GA samtökin

Heimasíða GA samtakanna á Íslandi

Browsing Posts published in April, 2024

10.apríl

No comments

Hugleiðing dagsins
Breyting er höfuðeinkenni þess að þroskast, frá gáleysislegri hegðun yfir í yfirvegun, frá oheiðarleika yfir í heiðarleika, frá átökum yfir í æðruleysi, frá barnalegu ósjálfstæði yfir í ábyrgðarkennd hins fullorðna – allt þetta og ótalmargt annað er birtingarmynd breytinga til batnaðar. Guð einn er óbreytanlegur; guð einn þekkir allan sannleikann.

Geri ég mér grein fyrir að sá vandi sem ég átti í stafaði af skorti á mætti? Hef ég fundið mátt sem ég get lifað með – mátt sem er æðri mér sjálfum?

Bæn dagsins
Ég bið að GA prógramið verði, fyrir mig, uppkastið að breytingum – breytingum á mér. Dagar umskiptanna, frá spilafíkn yfir í bindindi, frá hjálpleysi yfir í kraft fyrir tilstuðlan guðs, geta verið grýttir. Megi guð lægja eirðarleysi mitt. Guð einn er heill og fullkominn og fyrirsjáanlegur.

Minnispunktur dagsins
Ég get lagt traust mitt á minn æðri mátt.

9.apríl

No comments

Hugleiðing dagsins
Trúin er meira en hin stærsta gjöf; að deila henni með öðrum er okkar stærsta ábyrgð. Megum við í GA prógraminu stöðugt leyta þeirrar visku og vilja sem gerir okkur kleyft að standa undir því mikla trausti sem guð hefur sett á okkur.

Ef þú biður, hví að hafa áhyggjur? Ef þú hefur áhyggjur, hví að biðja?

Bæn dagsins
Guð er hið öflugasta virki, öldubrjótur sem aldrei brestur. Megum við lofsyngja frelsun okkar og verndun. Guð gefur okkur trúna að gjöf svo við megum deila henni með öðrum. Megi ég láta hana ganga til annarra á þann hátt sem mér er unnt og með þeim kærleik sem hún var gefin mér.

Minnispunktur dagsins
Guð mun ekki bregðast okkur.

8.apríl

No comments

Hugleiðing dagsins
Oft á tíðum reyna nýliðar í GA að halda óþægilegum staðreyndum úr lífi sínu út af fyrir sig. Þeir kjósa auðveldu leiðina frekar en að stíga hið erfiða fimmta spor. Þeir sem kjósa að fara þessa leið falla nánast undantekningalaust. Þeir héldu ótrauðir áfram með hin sporin og skilja ekki hví þeir féllu. Líklegasta skýringin er sú að þeir kláruðu ekki að taka til í fortíðinni. Þeir unnu kannski 4. og 5. sporið með hangandi hendi og skildu eftir erfiðustu málin.

Hef ég viðurkennt fyrir sjálfum mér og annarri manneskju nákvæmlega í hverju yfirsjónir mínar fólust?

Bæn dagsins
Megi ég tína allt til í mínu fari sem aflaga hefur farið, óheiðarleika og harðneskju, þegar ég geri upp fortíðina. Megi ég ekki halda neinu eftir því “nákvæmlega” þýðir einmitt það að telja upp allar yfirsjónir okkar. Við höfum komist í tæri við “ruslahaug” þar sem við getum losað okkur við fyrri yfirsjónir. Megi ég notfæra mér hann, eins og til er ætlast. Megi gallar fortíðar verða sá grundvöllur sem ég byggi framtíðina á.

Minnispunktur dagsins
Styrkur framtíðar getur byggst á göllum fortíðar.

7.apríl

No comments

Hugleiðing dagsins
Andlegur og tilfinningalegur vöxtur okkar í GA prógraminu byggir meira á mistökum og bakslagi heldur en velgengni. Ef við höfum þetta í huga þá getur fall haft þau áhrif að stuðla að vexti, frekar en að draga úr honum. Í prógraminu er mótlætið besti kennarinn, nema í þeim tilvikum þar sem við neitum að hlýða á leiðsögn hans.

Tek ég leiðsögn?

Bæn dagsins
Megi ég bera virðingu fyrir öllum þáttum prógramsins, með sínum endalausu möguleikum á andlegum og tilfinningalegum þroska, svo ég geti séð fall sem lærdóm en ekki “endi alls.” Megi fall eins félaga verða okkur öllum lærdómur en ekki bara þeim sem féll. Megi fallið styrkja sameiginlega einbeitingu okkar.

Minnispunktur dagsins
Ef þú hrasar, rístu þá upp aftur.

6.apríl

No comments

Hugleiðing dagsins
Havð segjum við við manneskju sem hefur fallið, eða sem kallar eftir hjálp? Við getum flutt boðskapinn, ef viðkomandi er tilbúin til þess að hlusta; við getum deilt með henni reynslu okkar, styrk og von. Trúlegast er þó mikilvægast að sýna viðkomandi væntumþykju, segja að við séum innilega glöð að hann eða hún hafi snúið aftur og að viðkomandi geti treyst á hjálp okkar í hvívetna. Og okkur verður að vera alvara.

Get ég enn “gengið í skóla” og lært af mistökum og mótbyr annarra?

Bæn dagsins
Megi ég ætíð hafa næga væntumþykju til þess að bjóða velkominn aftur þann sem hefur fallið. Megi ég hlusta auðmjúkur á hrakfarasögu þess sem hefur fallið. Því ef ekki væri fyrir minn æðri mátt þá gæti ég staðið í sömu sporum. Megi ég læra af mistökum annarra og biðja þess að þau verði ekki mín.

Minnispunktur dagsins
Bindindi er aldrei áhættulaust.

5.apríl

No comments

Hugleiðing dagsins
Við höfum tekið eftir því að það er annað sem félagar okkar, sem falla, eiga sameiginlegt og það er óánægja með daginn í dag. “Ég gleymdi því að lifa einn dag í einu,” eða “Ég fór að gera væntingar til framtíðarinnar,” eða “Ég byrjaði að skipuleggja niðurstöður, ekki bara skipuleggja.” Þeir virtust gleyma því að við höfum bara NÚIÐ. Lífið hafði farið batnandi hjá þeim og eins og svo mörg okkar þá gleymdu þeir hversu slæmt það hafði verið áður. Þeir byrjuðu í staðinn að velta sér upp úr því hversu ófullnægjandi það væri miðað við hversu gott það gæti verið.

Ber ég daginn í dag saman við gærdaginn og átti ég mig á, í þeim samanburði, hversu gott ég hef það í dag?

Bæn dagsins
Ef dagurinn í dag dregur úr mér kjark, megi ég þá muna eftir kvíðanum og örvæntingunni sem gærdagurinn bar í skauti sér. Ef ég er óþolinmóður eftir morgundeginum, megi ég þá læra að meta daginn í dag og það hversu miklu betri hann er heldur en dagarnir þegar ég stundaði fjárhættuspil. Megi ég aldrei gleyma grundvallaratriðinu “Einn dag í einu.”

Minnispunktur dagsins
Geðveiki gærdagsins.

4.apríl

No comments

Hugleiðing dagsins
Þeir okkar sem falla eiga annað sameiginlegt, fyrir utan að hætta að stunda fundi, það er að þeir notfæra sér ekki verkfæri GA prógramsins – tólf sporin. Oftast nær segja menn; “Ég fór aldrei í sporin,” “Ég kláraði ekki fyrsta sporið,” “Ég vann sporin of hægt,” eða “Ég vann þau of hratt” eða “of snemma.” Kjarninn í því sem þeir eru að segja er að viðkomandi vissi af sporunum en auðnaðist ekki að lifa lífinu samkvæmt þeim.

Er ég að læra að verja sjálfan mig og hjálpa öðrum?

Bæn dagsins
Megi ég verða sá sem lifir samkvæmt sporunum en ekki bara sá sem hlustar. Megi mér auðnast að sjá þessi algengu atriði sem leiða til falls; of stoltur til þess að viðurkenna fyrsta sporið, of jarðbundinn til þess að finna fyrir nærveru æðri máttar, finnast yfirþyrmandi að stíga fjórða sporið – að gera óttalaus, siðferðisleg og fjárhagsleg reikningsskil í lífi okkar, vera of hlédrægur til þess að viðurkenna yfirsjónir okkar fyrir annarri manneskju. Guð, hjálpaðu mér að vinna sporin.

Minnispunktur dagsins
Hafa gát á sporunum.

3.apríl

No comments

Hugleiðing dagsins
Nánast hver einasti GA félagi, sem hefur fallið og komið aftur, hefur sömu sögu að segja, “Ég hætti að stunda fundi” eða “Ég var orðinn leiður á að heyra sömu sögurnar aftur og aftur og að sjá sömu andlitin aftur og aftur” eða “Ég hafði svo mikið að gera að ég komst ekki á fund” eða “Mér fanns ég ekki vera að fá neitt út úr fundunum.” Í stuttu máli, viðkomandi hætti að sækja fundi. GA frasi hittir naglann á höfuðið; “Þeir sem hætta að stunda fundi eru ekki viðstaddir fundi þar sem sagt er frá því hvað kemur fyrir þá sem hætta að stunda fundi.”

Mæti ég á nægilega marga fundi?

Bæn dagsins
Guð hjálpi mér að halda mig við GA prógramið. Megi ég aldrei verða of þreyttur, of upptekinn, of ánægður með sjálfan mig, of fullur leiða til þess að mæta á fundi. Nánast undantekningarlaust hverfa framangreindar ástæður eins og dögg fyrir sólu, ef ég bara mæti á fund. Þreytan og lúinn víkur fyrir æðruleysi. Þreytan verður ekki eins yfirgengileg. Sjálfsánægjan víkur fyrir árvekni. Og hvernig getur mér leiðst á stað þar sem ríkir slík gleði og bræðralag?

Minnispunktur dagsins
Mæta á fundi.

2.apríl

No comments

Hugleiðing dagsins
Hvað veldur því að við föllum? Hvað kemur fyrir manneskju sem virðist skilja og lifa samkvæmt tólf sporunum en fer samt aftur að stunda fjárhættuspil? Hvað get ég gert til þess að koma í veg fyrir að þetta gerist hjá mér? Er eitthvað sameiginlegt með þeim sem falla, eitthvað eitt sem einkennir þá? Hvert og eitt okkar getur dregið sínar eigin ályktanir, en í GA prógraminu lærum við að ákveðið aðgerðarleysi nánast gulltryggir fall.

Hlusta ég af gaumgæfni þegar GA félagi, sem hefur fallið, er svo lánsamur að koma aftur á fund og segir frá reynslu sinni?

Bæn dagsins
Megi minn æðri máttur sýna mér ef ég er kominn á fallbraut. Megi ég læra af reynslu annarra að fall og fallbraut stafar oftar en ekki af því sem ég hef ekki gert frekar en af því hvað ég hef gert. Megi ég halda áfram að koma aftur á fund.

Minnispunktur dagsins
Halda áfram að koma aftur.

1.apríl

No comments

Hugleiðing dagsins
Við forðumst ákveðna staði ef við viljum ekki falla. Fyrir okkur spilafíklana þýðir það að forðast spilavítin, spilakassana, sjoppukassana og hvern þann stað þar sem fjárhættuspil er stundað. Ákveðnar tilfinningalegar aðstæður geta líka verið hættulegar fyrir mig, eins og að leyfa gremju að vaxa úr hömlu.

Tek ég grundvallaratriði GA prógramsins með mér hvert sem ég fer?

Bæn dagsins
Megi ég læra að ögra ekki sjálfum mér með því að koma við í spilasölunum eða með því að fylgjast með pókerspili. Slík ögrun getur verið hættuleg fyrir mig, sérstaklega ef ég er eggjaður áfram, ekki einvörðungu af eigin fíkn heldur líka af þeim sem enn eru fastir í viðjum fíknarinnar og hafa glatað allri ábyrgðarkennd.

Minnispunktur dagsins
Forðast staði sem skapa fallhættu.