GA samtökin

Heimasíða GA samtakanna á Íslandi

Browsing Posts published in January, 2024

11.janúar

No comments

Hugleiðing dagsins
Reynsla þúsunda hefur sannað að sátt og trú geta leitt til frelsis frá spilafíkn. En þegar við beitum sömu undirstöðuatriðum sáttar og frelsis á tilfinningaleg vandamál okkar, þá uppgötvum við að við öðlumst bara frelsi að hluta til. Það er jú augljóst að engum mun nokkru sinni takast að losna að fullu við hræðslu, reiði eða stærilæti. Ekkert okkar mun nokkru sinni upplifa fullkomna ást, friðsemd eða æðruleysi. Við verðum að sætta okkur við hægfara bata, með stöku afturför sem getur verið mis alvarleg.

Er ég byrjaður að láta af gamla viðhorfinu mínu “allt eða ekkert”?

Bæn dagsins
Megi guð gefa mér þolinmæði til þess að styðjast við þau undistöðuatriði sáttar og frelsis, sem eru lykillinn að bata mínum, í öllu tilfinningalífi mínu. Megi mér lærast að bera kennsl á þegar reiði, særindi, vonbrigði og hryggð byrja að grafa um sig í huga mér. Megi ég, með hjálp míns æðri máttar, finna viðeigandi aðferðir til þess að takast á við þessar tilfinningar, án þess að skaða sjálfan mig né aðra.

Minnispunktur dagsins
Tilfinningar eru raunverulegar – ég mun viðurkenna þær.

10.janúar

No comments

Hugleiðing dagsins
Eftir að ég kom í GA samtökin þá hef ég orðið æ meira var við Æðruleysisbænina. Ég sé hana á kápum dreifirita, veggjum fundarstaða og heima hjá nýjum vinum. “Guð gefi mér æðruleysi til þess að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt, kjark til þess að breyta því sem ég get breytt og vit til að greina þar á milli.”

Skil ég Æðruleysisbænina? Trúi ég á mátt hennar og nota ég hana oft? Er mér orðið auðveldara að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt?

Bæn dagsins
Guð gefi að orð Æðruleysisbænarinnar verði aldrei vélræn fyrir mér né að þau missi merkingu sína. Ég bið þess að þessi orð muni halda áfram að fá í sífellu nýja merkingu eftir því sem ég beiti þeim á fleiri tilvik í lífi mínu. Ég treysti því að ég muni finna þá úrlausn sem ég þarfnast í bæninni, sem í einfaldleika sínum, nær yfir allar aðstæður lífs míns.

Minnispunktur dagsins
Deilið með ykkur bæninni.

9.janúar

No comments

Hugleiðing dagsins
Ég átti það til að segja “Af hverju ég?” hér áður fyrr og jafnvel einstaka sinnum nú, þegar ég reyni að átta mig á því að það fyrsta sem ég þarf að sætta mig við eru núverandi aðstæður mínar, sjálfan mig eins og ég er og fólkið í kringum mig eins og það er. Á sama hátt og ég varð að sætta mig við það að ég get ekki stjórnað spilafíkn minni, þá get ég heldur ekki stjórnað fólki, stöðum og hlutum.

Er mér að lærast að sætta mig við lifið á skilmálum þess?

Bæn dagsins
Megi ég læra að hafa stjórn á þörf minni að stjórna, þeirri áráttu minni að hafa stjórn á , snyrta til, skipuleggja og setja merkimiða á lif annarra. Megi mér lærast að sætta mig við fólk og aðstæður eins og þau eru en ekki eins og ég myndi vilja hafa þau. Megi ég á þann hátt losna við þau vonbrigði sem stjórnsöm manneskja verður sífellt fyrir þegar hún reynir að stjórna lífi annarra. Megi ég vera þess albúinn að losna við þessa skapgerðarbresti mína.

Minnispunktur dagsins
Stjórn á stjórnandanum (mér).

8.janúar

No comments

Hugleiðing dagsins
Dagurinn í dag er dagurinn sem ég bað um og sem mér var gefinn styrkur fyrir. Það eitt og sér er kraftaverk. Sú staðreynd að ég sé á lífi er kraftaverkið mikla sem mun verða grunnurinn að fleiri kraftaverkum, að því tilskyldu að ég haldi mig við þá góðu hluti sem komu mér á þennan stað.

Er ég þakklátur fyrir það að mér hafi verið gefinn þessi dagur?

Bæn dagsins
Megi gæska Guðs og miskunn umlykja mig á hverjum degi lífs míns. Megi ég aldrei hætta að undrast hið mikla kraftaverk lífs míns – þá staðreynd að ég sé á líf, hér, á þesari grænu grund, og æ heilbrigðari fyrir tilstuðlan tækjanna og tólanna sem færðu mér lífsbjörgina. Fyrst að Guð kaus að gefa mér líf og viðhalda því, jafnvel í gegnum hættur spilafíknarinnar, megi ég þá ætíð hlusta eftir fyrirætlan hans varðandi mig. Megi ég alltaf trúa á kraftaverk.

Minnispunktur dagsins
Líf mitt er kraftaverk.

7.janúar

No comments

Hugleiðing dagsins
Ég er byrjaður að átta mig á hve óeðlilegt hið gamla líferni mitt var og hversu hratt það fór versnandi eftir því sem sjúkdómurinn ágerðist. Því lengur sem ég er í GA prógraminu því þægilegri verður þessi nýji lífsmáti minn. Í fyrstu var mér fyrirmunað að rétta nýliða hendina, slíkt var fyrir mér eitthvað sem var gjörsamlega útilokað. En eftir því sem tíminn líður verður þetta auðveldara og auðveldara. Að deila með öðrum reynslu minni, styrkleika og vonum er orðið eðlilegur þáttur í daglegu lífi.

Hefur mér lærst að ég get ekki haldið því sem ég hef fengið nema með því að “gefa af mér”? Ætla ég að gefa mér tíma til þess að deila með öðrum í dag?

Bæn dagsins
Megi ég deila kærleika mínum, gleði minni og fögnuði, tíma mínum, gestrisni minni, þekkingu minni á jarðneskum hlutum og trú minni á æðri mætti. Jafnvel þó ég muni ekki sjá hvaða árangur það skilar, að deila með sér, megi ég þó fyllast gleði af sjálfum verknaðinum við að deila. Megi það að deila með sér, samkvæmt áætlun guðs, verða eins eðlilegt fyrir mig og það að anda og tala.

Minnispunktur dagsins
Aldrei að vera spar á væntumþykju og hlutdeild.

6.janúar

No comments

Hugleiðing dagsins
Dr. Robert L. Custer skrifaði í formála að bláu GA bókinni að GA sé tólf spora prógram “sem leggur til burðarstoðir vonar, skipulags, og vináttu” fyrir þá sem hafa kosið leiðina að “árangursríkri aðlögun að lífi án fjárhættuspila.” Hann bætir við “þessi leið getur verið slétt yfirferðar eða holótt, hvort heldur er þá er leiðin aldrei sársaukalaus…” Sem spilafíkill í bata þá get ég í dag tekist á við hvaða óþægindi sem er, vitandi það að sársaukinn sem fylgir batanum verður aldrei eins nístandi og örvæntingarfullur og sársaukinn sem ég fann fyrir á meðan ég var enn virkur spilafíkill.

Er ég undir það búinn að sjá hvern nýjan dag í GA prógraminu sem stund lærdóms, að vaxa og taka heibrigðar ákvarðanir?

Bæn dagsins
Megi ég notfæra mér skynsamlega það val sem Guð hefur fært mér, að skipuleggja með viti hvern dag fyrir sig, án þess að gerast þræll óttans, eftirsjárinnar eða kvíðans. Ég bið þess að vilji Guðs verði þar sem ég beiti mínum eigin vilja, sem hann af gæsku sinni veitti mér.

Minnispunktur dagsins
Guð vill að minn vilji sé.

5.janúar

No comments

Hugleiðing dagsins
“Í dag er lukkudagurinn minn.” Hve oft sögðum við ekki einmitt þessa setningu sem reyndist síðan kolröng. Í dag, aftur á móti, þá eiga þessi orð rétt á sér; mér hefur verið gefið annað tækifæri. Á meðan ég spilaði þá fórnaði ég “deginum í dag” fyrir einhverja tálsýn morgundagsins. Af öllu því sem ég tapaði, þá syrgi ég mest þessa “dagurinn i dag” – ég get ekki fengið þá aftur. En daginn í dag – “dagurinn í dag” – hann hef ég. Ég mun ekki fórna honum né láta hann fara til spillis.

Trúi ég því í einlægni að dagurinn í dag sé minn, að í dag geti ég valið að vera hamingjusamur, að vaxa, og lært að lifa, í stað þess að bíða eftir einhverjum draumórum sem vonandi myndu rætast einhvern tíma í framtíðinni?

Bæn dagsins
Ég bið þess að litir dagsins í dag verði ekki útjaskaðir af einhverjum dempuðum tálsýnum framtíðar né heldur af grámyglu fortíðar. Ég bið þess að minn æðri máttur hjálpi mér að breyta rétt og að áhyggjur mínar verði í réttu samhengi við þau verkefni sem ég tekst á við í dag.

Minnispunktur dagsins
Ég mun ekki tapa fyrir deginum í dag ef ég kýs daginn i dag.

4.janúar

No comments

Hugleiðing dagsins
Drjúgan part af ævinni sá ég hlutina bara í neikvæðu ljósi. Allt var svo alvarlegt, erfitt eða hreint og klárt ömurlegt. En núna get ég kannski breytt afstöðu minni, með því að leita uppi þá félaga mína í GA prógraminu, sem hafa lært að lifa hinu raunverulega lífi á þægilegan hátt – án þess að stunda fjárhættuspil.

Ef hlutirnir verða erfiðir í dag, get ég þá tekið mér smá pásu og sagt við sjálfan mig, eins og heimspekingurinn Hómer sagði eitt sinn, “Ver þolinmótt, hjarta mitt kært – því þú hefur mátt þola erfiðari stundir”?

Bæn dagsins
Megi friður guðs, sem fyllir alla mennska skynjun, fylla það rúm innra með mér sem áður var fullt af örvæntingu. Megi skilningur á lífinu – líka þrautunum – eyða minni gömlu neikvæðu afstöðu. Á stundum, þegar hjarta mitt er fullt af sorg, hjálpa mér að muna að sorgin var þyngri áður fyrr.

Minnispunktur dagsins
Ég er sigurvegari – í besta skilningi þess orðs.

3.janúar

No comments

Hugleiðing dagsins
Spilafíkn mín er þríþætt, að því leitinu að hún hefur áhrif á mig líkamlega, andlega og huglega. Sem virkur spilafíkill þá var ég algjörlega sambandslaus, ekki bara við sjálfan mig heldur einnig við raunveruleikann. Ég endurtók líkt og hamstur í hlaupahjóli, dag eftir ömurlegan dag, sömu eyðileggjandi hegðunina.

Er ég byrjaður að losa mig gömlu hugmyndirnar? Get ég, þó ekki væri nema bara í dag, reynt að aðlaga sjálfan mig að raunveruleikanum í stað þess að reyna að breyta umhverfi mínu svo það falli að mínum þörfum?

Bæn dagsins
Ég bið þess að ég festist ekki aftur í þeirri eyðileggjandi hegðun sem fjarlægði mig frá sjálfum mér og þeim raunveruleika sem ég lifi í. Ég bið þess að geta aðlagast aðstæðum og fólki eins og það er, en ekki að reyna – án árangurs og fullur vonbrigða – að reyna að breyta öllu svo það megi falla að mínum vilja og löngunum.

Minnispunktur dagsins
Ég get einungis breytt sjálfum mér.

2.janúar

No comments

Hugleiðing dagsins
Áður en ég gerðist félagi í GA þá hafði ég ekki hugmynd um hvað það var að “Lifa í Núinu.” Ég varð oft upptekinn af því sem gerðist í gær, í síðustu viku eða jafnvel fyrir 5 árum síðan. Og það sem verra var, ég eyddi mörgum stundum í að spá í hugsanleg vandamál sem gætu komið upp í framtíðinni. Walt Whitman, bandarískt skáld og blaðamaður, skrifaði eytt sinn “Fyrir mig er hver stund dags og nætur ólýsanlegt og fullkomið undur.”

Get ég trúað því í einlægni?

Bæn dagsins
Lát mig einvörðungu bera þunga 24 stunda í senn, en ekki burðast með eftirsjá fortíðar né heldur kvíða morgundagsins. Lát mig anda að mér blessun hvers nýs dags og halda byrði minni takmarkaðri við einn sólarhring í senn. Megi ég læra það jafnvægi sálarinnar sem fæst við að halda nánd við guð.

Minnispunktur dagsins
Ekki fá að láni frá morgundeginum.