GA samtökin

Heimasíða GA samtakanna á Íslandi

Browsing Posts in Dagurinn í dag

Hugleiðing dagsins
Sumir félagar okkar í GA forðuðust bæn og hugleiðslu eins og heitan eldinn til að byrja með. Þegar þeir á endanum, hikandi og bara til prufu, fóru að prófa sig áfram með bæn og hugleiðslu, þá fóru óvæntir hlutir að gerast og þeim fór að líða öðruvísi. Á endanum fóru þeir, sem höfðu áður gert lítið úr bæn og hugleiðslu, nær undantekningarlaust að iðka slíkt sjálfir. Í GA heyrm við að “nær undantekningarlaust þá eru það bara þeir, sem hafa ekki prófað bæn og hugleiðslu, sem hæðast að því.”

Er einhver þrjóskur hluti af mér sem enn hæðist að bæn og hugleiðslu?

Bæn dagsins
Megi mér lærast, sama hve virðingarlaus ég hef verið, að bænin er ekki hæðnisverð; ég sé mátt hennar endurspeglast í kraftaverkum allt í kringum mig. Hafi ég neitað að biðja, megi ég þá skoða hvort stolt eða dramb sé að flækast fyrir mér – þetta slitna og gamla stolt sem heimtar að fara sínar eigin leiðir. Nú, þegar ég hef fundið stað í mínu lífi fyrir bænina, megi ég taka þann stað frá og varðveita – samviskusamlega.

Minnispunktur dagsins
Hver sá sem lærir að biðja heldur því áfram.

Hugleiðing dagsins
Meðvitað samband mitt við guð byggir einvörðungu á mér og minni löngun til þess að viðhalda því sambandi. Ég get notfært mér styrk guðs hvenær sem er; hvort ég nýti mér hann er mitt val. Sagt hefur verið að “Guð sé til staðar í öllum skepnum, en þær séu misvarar við nálægð hans.” Ég ætla að reyna að minna sjálfan mig á það, á hverjum
degi, hversu mikilvægt það sé að vera meðvitaður um áhrif guðs á líf mitt. Og ég ætla að reyna að þiggja hjálp hans í öllu sem ég geri.

Ætla ég að muna að guð veit hvernig á að hjálpa mér, að hann geti hjálpað mér, og að hann vilji hjálpa mér?

Bæn dagsins
Megi ég vera þess meðvitaður að kraftur guðs og friður eru óþrjótandi gnægtarbrunnur innra með mér. Ég get dregið mér fötu eftir fötu úr þeim brunni og hresst upp á líf mitt og hreinsað. Það eina sem ég þarf að leggja fram er fatan og reipið. Vatnið í brunninum er mitt – ókeypis, ferskt, græðandi og ómengað.

Minnispunktur dagsins
Brunnurin er guðs; ég kem með föturnar.

Hugleiðing dagsins
Hugleiðsla á sér engin mörk. Hún hefur hvorki breidd né dýpt, né heldur hefur hún hæð, sem þýðir að það er endalaust hægt að þróa hana án nokkurra takmarkana. Hugleiðsla er einstaklingsbundin; fæst okkar hugleiða á sama hátt. Því má með sanni segja að hugleiðsla sé persónulegt ævintýri. Fyrir þau okkar, sem iðkum hugleiðslu af alvöru, er tilgangurinn sá sami, að bæta meðvitað samband okkar við guð. Þrátt fyrir að hafa engin mörk og vera óáþreifanlegt, þá er hugleiðsla í raun eitthvað það gagnlegasta sem við getum gert. Einn fyrsti ávinningurinn, sem fæst við að stunda hugleiðslu, er tilfinningalegt jafnvægi. Hvað gæti verið gagnlegra en það?

Er ég að breikka og dýpka farveginn á milli mín og guðs?

Bæn dagsins
Megi ég finna þann frið sem er svo erfitt að útskýra og jafnvægið sem veitir mér yfirsýn yfir lífið, þegar ég leita guðs með hjálp bænar og hugleiðslu. Megi þungamiðja mín miðast við guð.

Minnispunktur dagsins
Guð veitir mér jafnvægi.

Hugleiðing dagsins
Ég fór ekki að huga að Ellefta Sporinu, bæn og hugleiðslu, fyrr en mörgum mánuðum eftir að ég kom í GA. Ég hafði á tilfinningunni að Ellefta Sporið gæti komið sér vel í neyð – til dæmis þegar ég fengi skyndilega spilalöngun – en að öðru leyti þá var það neðarlega á forgangslistanum hjá mér. Á þessum fyrstu dögum mínum í GA þá tengdi ég bæn og hugleiðslu við eitthvað í líkingu við dulspeki og jafnvel hræsni. En ég hef síðar komist að því að bæn og hugleiðsla er áhrifaríkara en mig óraði fyrir. Áhrifin ef bæn og hugleiðslu eru fyrir mig hugarró og styrkur langt umfram það sem ég er fær um á eigin spýtur.

Er ég farinn að finna fyrir friðsæld í stað þjáningar?

Bæn dagsins
Megi ég finna þá leið til guðs sem hentar mér best, þá aðferð við hugleiðslu sem mér finnst best – hvort sem það er með austrænni möntru eða með því að nafn Jesú, eða bara með því að leyfa anda guðs, eins og ég skil hann, að flæða um mig og færa mér frið. Megi ég læra að bera kennsl á minn Æðri Mátt og nærveru hans – ekki bara á kyrrðartímum heldur á öllum stundum lífs míns.

Minnispunktur dagsins
Hugleiðsla er að verða móttækilegur fyrir anda guðs.

Hugleiðing dagsins
Teilhard de Chardin (franskur heimspekingur) orðaði eftirfarandi; “Við erum ekki mennskar verur með andlega tilveru. Við erum andlegar verur með mennska tilveru.” Þó svo að við viðurkennum, fræðilega séð, að við seúm andlegar verur, þá þurfa flestir spilafíklar að upplifa einhvers konar andlega vakningu áður en þeir eru tilbúnir til þess að láta vilja sinn og líf í hendur Æðri Mætti. Þá fyrst getum við sagt að við séum andlegar verur. Fyrir sum okkar er um að ræða fyrsta skiptið á ævi okkar sem við verðum fyrir andlegri vakningu. En sama hve andlega sinnuð við vorum áður, þá er það svo að þegar við upplifum andlega vakningu þá verður það ástand sem við sækjumst eftir.

Er ég þakklátur fyrir “vakninguna” sem hefur komið mér í samband við minn Æðri Mátt – og minn andlega kjarna?

Bæn dagsins
Megi ég ekki gleyma því hve sýn minni á lífið, sjálfan mig, vini, ástvini og guð hafði hrakað áður en ég kom í GA. Megi ég gera hvað sem til þarf til þess að koma í veg fyrir að andlegt ástand mitt hrynji. Megi ég vaxa á andlega sviðinu – einn dag í einu.

Minnispunktur dagsins
Lát hið andlega leiða hið mannlega.

Hugleiðing dagsins
Í Rauðu Bók GA stendur: “Hægt er að segja að orðið andlegur lýsi þeim eiginleikum mannshugans sem eru eftirsóknarverðir, eins og góðvild, göfuglyndi, heiðarleiki og hógværð. Þar sem GA félagsskapurinn mælir með því að GA félagar tileinki sér þessa eiginleika, þá er með sanni hægt að segja að félagsskapur okkar er andlegur.” Ég er farinn að átta mig á því að andlega vegferð mín tengist því hve heilsteyptur ég er – því hve samkvæmur sjálfum mér ég er varðandi sannleikann, eins og hann birtist mér og mínum innra manni.

Reyni ég stöðugt að tileinka mér þá eiginleika sem færa mér varanlega hamingju?

Bæn dagsins
Megi ég vinna að því að ávinna mér “bestu eiginleikana” sem skilgreina mig andlega. Megi ég kynnast þeirri gleði sem fylgir því að lifa lífinu á þann hátt sem GA mælist til, uns öll uplifun verður ánægjuleg og ég fæ notið hennar með öðrum, sem eru eins og ég, að lifa samkvæmt þessum lífsreglum, sem guð hefur fært okkur.

Minnispunktur dagsins
Frá andlegu tómarúmi yfir í andlega fyllingu.

Hugleiðing dagsins
Eftir því sem við ástundum meiri sjálfsskoðun, þeim mun betur áttum við okkur á því hversu oft við brugðumst við á neikvæðan hátt vegna þess að “stolt okkar var sært.” Stolt mitt og dramb er rótin að flestum persónulegum vandamálum mínum. Þegar stolt mitt er “sært”, svo dæmi sé tekið, þá upplifi ég nánast undantekningarlaust gremju og reiði – stundum að því marki að ég er ófær um að tala eða hugsa skynsamlega. Þegar ég er í slíku tilfinningalegu feni, þá verð ég að minna sjálfan mig á að það er stolt mitt – og einvörðungu stoltið – sem hefur særst. Mér farnast best, á slíkri stundu, að reyna að slaka á og taka smá pásu uns ég er aftur fær um að vega og meta vandamálið á raunsæan hátt.

Þegar stolt mitt er sært eða því ógnað, mun ég þá biðja um auðmýkt svo ég geti risið upp yfir hið gamla sjálf?

Bæn dagsins
Megi ég vita að þó svo að stolt mitt sé sært þá þarf ekki að vera að ég hafi skaðast á nokkurn annan hátt. Megi ég vita að stolt mitt getur þolað ýmislegt og samt risið aftur sterkara en nokkru sinni áður. Megi ég vita að í hvert sinn sem stolt mitt verður fyrir höggi, þá er það allt eins líklegt til þess að verða illgjarnara, fara í meiri vörn, ósanngjarnara og hvassara. Megi mér lærast að setja hið uppskafða stolt mitt á sinn stað, þangað sem það verður ekki svo auðveldlega sært – eða svo viljugt til þess að eigna sér allan heiðurinn.

Minnispunktur dagsins
Auðmýkt er eina boðvaldið yfir stoltinu.

Hugleiðing dagsins
Þeir GA félagar sem ég ber hvað mesta virðingu fyrir í GA prógraminu – og um leið þeir sem ég hef lært mest af – virðast sannfærðir um það að dramb sé, eins og einn orðaði það, “grunn-syndin.” Í trúarlegri siðfræði er dramb fyrsta af höfuðsyndunum. Dramb er jafnframt talið alvarlegast, sker sig úr hópnum sakir einstæðra eiginleika sinna. Dramb treður sér inn í andlega sigra okkar. Það smeygir sér inn í öll okkar afrek og velgengni, jafnvel þau sem við eignum Guði.

Streitist ég gegn drambinu með því að vinna Tíunda Sporið reglulega, horfandi í augu við sjálfan mig og leiðrétti það sem aflaga fer?

Bæn dagsins
Megi ég stöðugt vera á verði gagnvart laumulegum aðferðum drambsins, sem reynir ætíð að troða sér inn í hvert afrek, hvern sigur, hvern endurgoldin hlýhug. Megi ég gera mér grein fyrir að hvenær sem hlutirnir ganga vel hjá mér, þá er drambið á staðnum tilbúið til þess að eigna sér heiðurinn. Megi ég vera á varðbergi gagnvart því.

Minnispunktur dagsins
Setjum drambið á sinn stað.

Hugleiðing dagsins
Leyndardómar sjálfsálitsins; særandi þegar það er uppblásið og sárt að draga úr því, og hindrar mig oftar en ekki í því að vinna GA prógramið af heilum hug. Þó svo að ég sé með sannleikann mér til halds og trausts, þá fell ég oftar en ekki í þá gryfju að grípa til gömlu hugmyndanna, sem svo oft komu mér fram á hengibrún örvæntingarinnar. Það krefst mikillar vinnu að draga úr uppblásnu sjálfsáliti og stundum blæs það út án þess að ég verði þess var. Ég var alltaf fullviss um að kerfin, sem ég var búinn að koma mér upp í spilamennskunni, myndu virka; en það gerðu þau aldrei. Ég efaðist um að GA myndi virka; en það virkaði – einn dag í einu.

Er ég viljugur, bara í dag, að hætta að notast við mínar gömlu hugmyndir og fara að stóla á GA leiðina?

Bæn dagsins
Megi ég vita að uppbólgið sjálfsálit er ekki viðeigandi fyrir mig sem óvirks spilafíkils. Það kemur í veg fyrir að ég sjái galla mína. Það gerir annað fólk afhuga mér og kemur í veg fyrir að ég geti hjálpað öðrum. Það hindrar framþróun mína því það fær mig til þess að trúa því að ég hafi stundað nægilega mikla sjálfsskoðun og að ég sé “læknaður.” Ég bið til míns Æðri Máttar um að ég megi vera nægilega raunsær til þess að taka við velgengni minni í GA prógraminu án þess að það blási út stolt mitt.

Minnispunktur dagsins
Stolt getur hindrað framfarir.

Hugleiðing dagsins
Þegar stolt er aðaldrifkraftur minn – þegar sjálfið er við stjórn – þá er ég að hluta til eða algjörlega blindur á galla mína og ókosti. Á þeirri stundu er huggun það sísta sem ég þarfnast. Ég þarfnast miklu frekar félaga úr GA prógraminu sem skilur hvað er í gangi og sem hikar ekki við að brjóta gat á veggin sem mitt eigið sjálfsálit hefur reist í kringum mig, svo ég megi á ný njóta sólargeisla skynseminnar.

Gef ég mér tíma til þess að yfirfara og endurskoða framfarir mínar, að tékka á sjálfum mér á hverjum degi, og reyna umsvifalaust að ráða bót á því sem fer úrskeiðis?

Bæn dagsins
Ég bið þess að GA félagarnir – eða bara einn þeirra – sé nægilega heiðarlegur til þess að sjá þegar ég byrja að hrasa um stoltið og nægilega hugrakkur til þess að benda mér á það. Ég traðkaði svo lengi á eigin sjálfsvirðingu að það er hætt við að hún tútni út, þegar mér byrjar að ganga vel í GA prógraminu, uns hún verður útbólgið sjálfsálit. Megi gestsaugað sýna mér raunsanna mynd af því hvernig ég er að höndla afrekið að vera spilalaus – með þakklátri auðmýkt eða með stolti.

Minnispunktur dagsins
Sjálfsvirðing eða sjálfsánægja?