fékk lán hjá foreldrum mínum, bræðrum, vinnuveitenda, bönkum og lánastofnunum. Ég gegndi ábyrgðarstöðu við stjórn og verslun á myndlistarmarkaðnum og það gerði mér kleift að verða mér úti um fé á ólöglegan hátt með beinum þjófnaði og mútum. Ég réttlætti þessi afbrot sem eðlilegt endurgjald fyrir vinnu mína og sanngjarna uppbót fyrir gróðann sem ég færði vinnuveitanda mínum.
Ég gifti mig tuttugu og eins árs, varð faðir tuttugu og þriggja ára og síðan tvisvar aftur en það voru aðeins auka aukaatriði á rúmleg tuttugu og þriggja ára ferli mínum sem virkur spilafíkill.
Heiðarleiki var ekki lengur til hjá mér, hvorki gagnvart vinnuveitanda, veðmangara, vinum, eiginkonu, börnum né öðrum aðstandendum, ekki einu sinni gagnvart kunningjum mínum. Að lokum varð mér ljóst að enginn lét lengur blekkjast og vissi innst inni að ég var kominn í alvarlegar kröggur. Ég brást við því með enn ákafara fjárhættuspili svo ég gæti haldið í vonina um stóra vinninginn sem myndi leysa allan vanda. Þó nokkrum sinnum græddi ég stórfé en síðan kom hvert tapið af öðru og ég sökk enn dýpra í skuldafenið.
Æskuár barnanna minna þriggja liðu hjá án þess að ég sinnti þeim nokkuð og það varð ekki aftur tekið. Á meðan spilaði ég fjárhættuspil og þóttist vera að afla fjár handa fjölskyldunni.
Dagarnir fóru í að grannskoða getraunadálka í fjöldanum öllum af dagblöðum og íþróttablöðum. Kvöldin fóru í símtöl til að leggja undir og síðan að fylgjast með úrslitum fram undir morgun. Það var erfitt að byrja næsta dag nema ég sæi fram á að ég gæti stundað fjárhættuspil eins og daginn áður. Tíminn var að rjúka frá mér og veröld mín að hrynja. Verstu vonbrigðin voru þegar leikjum, sem ég gat veðjað á, var aflýst, eins og þegar Kennedy forseti var myrtur; þegar lögreglan lokaði veðmangarastofum eða ég gat ekki staðið í skilum og veðmangari útilokaði mig frá frekari veðmálum.
Þegar ég var hálffertugur (og draumur minn um að áhyggjulaust ævikvöld átti að hafa ræst) borgaði ég minnst einum lánadrottni á hverjum degi allan mánuðinn. Þrjátíu og átta ára gamall fékk ég hjartaáfall og gat ekki lagt undir í viku meðan ég var á hjartadeildinni. Síðan var ég á almennri deild í rúmar tvær vikur og hélt þá áfram að veðja. Mér var bjargað frá bana en samt hélt ég áfram á sömu braut við að reyna að drepa mig.
Þegar ég var fjörutíu og eins árs og hafði spilað fjárhættuspil í næstum 24 ár fór ég í fyrsta sinn á fund í GA – samtökunum. Um fertugt hafa flestir komið undir sig fótunum en ég var rétt að byrja að læra að lifa lífinu án fjárhættuspils. GA – samtökin hafa vísað mér leið til að lifa lífinu í heiðarleka, hamingju, öryggi, iðjusemi og fullri vitund. Án fjárhættuspils er ég fær um að lifa lífinu og er ekki stöðugt á flótta.
GA – samtökin hafa leitt mig út í sólskinið og ég vil aldrei aftur lifa í skugga fjárhættuspilsins.