GA samtökin

Heimasíða GA samtakanna á Íslandi

Browsing Posts in Dagurinn í dag

15.ágúst

No comments

Hugleiðing dagsins
Oft er sagt að það sé ekki hægt að dæma bók af kápunni einni saman. Hjá mörgum okkar var “kápan” ekki svo slæm; að gera siðferðisleg og fjárhagsleg reikningsskil ætti ekki að vera svo mikið mál. En eftir því sem við köfuðum dýpra þá uppgötvuðum við að “kápan” gaf ekki raunsanna mynd. Við höfðum rækilega falið og hulið galla okkar undir hjúpi sjálfsblekkingar. Þess vegna getur sjálfsskoðun, eins og felst í fjórða sporinu, verið langtíma verkefni; við verðum að halda verkinu áfram á meðan við erum enn blind á þá bresti sem leiddu okkur í fíkn og eymd.

Ætla ég að reyna að horfast í augu við sjálfan mig eins og ég er og leiðrétta hvað eina sem kemur í veg fyrir að ég verði sú manneskja sem ég vil vera?

Bæn dagsins
Megi guð leiðbeina mér í sjálfsskoðuninni, því ég hef svo lengi falið mikið af göllum mínum, fyrir vinum, ættingjum og síðast en ekki síst fyrir sjálfum mér. Ef ég fæ frekar á tilfinninguna að verið sé að brjóta á mér heldur en að ég skynji að ég sé sá brotlegi, megi ég þá taka það sem vísbendingu um að ég þarf að grafa dýpra í leitinni að hinum raunverulega mér.

Minnispunktur dagsins
Að stunda sjálfsskoðun er að byggja fyrir framtíðina.

14.ágúst

No comments

Hugleiðing dagsins
Fjórða sporið gerir mér kleift að sjá hinn sanna mig – eins og ég raunverulega er – skapgerðareinkenni mín, hvatir, viðhorf og hegðun. Í GA er mér kennt að vera staðfastur í leit minni að fyrri mistökum. Hvenær var ég, svo dæmi sé tekið, sjálfselskur, óheiðarlegur, eigingjarn og hræddur? Mér er líka bent á að hinn rótgróni vani minn, að réttlæta allar mínar gjörðir, geti orðið til þess að ég kenni einhverju öðru en eigin göllum um misgjörðir mínar.

Trúi ég því að persónuleg hreinskilni sé oft betri heldur en mikil þekking?

Bæn dagsins
Megi ég fara mér hægt í að vinna fjórða sporið, ekki drífa það af í einhverskonar sjálfshóli. Megi ég gera mér grein fyrir því að þegar ég hef einu sinni unnið þetta spor þá verð ég að vinna það aftur og aftur uns það verður hluti af lífsmynstri mínu. Megi ég vernda fjórða sporið fyrir þeim gamla ávana mínum að taka enga ábyrgð á gjörðum mínum.

Minnispunktur dagsins
Persónulegur heiðarleiki ryður leiðina fyrir bata.

13.ágúst

No comments

Hugleiðing dagsins
Fjórða sporið felst í því að gera óttalaus, siðferðisleg og fjárhagsleg reikningsskil á lífi okkar. Fyrir sum okkar getur þetta sýnst óvinnandi verk; það er ekkert erfiðara en að sjá sjálfan sig í réttu ljósi, eins og maður raunverulega er. Við flýjum frá einni misgjörð til annarrar, ætíð með afsakanir og bendandi á það hvað við séum nú góð. En þegar við gerumst fús til þess að horfast í augu við það hvernig við séum, þá verðum við fær um að takast á við galla okkar og vinna á þeim.

Er ég fús til þess að opna augun og stíga út í sólarljósið?

Bæn dagsins
Megi minn æðri máttur stöðva mig ef ég legg á flótta frá sjálfum mér. Því ég mun aldrei komast yfir misgjörðir mínar eða þá persónuleikabresti sem ollu þeim, ef ég leyfi þeim að hafa yfirhöndina og legg á flótta undan þeim. Megi ég ná að hægja á mér og horfast í augu við misgjörðir mínar og persónleikabresti, með áreiðanlegast vopninu sem ég veit um – sannleikanum.

Minnispunktur dagsins
Ég ætla ekki að vera á flótta frá sjálfum mér.

12.ágúst

No comments

Hugleiðing dagsins
Zen meistari var eitt sin spurður; “Hvernig ferðu að því að viðhalda hugarró og friði?” Hann svaraði; “Ég yfirgef aldrei staðinn sem ég hugleiði á.” Þrátt fyrir að hann hugleiddi snemma á morgnanna, þá bar hann með sér friðsæld þeirrar morgunstundar það sem eftir lifði dagsins.Að hægja á og róast er eitt af því erfiðasta sem spilafíkill tekst á við í batanum. Að vera á fullu – allan tímann – var orðinn vani hjá mér og ég varð að læra upp á nýtt að hægja á mér og hlusta. Að byrja daginn með bæn og hugleiðslu getur verið gjöfulasta stund dagsins fyrir mig. Þegar ég kýs að taka þann frið og þá hugarró, sem ég öðlast á slíkum stundum, með mér inn í daginn þá virðist mér sem heimurinn hægji á sér og hreyfist á sama hraða og ég.

Kann ég að meta þann frið sem fæst með hugleiðslu?

Bæn dagsins
Megi sérhver dagur byrja rólega og haldast friðsæll, svo fremi að mér takist að hafa hugann við það verk sem liggur fyrir hverju sinni, í stað þess að æða áfram í ójafnvægi. Æðibunugangur og hraði var einkenni mitt á meðan ég var virkur en nú einkennir æðruleysið mig.

Minnispunktur dagsins
Að hleypa æðruleysinu inn í líf mitt.

Hugleiðing dagsins
Ef ég dvel við nauðaómerkilega hluti sem pirra mig – og af þeim sprettur gremja sem vex og dafnar eins og órækt – þá gleymi ég hvernig ég gæti verið að víkka sjóndeildarhringinn og víðsýni. Það er, fyrir mig, afbragðs aðferð til þess að halda vandamálum í réttu hlutfalli vi vægi þeirra. Þegar einhver eða eitthvað veldur mér vandræðum, þá ætti ég að reyna að sjá atburðinn í samhengi við allt annað í lífi mínu – sérstaklega það góða og það sem ég skyldi vera þakklátur fyrir.

Vil ég eyða lífi mínu í áhyggjur af smámunum? Smámunum sem þurrka upp andlegt þrek mitt?

Bæn dagsins
Megi Guð forða mér frá því að hafa óþarfa áhyggjur af smámunum. Megi Hann, í staðinn, opna augu mín fyrir mikilfengleika lífsins og hinum endalausu undrum heimsins. Megi Hann veita mér þá víðsýni sem getur smækkað hinar smávægilegu og ergilegu áhyggjur mínar niður í rétta stærð – eins og flugu í dómkirkjuglugga.

Minnispunktur dagsins
Agnarsmár pirringur getur eyðilagt sýn mína.

Hugleiðing dagsins
Við höfum verið okkar eigin verstu óvinir megnið af ævinni og við höfum oft á tíðum skaðað okkur sjálf vegna “réttlátrar” gremju yfir einhverju smávægilegu. Það eru án efa fjölmargar ástæður fyrir gremju í heiminum og flestar þeirra “réttlátar”. En við getum aldrei svo mikið sem byrjað að sefa allan harm í heiminum né hagað hlutunum þannig að það geðjist öllum. Ef við höfum verið beitt óréttlæti, af öðrum eða einfaldlega af lífinu sjálfu, þá getum við forðast að auka erfiðleikana með því að fyrirgefa viðkomandi og yfirgefið þannig þann eyðileggjandi ávana sem felst í því að rifja stöðugt upp særindi okkar og niðurlægingu.

Get ég trúað því að særindi gærdagsins eru skilningur dagsins í dag, samofin við kærleika morgundagsins

Bæn dagsins
Hvort sem ég sé beittur óréttlæti eða trúi því í eigin huga, megi ég þrátt fyrir það reyna að forðast að vera gramur eða móðgaður. Þegar ég hef borið kennsl á þær tilfinningar sem eru rótin að gremju minni, megi ég þá vera sú sterka manneskja sem getur fyrirgefið og gleymt.

Minnispunktur dagsins
Við getum ekki leiðrétt allt ranglæti.

9.ágúst

Comments off

Hugleiðing dagsins
Ég hef oft tekið eftir því að það eru sterk tengsl á milli ótta míns og gremju. Ef ég óttast í laumi að vera ófullkominn, svo dæmi sé tekið, þá hættir mér til þess að vera gramur út í hvern þann sem, með gjörðum eða orðum, afhjúpar minn ímyndaða ófullkomleika. En það er yfirleitt of sársaukafullt að viðurkenna að minn eigin ótti og mínar eigin efasemdir séu orsök gremju minnar. Það er mun aðveldara að kenna “slæmri hegðun” annarra eða “eigingjörnum gjörðum” þeirra um – og nota það sem réttlætingu fyrir eigin gremju.

Geri ég mér grein fyrir því að ef ég lefi mér að vera gramur út í einhvern, þá er ég að bjóða þeirri manneskju að búa frítt í mínu höfði?

Bæn dagsins
Megi Guð hjálpa mér að komast yfir þá tilfinningu að finnast ég vera ófullkominn. Megi ég vita að ef ég met mig ætíð skör neðar en næstu manneskju, þá er ég ekki að veita skapara mínum þá viðurkenningu sem hann á skilið, hann sem hefur gefið hverju okkar einstaka blöndu hæfileika. Ég er, þegar ég er gramur, að nöldra yfir fyrirætlan Guðs. Megi ég skyggnast á bakvið ruslahrúguna af eigin gremju í leit að eigin efasemdum um sjálfan mig.

Minnispunktur dagsins
Um leið og ég byggi sjálfan mig upp, ríf ég niður eigin gremju.

8.ágúst

Comments off

Hugleiðing dagsins
Sem spilafíkill í bata þá verð ég að minna sjálfan mig á að sama hve gremja mín er samfélagslega viðurkennd, þá mun það aldrei draga úr eituáhrifum hennar gagnvart mér sjálfum. Í raun má segja að vandamálið við gremju sé svipað og vandamál spilafíknar. Hvorki póker né spilavíti er öruggt fyrir mig. Ég hef sótt góðgerðarsamkomur, oft í glaðværum félagsskap, þar sem fjárhættuspil hafa virst næstum harmlaus.

Á sama hátt og ég afþakka kurteisislega en ákveðið að taka þátt í fjárhættuspili, mun ég einnig afþakka gremju?

Bæn dagsins
Þegar reiði, sárindi, ótti eða sektarkennd – til þess að vera félagslega samþykkt – setja upp kurteisissvipinn og dulbúa sig sem gremja, megi ég forðast allt samneyti við þau. Þessar tilfinningar, eins og þær eru dulbúnar, geta verið jafn varasamar og sjálf spilafíknin.

Minnispunktur dagsins
Varist dulbúning.

7.ágúst

Comments off

Hugleiðing dagsins
Hvað getum við gert varðandi gremju okkar? Reynslan hefur sýnt að best er að skrá gremjuna á blað, lista það fólk, stofnanir eða þau lögmál og reglur sem valda okkur gremju eða reiði. Þegar ég skrái eigin gremju og spyr síðan sjálfan mig afhverju ég sé gramur, þá hef ég komist að því að í flestum tilvikum þá er það sjálfsálit mitt, fjárhagur minn, metnaður minn eða persónuleg sambönd sem hafa skaðast eða verið ógnað.

Mun ég nokkurn tíma læra að það versta í sambandi við mína eigin gremju er ég er stöðugt með hugann við að veita einhverjum makleg málagjöld?

Bæn dagsins
Megi Guð hjálpa mér að finna leið til þess að losna við gremjuna. Megi ég hætta að eyða tímunum saman í að upphugsa leikrit þar sem ég í hlutverki reiðu persónunnar, helli mér yfir eða hefni mín á þeim sem ég taldi hafa brotið á mér. Þar sem þessi leikrit verða aldrei að veruleika, megi ég þá frekar skrá niður gremju mína og skoða hvað sé á bakvið hverja og eina. Megi þetta vera leið fyrir mig til þess að koma skikkan á gremjuna.

Minnispunktur dagsins
Gremja leiðir til ofbeldis; gremja í friðsamri manneskju leiðir til sjúkleika.

6.ágúst

Comments off

Hugleiðing dagsins
Félgasskapurinn í GA kennir okkur, stundum af biturri reynslu og sársaukafullri, að gremja er aðal óvinur okkar. Gremja er helsti eyðileggingarmáttur okkar. Af gremju spretta margvíslegir aðrir andlegir kvillar, því við höfum ekki bara verið líkamlega og huglega veik, heldur andlega veik einnig. Eftir því sem við jöfnum okkur og andleg heilsa okkar fer batnandi, fer okkur líka batnandi líkamlega og huglega.

Geri ég mér grein fyrir því að fátt er jafn biturt og það að vera bitur? Sé ég að eitur biturleikans er hættulegra mér en þeim sem biturðin beinist að?

Bæn dagsins
Ég bið um hjálp við að fjarlægja hrúgu gremjunnar sem ég hef sankað að mér. Megi mér lærast að gremja getur borið margar grímur; gremja getur stafað af ótta – við að missa vinnu, missa ástvin, missa af tækifæri – gremja getur verið sárindi eða sektarkennd. Megi ég vita að Guð er minn græðir. Megi ég viðurkenna eigin þörf.

Minnispunktur dagsins
Gremja er rusl; burt með hana.