GA samtökin

Heimasíða GA samtakanna á Íslandi

Browsing Posts published in December, 2023

Hugleiðing dagsins
Guð gefi mér ÆÐRULEYSI til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt; KJARK til þess að breyta því sem ég get breytt; og VIT til að greina þar á milli – einn dag í einu; með sátt við harðræðið sem leiðir til friðar; með því að taka hlutum eins og þeir eru, ekki eins og ég vildi að þeir væru; treystandi því að minn Æðri máttur muni laga það sem aflaga er ef ég bara fer að vilja hans.

Reyni ég eftir fremsta megni að tileinka mér þessa eiginleika – æðruleyi, kjark og vit – sem saman mynda grunninn að mínu nýja lifi?

Bæn dagsins
Megi ég líta um öxl á árið sem er að líða og sjá það sem gott ár, að því leyti að ekkert sem ég sagði eða gerði fór til spillis. Engin reynsla – hversu smávægileg sem hún kann að hafa virst – var án gildis. Óhamingja veitti mér getu til þess að geta metið hamingju, slæmar stundir kenndu mér að meta þær góðu; það sem ég taldi vera mínar veiku hliðar varð að strykleika. Ég þakka guði fyrir þann þroska og vöxti sem ég öðlaðist á árinu sem er að líða.

Minnispunktur dagsins
Vonin færist eignamegin í bókhaldi hins nýja árs.

Hugleiðing dagsins
Líf mitt, áður en ég kynntist GA samtökunum, var í engu frábrugðið lífi margra okkar sem voru illa leikin og þjáð af þeirri fíkn sem heltekur okkur. Ég var sjúkur og máttfarinn svo árum skiptir. Þegar ég svo á endanum varð þreyttur og uppgefinn á því að vera þreyttur og uppgefinn, þá loks gafst ég upp og fór að tileinka mér GA prógramið. Ég geri mér grein fyrir því núna að það var minn æðri máttur sem veitti mér hjálpina. Hjálpina sem fólst í þvi að líf mitt var orðið þess eðlis að ég varð að eignast nýtt líf.

Hefur GA prógramið hjálpað mér að finna það æðruleysi sem var mér áður hulið og ókunnugt?

Bæn dagsins
Megi ég gera mér grein fyrir að minn Æðri máttur birtist ekki skyndilega í lífi mínu, líkt og einhver ókunnugur sem opnar dyr sem ég banka á. Þessi máttur hefur ætíð verið til staðar, samanber hversu oft ég hef með naumindum komist hjá stórslysi. Nú þegar ég hef fengið að kynnast mínum Æðri mætti betur þá átta ég mig á því að mér var bjargað – hugsanlega svo ég gæti hjálpað öðrum sem eru í sömu sporum og ég var í.

Minnispunktur dagsins
Ég er þakklátur fyrir að vera á lífi og í bata.

Hugleiðing dagsins
Mér hefur verið sagt að velgengni GA prógramsins felist að stórum hluta í þeirri viðleitni og vilja félaganna að leggja mikið á sig til þess að hjálpa öðrum sem eru að kljást við spilafíkn. Ef þessi sama viðleitni mín og vilji dvín þá á ég á hættu að tapa því sem áunnist hefur. Ég verð að viðhalda vilja mínum til þess að deila með öðrum sem mér hefur áskotnast, því einvörðungu með því að deila auðnast mér að viðhalda.

Tek ég Tólf Sporin alvarlega? Hvaða Tólf Spora skilaboð hef ég sent frá mér í dag – annað hvort með beinni hjálp eða með fordæmi?

Bæn dagsins
Megi ég aldrei vera of upptekinn til þess að svara ákalli um hjálp frá spilafíkli. Megi ég aldrei verða svo upptekinn af lífsgæðakapphlaupinu að ég gleymi því að áframhaldandi bati minn felist í þeirri hjálp – háltíma símtal, hittast augliti til auglitis, snæða saman hádegisverð, hvaðeina sem aðstæður krefjast og bjóða upp á. Megi ég vita hver forgangsröðin sé og eigi að vera.

Minnispunktur dagsins
Að hjálpa hjálpar mér.

Hugleiðing dagsins
GA prógramið er fyrir mig ekki bara öruggur staður og viska heldur einnig örugg og fljótleg leið til frelsis. Sú leið leiðir mig í átt að því andlega takmarki mínu að verða sú persóna sem mig dreymir um, með hjálp Tólf Spora GA. Það gerist stundum að leiðin er ekki eins fljótfarin eins og ég hefði viljað en þá reyni ég að muna að guð vinnur eftir annarri tímatöflu heldur en ég. En takmarkið er til staðar og ég veit að Tólf BataSpor munu hjálpa mér að ná því.

Er ég farinn að gera mér grein fyrir því að ég – eins og allir aðrir – get nú gert það sem ég áður taldi ómögulegt?

Bæn dagsins
Nú, þegar ég lifi samkvæmt GA prógraminu, megi ég verða þess áskynja að prógramið er leið en ekki endastöð. Megi ég hafa hugfast að sá andlegi eiginleiki sem prógramið kallar á er aldrei fullkominn, aldrei endanlegur. Hann er miklu fremur kjarninn í breytingu og framförum, sem stefna ætíð að æskilegu ástandi. Megi ég varast að setja sjálfum mér tímasett markmið, svo ég geti mælt eigin andlegu framför.

Minnispunktur dagsins
Tímatöflur eru mannanna verk.

Hugleiðing dagsins
Það eru tvö orð, sem ég vissi af á meðan ég var virkur spilafíkill, og sem ég þarf að nota í batanum; hætta og byrja. Ég verð að hætta að spila og byrja í batanum. Ég verð að byrja að horfa inn á við og hætta að kenna öðrum um. Ég verð að byrja að hlusta eftir vilja míns Æðri Máttar og hætta að leyfa sjálfum mér að fylgja eigin vilja. Þeim mun meira sem ég byrja að sjá allt það jákvæða, sem ég fæ út úr GA programinu, þeim mun heiðarlegar get ég horft á allar neikvæðu gjörðir mínar í fortíðinni, og hörmungarnar sem þær leiddu af sér.

Hefur batinn fært mér spegil, sem ég get notað til þess að sjá sjálfan mig í öðrum?

Bæn dagsins
Megi ég muna að ég gat valið að hætta að tortíma sjálfum mér með fjárhættuspilum hvenær sem var. En hafi ég ekki byrjað að nota bataferlið, sem felst í GA prógraminu og Tóf Sporunum, þá mun mér ekki takast að hætta að spila. Ef ég held batanum byrjuðum þá get ég haldið spilunum hættum.

Minnispunktur dagsins
Að hætta og að byrja. Í þessum orðum felst umbreyting lífs okkar.

Hugleiðing dagsins
Í rauninni getur ekkert okkar sagst geta skilið sinn Æðri Mátt til fullnustu. En þetta veit ég þó; það er til máttur sem er fremri mínum eigin vilja, sem getur gert yndislega, kærleiksríka hluti fyrir mig. Hluti sem ég get ekki sjálfur. Ég sé þennan dásamlega mátt að verki í sjálfum mér og ég sé þennan sama kraft að verki, á þann hátt að það er kraftaverki líkast, í lífi vina minna, sem eru í bata fyrir tilstuðlan GA prógramsins.

Þarfnast ég nokkuð síður náðar guðs og kærleiksríks skilnings hans nú heldur en þegar ég var nýliði?

Bæn dagsins
Megi ég aldrei gleyma þvi að andlega þörf mín er jafn mikil nú og þegar ég var nýliði í GA. Það er svo auðvelt að falla í þá gryfju að sjá nýliðana sem þá GA félaga sem séu þurfandi. Megi ég aldrei horfa fram hjá því, eftir því sem ég sé sjálfstæði mitt aukast, að það verður alltaf þörf fyrir Æðri Mátt í mínu lifi.

Minnispunktur dagsins
Ég mun aldrei vaxa upp úr þörf minni fyrir guð.

Hugleiðing dagsins
Dagurinn í dag er merkilegur á marga vegu. Þetta er dagur sem guð skóp, og ég er á lífi í veröld guðs. Ég geri mér grein fyrir því að allt sem ég upplifi í dag er merki um kærleika guðs – sú staðreynd að ég sé á lifi, að ég sé í bata og að ég sé fær um að upplifa þessa stund á þann hátt sem ég geri. Fyrir mig verður dagurinn í dag dagur þakklætis.

Er ég hjartanlega þakklátur fyrir þessa sérstöku dagsbyrjun og fyrir alla mína hamingju?

Bæn dagsins
Á þessum degi minningar um gjafir guðs, megi mér skiljast að það að gefa og það að þiggja er einn og sami hluturinn. Annað getur ekki verið án hins. Ef ég gef þá fæ ég sæluna af því að gefa. Ef ég þigg þá gef ég einhverjum öðrum þá sömu sælu af því að gefa. Ég bið að ég geti gefið af sjálfum mér – kærleika minn og styrk – af gjafmildi. Ég bið þess einnig að ég geti náðarsamlegast þegið kærleika og styrk annarra. Megi guð vera okkur fyrirmynd.

Minnispunktur dagsins
Að gefa og að þiggja er jafngild hamingja.

Hugleiðing dagsins
Við vorum eins og ráðþrota beiningamenn þegar við komum í GA. Þegar við fórum svo að iðka Tólf Spor GA þá uppgötvuðum við dýrmætan hlut innra með okkur. Við fundum æðruleysi, sem gerir okkur fær um að vera afslöppuð og líða vel í öllum aðstæðum. Við öðlumst styrk og vöxum – með hjálp guðs eins og við skiljum hann, með hjálp félaganna í GA prógraminu og með því að beita Tóf Bata Sporum á líf okkar.

Getur nokkur tekið hið nýja líf af mér?

Bæn dagsins
Megi bænir hins örvæntingafulla beiningamanns, sem ég kom með sem nýliði í GA, umbreytast í friðsæla uppgjöf. Nú, þegar ég hef séð hvað hægt er að gera með hjálp GA prógramsins og óendanlegum styrk Æðri Máttar, megi þá gjöf mín til annarra endurspegla þá sannfæringu. Ég bið þess að ástvinir mínir hafi þá trú sem til þarf til þess að finna sína eigin andlegu vakningu og þá friðsæld sem því fylgir.

Minnispunktur dagsins
Friður – innri sem ytri – er mesta blessunin.

Hugleiðing dagsins
Hvernig fer ég að því að átta mig á hvort ég verði fyrir andlegri vakningu? Stundum birtist andleg vakning okkur í tiltölulega einföldum þáttum, eins og; tilfinningalegum þroska, hættum að finna fyrir stöðugri og sálar kveljandi andúð og gremju, verðum fær um að elska og vera elskuð, förum að trúa því að máttur okkur æðri sé við stjórn og að hann færi okkur líf og kærleika.

Nú, þegar ég hef tamið mér að reyna að fylgja GA prógraminu, geri ég mér þá grein fyrir því að ég er orðinn víðsýnni, að sýn mín á mannkynið er blíðari en þegar ég var þjáður af sjálfmiðaðri spilafíkn?

Bæn dagsins
Megi andlegt sjálfsöryggi mitt einnig ná til viðhorfs míns gagnvart öðrum, sérstaklega yfir hátíðar, þegar eftirvænting og kvíði eru áberandi. Sem virkur spilafíkil þá höndlaði ég ekki vel þær tilfinningar sem kviknuðu í aðdraganda hátíðanna. Ég bið um æðruleysi til þess að takast á við þann suðupott tilfinninga sem hátíðarnar eru.

Minnispunktur dagsins
Yfirsýnin kemur þegar grundvallarlögmálum prógramsins er fylgt.

Hugleiðing dagsins
“Ég veit ekki um neina staðreynd sem er meira uppörvandi en hina óumdeildu getu mannsins til þess að auðga líf sitt á meðvitaðan hátt.” – Henry David Thoreau bandarískur náttúrufræðingur og heimspekingur. Við höfum alltaf haft þessa getu til þess að breyta okkur og lífi okkar, en við höfðum ekki árangur sem erfiði fyrr en við komum í GA. Nú, þegar við höfum fundið GA prógramið, þá höfum við ekki einungis getuna heldur einnig áætlun – nákvæman uppdrátt sem virkar.

Trúi ég því að enginn mæti of snemma í GA prógramið og að enginn snúi of seint aftur? Trúi ég því að með hjálp Æðri Máttar og stuðningi GA félaganna þá séu mér allir vegir færir?

Bæn dagsins
Megi ég ekki gleyma því, að þó svo að löngun mín til þess að bæta mig og líf mitt hér áður fyrr, hafi verið raunveruleg, þá var það dæmt til að mistakast því ég hafði enga raunhæfa áætlun. Megi ég vera þakklátur fyrir að hafa fundið GA prógramið og fyrir það kraftaverk sem GA er. Megi ég muna hvernig líf mitt var og fagna með öðrum GA félögum því sem við höfum öðlast fyrir tilstuðlan GA.

Minnispunktur dagsins
GA færir okkur uppdráttinn.