GA samtökin

Heimasíða GA samtakanna á Íslandi

Browsing Posts in Dagurinn í dag

15.janúar

No comments

Hugleiðing dagsins
Ég má aldrei gleyma því hver ég er og hvað ég sé og hvaðan ég komi. Ég verð að muna eðli þess sjúkdóms sem ég geng með og hvernig líf mitt var áður en ég kynntist GA samtökunum. Ég ætla að reyna að halda þessum minningum á lífi, en þó ekki þannig að ég velti mér upp úr fortíðinni á einhvern sjúklegan hátt. Ég ætla ekki að hræðast að njóta þess sem er fagurt og trúa því að eins og ég gefi af mér til annarra svo muni aðrir gefa af sér til mín.

Má ég við því að gleyma því hvernig lífið var, jafnvel bara í eina mínútu?

Bæn dagsins
Megi ég aldrei gleyma þeim þjáningarfullu dögum þegar spilafíknin var við völd. Megi ég aldrei gleyma því að þessir sömu dagar bíða mín ef ég hverf aftur til fyrra lífs. Megi tilhugsun um fyrri tíma einungis þjóna þeim tilgangi að styrkja mig og aðra í kringum mig, sem eru í sömu stöðu. Kæri guð, forða mér frá því að rifja upp fyrri tíma, einvörðungu til þess að grafa upp svæsnustu söguna fyrir GA félagana. Ég verð að vera á varðbergi gagnvart þeirri þrá minni að vera miðpunktur athyglinnar.

Minnispunktur dagsins
Ég afreka meira þegar ég er ekki “afreksmaðurinn.”

14.janúar

No comments

Hugleiðing dagsins
Ég viðurkenndi að ég gæti ekki unnið stríðið gegn fjárhættuspilum upp á mitt einsdæmi. Því fór ég að gera mér grein fyrir þeirri mikilvægu staðreynd að traust á æðri mátt gæti hjálpað mér að yfirstíga það sem ætíð hafði virst óyfirstíganlegt. Ég hætti þessum stöðuga flótta. Ég hætti þessari stöðugu baráttu. Í fyrsta skipti á æfinni tók ég upp á því að sætta mig við – viðurkenna. Og í fyrsta skipti á ævinni fór ég að finna fyrir algjöru frelsi.

Geri ég mér grein fyrir því að það skiptir engu máli í hvernig skóm ég er ef ég er á sífelldum flótta?

Bæn dagsins
Megi ég kynnast því frelsi sem fylgir uppgjöf fyrir æðri mætti – þeirri mikilvægu tegund uppgjafar sem þýðir ekki “að gefast upp” heldur “að gefast undir” vilja guðs. Líkt og flóttamaður á flótta frá trúarreglu, megi ég hætta að felast, víkja mér undan, flýja. Megi ég finna það frelsi sem felst í uppgjöfinni, í þeirri vitneskju að guð vill að ég verði heill og heilbrigður og að hann muni vísa mér veginn.

Minnispunktur dagsins
Uppgjöf fyrst, síðan æðruleysi.

13.janúar

No comments

Hugleiðing dagsins
GA prógramið og félagar mínir í samtökunum hafa útvegað mér ný tæki og tól til þess að takast á við lífið. Ef ég notfæri mér þessi tæki og tól af vandvirkni og reglulega, þá munu þau hjálpa mér að losna við neikvæðar tilfinningar eins og sektarkennd, kvíða, uppreisn og stolt.

Þegar ég finn til depurðar, nota ég þá þau tæki sem hafa reynst árangursrík? Eða bít ég á jaxlinn og þjáist í þögn?

Bæn dagsins
Ég lofa minn æðri mátt fyrir að hafa gefið mér þau tæki, sem hjálpa mér að ná bata, þegar ég loks viðurkenndi vanmátt minn gagnvart fjárhættuspilum og laut vilja guðs, eins og ég skildi hann. Ég þakka fyrir tólf sporin og fyrir félagsskap samtakanna, sem geta hjálpað mér að sjá sjálfan mig eins og ég raunverulega er. Ég þakka fyrir orðin og frasana sem verða, þegar skilningur okkar á þeim eykst, gunnfánar okkar þegar við fögnum því að eiga líf án spilafíknar.

Minnispunktur dagsins
Breiðið út orðin og frasana sem leiða til bata.

12.janúar

No comments

Hugleiðing dagsins
Þegar ég sest niður og gef mér tíma til þess að bera saman hvernig líf mitt er í dag og svo hvernig það var þegar ég var enn að spila, þá er munurinn ótrúlegur. En lífið er ekki alltaf dans á rósum; sumir dagar eru mun betri en aðrir. Ég á það til að sætta mig betur við slæmu dagana á andlegan og vitsmunalegan hátt frekar en á tilfinningalegan. Það eru engin augljós svör til, en hluti af lausninni liggur greinilega í stöðugri viðleitni til þess að lifa samkvæmt sporunum tólf.

Sætti ég mig við að minn æðri máttur leggur aldrei á mig þyngri byrðar en ég ræð við – einn dag í einu?

Bæn dagsins
Megi ég sækja styrk í þá vitneskju að guð leggur aldrei meira á okkur en við getum borið. Að ég geti ætíð, á einhvern hátt, þolað núverandi þrautir, en raunir heillar æfi, samanþjappaðar í eina hörmungar stund, myndu örugglega gera út af við mig. Guði sé þökk að hann leggur aldrei meiri þrengingar á okkur en við ráðum við. Megi ég muna að þjáningar gefa af sér sálarþrek.

Minnispunktur dagsins
Sársauki stundarinnar er þolanlegur.

11.janúar

No comments

Hugleiðing dagsins
Reynsla þúsunda hefur sannað að sátt og trú geta leitt til frelsis frá spilafíkn. En þegar við beitum sömu undirstöðuatriðum sáttar og frelsis á tilfinningaleg vandamál okkar, þá uppgötvum við að við öðlumst bara frelsi að hluta til. Það er jú augljóst að engum mun nokkru sinni takast að losna að fullu við hræðslu, reiði eða stærilæti. Ekkert okkar mun nokkru sinni upplifa fullkomna ást, friðsemd eða æðruleysi. Við verðum að sætta okkur við hægfara bata, með stöku afturför sem getur verið mis alvarleg.

Er ég byrjaður að láta af gamla viðhorfinu mínu “allt eða ekkert”?

Bæn dagsins
Megi guð gefa mér þolinmæði til þess að styðjast við þau undistöðuatriði sáttar og frelsis, sem eru lykillinn að bata mínum, í öllu tilfinningalífi mínu. Megi mér lærast að bera kennsl á þegar reiði, særindi, vonbrigði og hryggð byrja að grafa um sig í huga mér. Megi ég, með hjálp míns æðri máttar, finna viðeigandi aðferðir til þess að takast á við þessar tilfinningar, án þess að skaða sjálfan mig né aðra.

Minnispunktur dagsins
Tilfinningar eru raunverulegar – ég mun viðurkenna þær.

10.janúar

No comments

Hugleiðing dagsins
Eftir að ég kom í GA samtökin þá hef ég orðið æ meira var við Æðruleysisbænina. Ég sé hana á kápum dreifirita, veggjum fundarstaða og heima hjá nýjum vinum. “Guð gefi mér æðruleysi til þess að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt, kjark til þess að breyta því sem ég get breytt og vit til að greina þar á milli.”

Skil ég Æðruleysisbænina? Trúi ég á mátt hennar og nota ég hana oft? Er mér orðið auðveldara að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt?

Bæn dagsins
Guð gefi að orð Æðruleysisbænarinnar verði aldrei vélræn fyrir mér né að þau missi merkingu sína. Ég bið þess að þessi orð muni halda áfram að fá í sífellu nýja merkingu eftir því sem ég beiti þeim á fleiri tilvik í lífi mínu. Ég treysti því að ég muni finna þá úrlausn sem ég þarfnast í bæninni, sem í einfaldleika sínum, nær yfir allar aðstæður lífs míns.

Minnispunktur dagsins
Deilið með ykkur bæninni.

9.janúar

No comments

Hugleiðing dagsins
Ég átti það til að segja “Af hverju ég?” hér áður fyrr og jafnvel einstaka sinnum nú, þegar ég reyni að átta mig á því að það fyrsta sem ég þarf að sætta mig við eru núverandi aðstæður mínar, sjálfan mig eins og ég er og fólkið í kringum mig eins og það er. Á sama hátt og ég varð að sætta mig við það að ég get ekki stjórnað spilafíkn minni, þá get ég heldur ekki stjórnað fólki, stöðum og hlutum.

Er mér að lærast að sætta mig við lifið á skilmálum þess?

Bæn dagsins
Megi ég læra að hafa stjórn á þörf minni að stjórna, þeirri áráttu minni að hafa stjórn á , snyrta til, skipuleggja og setja merkimiða á lif annarra. Megi mér lærast að sætta mig við fólk og aðstæður eins og þau eru en ekki eins og ég myndi vilja hafa þau. Megi ég á þann hátt losna við þau vonbrigði sem stjórnsöm manneskja verður sífellt fyrir þegar hún reynir að stjórna lífi annarra. Megi ég vera þess albúinn að losna við þessa skapgerðarbresti mína.

Minnispunktur dagsins
Stjórn á stjórnandanum (mér).

8.janúar

No comments

Hugleiðing dagsins
Dagurinn í dag er dagurinn sem ég bað um og sem mér var gefinn styrkur fyrir. Það eitt og sér er kraftaverk. Sú staðreynd að ég sé á lífi er kraftaverkið mikla sem mun verða grunnurinn að fleiri kraftaverkum, að því tilskyldu að ég haldi mig við þá góðu hluti sem komu mér á þennan stað.

Er ég þakklátur fyrir það að mér hafi verið gefinn þessi dagur?

Bæn dagsins
Megi gæska Guðs og miskunn umlykja mig á hverjum degi lífs míns. Megi ég aldrei hætta að undrast hið mikla kraftaverk lífs míns – þá staðreynd að ég sé á líf, hér, á þesari grænu grund, og æ heilbrigðari fyrir tilstuðlan tækjanna og tólanna sem færðu mér lífsbjörgina. Fyrst að Guð kaus að gefa mér líf og viðhalda því, jafnvel í gegnum hættur spilafíknarinnar, megi ég þá ætíð hlusta eftir fyrirætlan hans varðandi mig. Megi ég alltaf trúa á kraftaverk.

Minnispunktur dagsins
Líf mitt er kraftaverk.

7.janúar

No comments

Hugleiðing dagsins
Ég er byrjaður að átta mig á hve óeðlilegt hið gamla líferni mitt var og hversu hratt það fór versnandi eftir því sem sjúkdómurinn ágerðist. Því lengur sem ég er í GA prógraminu því þægilegri verður þessi nýji lífsmáti minn. Í fyrstu var mér fyrirmunað að rétta nýliða hendina, slíkt var fyrir mér eitthvað sem var gjörsamlega útilokað. En eftir því sem tíminn líður verður þetta auðveldara og auðveldara. Að deila með öðrum reynslu minni, styrkleika og vonum er orðið eðlilegur þáttur í daglegu lífi.

Hefur mér lærst að ég get ekki haldið því sem ég hef fengið nema með því að “gefa af mér”? Ætla ég að gefa mér tíma til þess að deila með öðrum í dag?

Bæn dagsins
Megi ég deila kærleika mínum, gleði minni og fögnuði, tíma mínum, gestrisni minni, þekkingu minni á jarðneskum hlutum og trú minni á æðri mætti. Jafnvel þó ég muni ekki sjá hvaða árangur það skilar, að deila með sér, megi ég þó fyllast gleði af sjálfum verknaðinum við að deila. Megi það að deila með sér, samkvæmt áætlun guðs, verða eins eðlilegt fyrir mig og það að anda og tala.

Minnispunktur dagsins
Aldrei að vera spar á væntumþykju og hlutdeild.

6.janúar

No comments

Hugleiðing dagsins
Dr. Robert L. Custer skrifaði í formála að bláu GA bókinni að GA sé tólf spora prógram “sem leggur til burðarstoðir vonar, skipulags, og vináttu” fyrir þá sem hafa kosið leiðina að “árangursríkri aðlögun að lífi án fjárhættuspila.” Hann bætir við “þessi leið getur verið slétt yfirferðar eða holótt, hvort heldur er þá er leiðin aldrei sársaukalaus…” Sem spilafíkill í bata þá get ég í dag tekist á við hvaða óþægindi sem er, vitandi það að sársaukinn sem fylgir batanum verður aldrei eins nístandi og örvæntingarfullur og sársaukinn sem ég fann fyrir á meðan ég var enn virkur spilafíkill.

Er ég undir það búinn að sjá hvern nýjan dag í GA prógraminu sem stund lærdóms, að vaxa og taka heibrigðar ákvarðanir?

Bæn dagsins
Megi ég notfæra mér skynsamlega það val sem Guð hefur fært mér, að skipuleggja með viti hvern dag fyrir sig, án þess að gerast þræll óttans, eftirsjárinnar eða kvíðans. Ég bið þess að vilji Guðs verði þar sem ég beiti mínum eigin vilja, sem hann af gæsku sinni veitti mér.

Minnispunktur dagsins
Guð vill að minn vilji sé.